Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 15:59:45 (2644)


[15:59]
     Sturla Böðvarsson :
    Hæstv. forseti. Fjárlagafrv. ársins 1995 hefur verið til meðferðar í fjárln. síðustu mánuði og er nú komið til 2. umr. hér í þinginu. Formaður fjárln., hv. 7. þm. Norðurl. e., Sigbjörn Gunnarsson, hefur gert grein fyrir áliti meiri hluta nefndarinnar og þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til. Mun ég því í minni ræðu fjalla um einstaka þætti breytingartillagna og almennt um ríkisfjármálin.
    Fjárln. hóf vinnu sína við fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár í lok septembermánaðar en þá hófust viðtöl við fulltrúa sveitarfélaganna. Hefur nefndin unnið nær óslitið síðan og lagt mjög mikla vinnu í að skoða einstaka þætti frumvarpsins. Vil ég þakka meðnefndarmönnum mínum samstarfið, svo og starfsfólki þingsins og fleiri sem unnið hafa með fjárln. að undirbúningi og gerð þeirra tillagna sem hér eru kynntar og lagðar fram.
    Það sem af er þessu kjörtímabili hefur baráttan við atvinnuleysið verið forgangsatriði í mótun efnahagsstefnu stjórnvalda. Meira jafnvægi er nú í efnahagslífinu en verið hefur um áratuga skeið þrátt fyrir ýmis áföll síðustu ár vegna niðurskurðar aflaheimilda, erfiðs efnahagsástands í helstu viðskiptalöndum okkar og verðfalls á útflutningsafurðum. Á kjörtímabilinu hefur tekist að snúa meira en 20 milljarða kr. halla á viðskiptum við útlönd á árinu 1991 í afgang og horfur á næsta ári eru þær að afgangur verði þriðja árið í röð. Það langþráða markmið að stöðva erlenda skuldasöfnun hefur því náðst og raunskuldir fara nú lækkandi. Vaxtalækkun hefur haft mjög mikla þýðingu, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki og einnig ríkissjóð en með lægri vöxtum fjárfesta fyrirtæki meira og líkur eru á því að fyrirtækin ráði til sín fleira fólk þegar vextir og þar með útgjöld við rekstur lækka. Með lækkun vaxtabyrði heimilanna eykst kaupmáttur sem vissulega er mjög mikilvægt við þær aðstæður sem við búum í dag.
    Þrátt fyrir það að atvinnuleysi sé of mikið hér á landi þá hefur tekist að verjast því að atvinnuleysið komist á það stig sem er í nágrannalöndum okkar. Þennan árangur í baráttunni við atvinnuleysi má vissulega þakka ábyrgri afstöðu aðila vinnumarkaðarins en ekki síður markvissri stefnu og markvissum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, bæði í peninga- og ríkisfjármálum. ( GÁ: Hvaða ríkisstjórnar?) Trúverðug stefna í ríkisfjármálum er forsendan fyrir lægri vöxtum og eflingu atvinnulífs með auknum hagvexti og bættum lífskjörum. Ég tel að það sé vaxandi skilningur á mikilvægi þess að dregið sé úr halla ríkissjóðs, enda er flestum ljóst að hallarekstur í dag leiðir til skattahækkana á morgun. Og bætt kjör sem byggjast á skuldasöfnun eru skammgóður vermir og ávísun á verðbólgu.
    Segja má að eitt helsta viðfangsefni ríkisstjórna og Alþingis við fjárlagagerð hvers árs sé að finna leiðir til þess að draga úr ríkisútgjöldum og minnka hallarekstur ríkissjóðs. Þegar litið er til þeirra óska sem berast fjárln. Alþingis frá stofnunum, félagasamtökum og sveitarfélögum má vissulega efast um það að nokkur einasta leið sé að draga úr ríkisútgjöldum. Samt sem áður má telja fullvíst að enn megi ná talsverðum árangri með aukinni hagræðingu án þess að draga verulega úr þeirri þjónustu sem veitt er eða ganga til baka með þau markmið um framfarir í okkar ágæta landi.
    Til þess að standa megi skynsamlega að ákvörðunum um skerðingu framlaga er nauðsynlegt að fyrir hendi séu aðferðir til þess að meta árangur af rekstri ríkisstofnana og fyrirtækja ríkisins. Slíka mælikvarða þarf að leggja til grundvallar við forgangsröðun verkefna og ákvarðanir um nýja útgjaldaliði. Þetta

er eitt af allra mikilvægustu viðfangsefnum í ríkisbúskapnum. Í fjárln. er að sjálfsögðu lögð mikil vinna í að leggja mat á slíka hluti en það er alveg ljóst að það þarf að gera enn betur.
    Það er mikilvægt að stofnunum ríkisins sé sett markmið um þjónustu og þróaðir verði mælikvarðar sem nota má til að meta árangur stofnana og starfsfólks þeirra. Mikilvægur liður í slíkum aðgerðum er samningsstjórnun sem ríkisstjórnin hefur bryddað upp á. Í undirbúningi er að gera samninga við tilteknar stofnanir og þegar hafa verið gerðir slíkir samningar um þjónustu og fjárhæðir á fjárlögum til rekstrar. Á grundvelli samningsstjórnunar hefur hver stofnun frelsi til þess að sinna þeirri þjónustu sem ákveðið er að hún sjái um á grundvelli fyrir fram gerðs samnings. Með slíkum aðferðum er reynt að láta stofnanir ríkisins nálgast þá aðferðafræði og þær vinnureglur sem viðgangast á hinum almenna markaði atvinnufyrirtækja þar sem framboð og eftirspurn ræður ferðinni og markaðurinn setur fyrirtækjum og þjónustustarfsemi fastar skorður. Að vísu er það svo að sjálfsögðu að ekki er í öllum tilvikum hægt að leggja að líku rekstur atvinnufyrirtækja sem selja framleiðslu og rekstur þjónustustofnana, svo sem í skólakerfi eða í heilbrigðisstofnunum þannig að það verður að miða við aðstæður og miða við þær kröfur sem gerðar eru til stofnana í hverju tilviki fyrir sig.
    Í vinnu fjárln. síðustu mánuði og reyndar einnig á síðasta ári hefur komið í ljós að aukið aðhald í ríkisrekstrinum hefur verið að skila árangri. Stjórnendur ríkisstofnana hafa lagt mjög mikla áherslu á að ná árangri í stjórnun með hagræðingu og með markvissum vinnubrögðum, bæði við daglegan rekstur og undirbúning breytinga í rekstri stofnana og einnig við undirbúning framkvæmda. Þessu ber vissulega að fagna en sú hugarfarsbreyting sem ég vil nefna svo sem hefur orðið gagnvart hinum opinbera rekstri er e.t.v. vegna þess að með skipulegum hætti hefur undir forustu fjmrh. verið leitast við að beita faglegum vinnubrögðum við stjórnun á vegum ríkisins. Er rík ástæða til þess að vekja athygli á þeirri forustu sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson hefur haft í þessum efnum.
    Það er mitt mat að hjá mörgum ríkisstofnunum megi finna stjórnun og stjórnunaraðferðir og hæfni starfsfólks sem er með því allra besta sem gerist meðal atvinnufyrirtækja í dag. Það eru fjölmargar ástæður sem valda þessu en meðal þess sem má nefna er krafa sem uppi hefur verið um aukna ábyrgð stjórnenda og um heimildir stofnana til þess að færa inneignir í rekstri á milli ára. Það má nefna útboðsstefnu ríkisvaldsins þar sem lögð er mikil áhersla á útboð, bæði við innkaup á rekstrarvarningi og einnig vegna framkvæmda.
    Ég tel við þessa umræðu, hæstv. forseti, eðlilegt að draga þetta fram, að það hefur orðið árangur í ríkisrekstrinum. Okkur hefur tekist að draga úr ríkisútgjöldum þó að hvergi nærri hafi verið náð því markmiði að fjárlög væru hallalaus en það á sér aðrar skýringar sem ég hef farið yfir hér að framan og liggja fyrir, eins og minni tekjur.
    Mikilvægur þáttur í fjármálastjórn ríkisins og þá um leið fjármálastjórn opinberra stofnana er að til staðar séu vönduð talnagögn um búskap hins opinbera. Lög um gerð fjárlaga og ríkisreiknings voru sett fyrir hartnær 30 árum. Kröfur til færslu ríkisreiknings og uppsetningu fjárlaga hafa breyst mikið á þeim tíma sem síðan er liðinn. Unnið hefur verið að endurskoðun þessara laga á síðustu missirum og hillir nú undir niðurstöður sem ástæða er til að gera hér að umtalsefni.
    Það liggur fyrir að stöðugt meiri kröfur eru gerðar til þess að reikningshald hins opinbera lýsi sem best samhengi efnahagsmála og áhrifum opinberrar fjármálastjórnar. Þess er að vænta að tillögur svokallaðrar ríkisreikningsnefndar um fjárreiður ríkisins og um uppbyggingu ríkisreiknings og fjárlaga verði sem fyrst settar í búning frv. til laga um gerð fjárlaga og ríkisreiknings og ný lög taki sem allra fyrst gildi þannig að fjárlög og ríkisreikningur verði betur úr garði gert. Það auðveldar þingmönnum og öðrum sem þurfa að vinna með ríkisreikning og fjárlög að leggja mat á einstakar stærðir og breytingar frá einum tíma til annars.
    Við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1994 gerði ég að umtalsefni mikilvægan þátt Ríkisendurskoðunar sem eftirlitsaðila með fjármálasýslu ríkisins. Ég tel að á þessu ári hafi það komið mjög glöggt í ljós hversu brýnt það er að Ríkisendurskoðun hafi sterka stöðu og sjálfstæða stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu og að Alþingi geti og megi sem best treysta framgöngu Ríkisendurskoðunar í því vandasama verki sem henni er með lögum ætlað. Ég vil endurtaka það sem ég sagði við þá umræðu að ég tel að staða Ríkisendurskoðunar sé sterk og tel að þingmönnum beri að standa vörð um það álit sem Ríkisendurskoðun verður að hafa en Alþingi ber jafnan að gera miklar kröfur um fagleg og vönduð vinnubrögð Ríkisendurskoðunar. Mikilvægur þáttur í sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu er einmitt sterk ríkisendurskoðun, það vil ég sérstaklega undirstrika.
    Þegar vinna hófst við yfirferð fjárlagafrv. fyrir árið 1995, sem lagt var fram af fjmrh. í byrjun október, var ljóst að meiri hluti fjárln. mundi gera tillögur til breytinga um ýmsa þætti þessa frv. Það er hinn eðlilegi gangur lýðræðisins og skiptingu valdsins milli þings og framkvæmdarvalds að Alþingi fari yfir frv. til fjárlaga og geri á því þær breytingar sem samkomulag verður um. Það er jafnan svo að breytingar verða á ýmsum forsendum fjárlagafrv. frá því að það er unnið og til þess tíma að það er afgreitt frá fjárln. og samþykkt í þinginu og áherslur þingsins geta að sjálfsögðu verið aðrar en ríkisstjórnar á hverjum tíma.
    Hv. formaður fjárln. hefur gert grein fyrir nokkrum þáttum sem ekki eru til endanlegrar afgreiðslu hér við 2. umr. og verða til lokaafgreiðslu við 3. umr. fjárlaga. Nokkur atriði vil ég nefna af þeim sem fjárln. gerir tillögur um að breyta frá frv. við 3. umr. Þar má nefna framlög til sjúkrastofnana, framlög til

Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þátttöku sveitarfélaga í þeim framlögum, framlög til Háskóla Íslands og til Byggðastofnunar. Ég mun hér á eftir gera grein fyrir afstöðu minni til nokkurra af breytingartillögum meiri hluta fjárln.
    Fjárln. hefur lagt ríka áherslu á það að fara rækilega yfir greinargerðir sem stofnanir hafa sent inn til nefndarinnar og lagt mat á athugasemdir og óskir sem fyrir nefndina hafa verið lagðar. Það fer ekki á milli mála að stofnanir ríkisins, svo fjölmargar sem þær eru, eru misvel í stakk búnar til þess að draga úr starfsemi. Það er vaxandi krafa um þjónustu sjúkrastofnana. Það er vaxandi krafa um aukið námsframboð jafnt í grunnskólum, framhaldsskólum sem háskólum og það er vaxandi krafa um valkosti í þjónustu og vaxandi krafa um jöfnun á kostnaði þeirrar þjónustu sem neytendur hennar greiða. Má þar nefna orkuverð sem er gamalt deilumál og ágreiningsefni en sem betur fer hefur náðst verulegur árangur í því að jafna húshitunarkostnað þó að ekki hafi verið náð þeim markmiðum sem stjórnarflokkarnir hafa sett sér. Um það hefur fjárln. fjallað og mun gera tillögur um frekari aðgerðir í lækkun húshitunar í samræmi við yfirlýsingu stjórnarflokkanna nýverið.
    Ég vil hér á eftir nefna nokkur atriði sem ég tel sérstaka ástæðu til að draga fram af þeim fjölmörgu tillögum sem meiri hluti fjárln. gerir hér og leggur fyrir þingið. Þar vil ég fyrst nefna þá tillögu að veittar verði 20 millj. kr. til viðgerða á húseignum Alþingis. Það hefur verið Alþingi til vansa að hafa látið gömlu húsin hér við hliðina á Alþingishúsinu drabbast niður eins og raun ber vitni um. Vissulega hafa verið uppi deilur um það og skiptar skoðanir hvort Alþingi ætti að endurbyggja þessi gömlu hús sem eru reist fyrir og um aldamót eða hvort ætti að byggja nýjar, stórar byggingar á lóð þingsins.
    Tillaga forsætisnefndar þingsins var að fjármagn fengist til þess að gera við gömlu húsin svo að þau mætti nýta. Að öðru leyti er ekki tekin afstaða til áforma um byggingar á Alþingishússreitnum. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um að það verði varið nokkrum fjármunum eins og fyrr greinir á næsta ári og ég er sannfærður um að þessi hús verða borgarprýði hér í hjarta höfuðborgarinnar þegar þau hafa verið endurgerð eins og undirbúið hefur verið.
    Undir lið Háskóla Íslands eru nokkrar breytingar, en umfjöllun fjárln. um málefni Háskóla Íslands er ekki að fullu lokið. Ljóst er að Háskóla Íslands er nokkuð þröngt sniðinn stakkurinn auk þess sem gera þarf nánari skoðun á fjárþörf hins nýja Landsbókasafns -- Háskólasafns. Það er eðlileg krafa að Háskóli Íslands sé sjálfstæður. En jafnframt hljótum við að gera þá kröfu að þau fjárframlög sem veitt eru af fjárlögum til háskólans séu nýtt sem best en um það verða jafnan skiptar skoðanir.
    Það fer samt ekki hjá því að mjög margar spurningar vakna þegar rekstur háskólans er metinn eins og eðlilegt er. Vegna þess að forsvarsmenn Háskóla Íslands hafa beint spjótum sínum mjög harkalega að ríkisstjórn og Alþingi er ekki óeðlilegt að spurt sé á móti þeirrar spurningar hvort háskólinn nýti í öllu falli þá fjármuni sem hann hefur yfir að ráða eins og best verður kosið.
    Tengsl Háskóla Íslands og Landspítalans sem háskólaspítala eru eðlilega mjög náin. Forsvarsmenn stóru sjúkrahúsanna hafa vakið athygli á mikilli fjárþörf þessara mikilvægu stofnana sem veita svo mikla og sérhæfða þjónustu. Í málsvörn sinni hafa forsvarsmenn stóru sjúkrahúsanna með sama hætti og forsvarsmenn Háskóla Íslands vakið athygli á forgangsröðun fjárfestingar og framlaga á vegum ríkisins. Æðioft er af hálfu talsmanna háskólans og stóru sjúkrahúsanna vakin athygli á því að mikil fjárfesting hafi átt sér stað víða úti um land og er þá ekki sparað að nefna dæmi til þess að vekja tortryggni væntalega í þeim tilgangi að tefla fram röksemdum í þágu þeirra stofnana.
    Því hafa vaknað margar spurningar af minni hálfu þegar ég hef fjallað um framlög til Háskóla Íslands, og reyndar stóru sjúkrahúsanna einnig, hvort ekki mætti forgangsraða með öðrum hætti en gert er, t.d. á vegum háskólans og Landspítalans. Ég vildi t.d. nefna það hvort skynsamlegt sé að reka tannlæknadeild með þeim hætti sem gert er á Íslandi. Í bréfi til fjárln. Alþingis frá rektor Háskóla Íslands koma fram eftirfarandi upplýsingar um rekstur tannlæknadeildar Íslands. Sú ágæta og mikilvæga deild er í 1.600 fermetra húsnæði. Kostnaðurinn við rekstur þeirrar deildar í ár er 44,6 millj. kr. Þar eru 49 nemendur í ár, það útskrifast sex nemendur frá tannlæknadeildinni í ár en þar eru 19,1 stöðugildi. Til samanburðar má nefna að við verkfræðideild háskólans, en hún fær 87 millj. kr. af fjárlögum háskólans á þessu ári á móti 44,6 millj. kr. tannlæknadeildarinnar, eru 247 nemendur. Auðvitað er mjög erfitt að bera saman framlög til einstakra deilda háskólans, það er nánast ógerningur, en samt sem áður er rík ástæða til þess að vekja athygli á því og ekki síst vegna þeirra umræðna sem hafa verið um Háskóla Íslands og þá spurningu: Er hægt að forgangsraða með öðrum hætti? Háskólinn verður að þola að um þetta sé fjallað og vakin sé athygli á því sem gerist innan veggja háskólans ekki síður en annars staðar í þjóðfélaginu og ég tel að ómaklega hafi verið að hæstv. menntmrh. vegið því hann hefur lagt mjög ríka áherslu á það að efla menntun í landinu og ekki síst við Háskóla Íslands. En það má eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, spyrja um það hvort ekki væri allt eins hagfellt, en auðvitað er alltaf mjög viðkvæmt að spyrja slíkra spurninga, fyrir okkur Íslendinga að leita eftir að kaupa þá þjónustu sem veitt er nemendum við tannlæknadeild háskólans hjá nágrannaþjóðum okkar og spara þann feiknalega kostnað sem fylgir því að halda úti tannlæknadeild við háskólann og nýta þá fjármuni til annarra deilda háskólans eða nýrra deilda sem eru mikilvægar.
    Það má t.d. spyrja þeirrar spurningar: Hvers vegna er rekin tannlæknadeild en hefur ekki verið byggð upp deild á sviði arkitektúr? Ég tel nauðsynlegt að fram fari opin og jákvæð umræða hvað skuli starfrækt á vegum þessara stóru stofnana okkar, bæði Háskóla Íslands og annars staðar.

    Þetta er eitt af mörgum dæmum sem mætti taka, en ég tek hér af handahófi og tefli fram ef það mætti verða til einhverrar umhugsunar. Málefni Háskóla Íslands verða eins og ég gat um fyrr í ræðu minni tekin til frekari umfjöllunar við 3. umr. fjárlaga. Fjárln. er mætavel ljóst að Háskóli Íslands má ekki dragast aftur úr. Sanngjarnir menn úr Háskóla Íslands telja hann ekki vera á þeirri leið eða þurfi að vera á þeirri leið ef rétt er á málum haldið innan háskólans.
    Meiri hluti fjárln. gerir tillögur um nokkra hækkun á framlögum til jöfnunar á námskostnaði. Þar er um að ræða um það bil 12% hækkun á þeim lið en það var mat meiri hluta fjárln. að vegna verri efnahags, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum í sveitum landsins, væri ástæða til þess að létta undir með því námsfólki og þeim heimilum sem þurfa að senda unglinga til framhaldsnáms um langan veg og hafa af því mikinn kostnað. Þess er að vænta að með hækkun á framlagi sé nokkuð komið til móts við þær aðstæður sem þar eru.
    Þjóðskjalasafn Íslands er mikilvæg menningarstofnun. Með lögum er henni ætlað að aðstoða héraðsskjalasöfn við varðveislu skjala og söfnun skjala. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um að 3 millj. kr. renni til þess verkefnis sérstaklega að veita héraðsskjalasöfnum stuðning við uppbyggingu skjalasafna.
    Meiri hluti fjárln. gerir tillögur um hækkað framlag til Kvikmyndasjóðs frá því sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir og nemur hækkunin 21,5 millj. kr. þannig að framlag til sjóðsins verður á næsta ári 100 millj. kr. Viðbrögð forsvarsmanna Kvikmyndasjóðs hafa vakið nokkra athygli og í raun furðu en í ljósi þess að hér er um töluverða atvinnustarfsemi að tefla, sem getur ávaxtað allvel þau framlög sem ríkissjóður leggur sjóðnum til, er gerð tillaga um þessa hækkun og er ástæða til þess að undirstrika að gera verður kröfu til þess að stjórnendur Kvikmyndasjóðs og sú stjórn sem úthlutar úr sjóðnum gæti þess að efla íslenska kvikmyndagerð. Er þess að vænta að sú umfjöllun verði málefnalegri en talsmenn sjóðsins hafa haft uppi í málsvörn sinni fyrir sjóðnum.
    Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um að tekin verði upp framlög til íþróttasjóðs að upphæð 14,5 millj. kr. en í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir því að fella niður framlög til sjóðsins og þar með framlög til íþróttafélaga. Íþróttasjóður hefur fyrst og fremst veitt styrki til minni íþróttafélaga sem hafa ekki notið sérstakra styrkja frá sveitarfélögunum. Eftir að hafa skoðað rækilega framlög úr sjóðnum síðustu ár má ljóst vera að sjóðurinn hefur styrkt framkvæmdir hjá íþróttafélögum og ungmennafélögum sem eiga ekki í önnur hús að venda og þess vegna vill fjárln. taka upp þennan lið að nýju.
    Samvinnuskólinn á Bifröst hefur byggt upp mjög athyglisvert nám á háskólastigi. Á þessu hausti veitti hæstv. menntmrh. leyfi til þess að bæta einu ári við það námsframboð sem þar hefur verið fyrir hendi og er þar með um að ræða þriggja ára nám á háskólastigi. Endurskipulagning þessa skóla hefur vissulega vakið athygli og var mat meiri hluta fjárln. að rík ástæða væri til þess að styrkja þá viðleitni sem þar er í gangi við að efla fræðslu á sviði rekstrar og stjórnunar og gerir því tillögur um hækkun á framlagi til skólans.
    Þrátt fyrir samdrátt í hinum hefðbundna landbúnaði hefur ekki dregið úr aðsókn að bændaskólunum tveimur sem eru á Hólum og Hvanneyri. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um nokkra hækkun á framlagi til Bændaskólans á Hvanneyri, þ.e. rekstrar, vegna nýrrar stöðu aðalkennara á landnýtingarsviði við búvísindadeild. Forsvarsmenn Bændaskólans á Hvanneyri gerðu fjárln. glögga grein fyrir þeim fyrirætlunum sem uppi eru um að leggja aukna áherslu á fræðslu á sviði umhverfismála, landnýtingar, sem tengist aukinni áherslu á gróðurvernd, og bætt umhverfi. Með þessu getur Bændaskólinn á Hvanneyri farið inn á mjög athyglisverða braut sem meiri hluti fjárln. taldi ástæðu til að ýta undir og styrkja. Með þeim hætti er hægt að skjóta sterkari stoðum undir rekstur þessarar mikilvægu og merku menntastofnunar en um leið leggja nýjar áherslur í námsframboði.
    Meiri hluti fjárln. gerir hins vegar tillögu um nokkra hækkun á framlagi til endurbóta á gamla skólahúsinu á Hólum. Skólahúsið þarfnast mikilla viðgerða og er ljóst að það hús er meðal margra eigna ríkisins sem er ekki forsvaranlegt að láta dragast að leggja fjármuni til viðgerða á.
    Meiri hluti fjárln. gerir tillögur um hækkun á framlögum til nokkurra minni sjúkrastofnana en við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1994 var farið rækilega yfir stöðu nokkurra sjúkrahúsa og í framhaldi af því voru gerðir samningar milli heilbrrn. og sjúkrahúsanna á Akranesi og Neskaupstað um fjárframlög til þess að greiða halla sem hafði safnast upp á mörgum undanförnum árum. Við umræðu um fjáraukalög fyrir árið 1994 var þetta sérstaklega tekið til meðferðar.
    Eftir vandlega skoðun varð það niðurstaða meiri hluta fjárln. að sjúkrahúsin á Ísafirði, Akureyri, Stykkishólmi og St. Jósefsspítalinn í Hafnarfirði ásamt með Hlaðgerðarkoti þyrftu á hækkuðum framlögum að halda ef nýta ætti þá aðstöðu sem til staðar er á þessum sjúkrastofnunum. Án þess að ég vilji gera lítið úr þekkingu þeirra starfsmanna sem vinna í heilbrrn. við eftirlit með rekstri sjúkrastofnana er alveg ljóst að sú hætta er fyrir hendi að starfsmenn ráðuneyta meti með öðrum hætti fjárþörf stofnana sem eru í næsta nágrenni við ráðuneytin en fjárþörf þeirra stofnana sem eru í fjarlægð víðs vegar um landið. Ég tel að þróunin sem hefur orðið hjá ýmsum sjúkrahúsanna úti á landi beri merki þessa en engu að síður er alveg ljóst að á einhverjum hinna minni sjúkrastofnana þarf að huga að enn þá meiri hagræðingu og skipulagsbreytingu og formlegu samstarfi við stóru sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu sem hafa fengið alveg sérstaka skoðun og meðhöndlun hvað varðar fjármuni á þessu ári með fjáraukalögum og væntanlega í endanlegri gerð fjárlaga fyrir næsta ár. Engu að síður var það niðurstaða meiri hluta fjárln. að óumflýjanlegt væri að verða

við rökstuddum óskum fyrrgreindra sjúkrahúsa um nokkra hækkun á framlagi til rekstrar.
    Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir verulegri lækkun á framlögum til hafnargerðar. Nam sú lækkun um 200 millj. kr. frá árinu 1994. Fjárln. stóð því frammi fyrir verulegum vanda þegar kom að því að skipta fjármagni til hafnargerðar. Niðurstaðan varð sú að höfð var hliðsjón af framlögum sem gert var ráð fyrir í drögum að hafnaáætlun, sem unnin var á vegum Hafnamálastofnunar, og voru þau framlög höfð til hliðsjónar við útdeilingu á framlögum til einstakra kjördæma. Vegna þess vil ég taka fram að ég tel að ekki sé ásættanlegur kostur að binda fjárframlög til hafnargerðar í landinu við einhverja óskilgreinda hundraðshlutaskiptingu á milli kjördæma. Ég tel að með vandaðri greiningu á hafnaþörfum þurfi að gera hafnaáætlun til fjögurra ára í senn. Ég tel að hafnaáætlun þurfi að leggja fyrir þingið á næsta ári og hana eigi að byggja á rækilegri úttekt á þörfum en ekki skiptingu á grundvelli tiltekins hluta heildarfjárveitinga til hafnargerðar á hvert kjördæmi. Með skiptingu eftir höfðatölu eða óskilgreindri skiptingu milli landshluta er hætta á því að ekki séu valin mikilvægustu verkefnin í hafnargerð hverju sinni. Þetta gildir raunar um allar framkvæmdir og einnig á öðrum sviðum.
    Á því fjárlagaári, sem nú er senn að líða, var veitt sérstök fjárveiting til ferðamálasamtaka landshluta sem var inni í liðnum til Ferðamálaráðs. Vegna deilna sem spruttu milli Ferðamálaráðs og ferðamálasamtakanna varð niðurstaða meiri hluta fjárln. að 5 millj. kr. væru settar á sérstakan fjárlagalið og er ætlað til þeirra verkefna, sem ferðamálasamtök landshluta vinna að, en meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að hægt sé að halda því starfi áfram. Ég vil af þessu tilefni leggja ríka áherslu á mikilvægan þátt ferðamálasamtakanna þó að ég vilji á engan hátt draga úr þýðingu Ferðamálaráðs sem þeirrar stofnunar sem á að vinna að landkynningu og eflingu ferðaþjónustu í landinu.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér að framan greint frá nokkrum þáttum í breytingartillögum fjárln. sem ég vildi sérstaklega undirstrika en að sjálfsögðu vísa ég til þess sem hv. formaður fjárln. hefur gert grein fyrir um einstaka þætti í breytingartillögum meiri hluta fjárln. sem ég hef ekki fjallað um.
    Eins og ég gat um hér fyrr þá mun við 3. umr. fjárlaga verða gerð grein fyrir breytingartillögum við fjárlagafrv. en liggja ekki fyrir fullmótaðar á þessu stigi. Ég vil þó við þessa umræðu fagna því sérstaklega að samkomulag hefur náðst milli ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um með hvaða hætti málefni er lúta að Atvinnuleysistryggingasjóði og Innheimtustofnun sveitarfélaga verða leyst. Ég hafði fyrr í haust gert grein fyrir þeirri skoðun minni að ekki kæmi til greina að sveitarfélögin væru pínd til þess að greiða 600 millj. á næsta ári inn í Atvinnuleysistryggingasjóðinn. Ég vakti athygli á því að það væri eðlilegt að hafa þann hátt á sem nú hefur orðið niðurstaða um og sveitarfélögin beiti afli sínu á eigin forsendum og eftir aðstæðum á hverjum stað til þess að draga úr atvinnuleysi. Með því ætti að sparast þörf fyrir útgreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði og þannig mætti leysa þann vanda sem Atvinnuleysistryggingasjóðurinn annars lenti í.
    Hvað varðar Innheimtustofnun sveitarfélaga þá er alveg ljóst að lausn varð að finna á þeim vanda sem Innheimtustofnunin stendur frammi fyrir vegna slæmrar innheimtu meðlagsgreiðslna. Lögin um tekjustofna sveitarfélaga eru að mínu mati nokkuð gölluð og þurfa endurskoðunar við. Jöfnunarsjóðurinn ber ábyrgð á framlögum til Innheimtustofnunar, en eins og þau lög eru kemur það ekki í hlut allra sveitarfélaga, eins og eðlilegt verður að teljast, að standa undir og bera ábyrgð á halla sem verða kann á Innheimtustofnuninni. Slík staða er ekki ásættanleg. Þess vegna var eðlilegt að forsvarsmenn sveitarfélaga gerðu athugasemd við þá framkvæmd. Að vísu er gert ráð fyrir því í samkomulagi við sveitarfélögin að Innheimtustofnun taki lán, en þess er að vænta að sá tími sem gefst með þeim fresti sem lántaka skapar verði notaður til þess að finna varanlega lausn á málefnum Innheimtustofnunar sveitarfélaganna. Vegna málefna þeirrar stofnunar skipaði fyrrv. félmrh. nefnd sem ætlaði að gera tillögur. Hún skilaði niðurstöðu sem er að mínu mati ekki ásættanleg og í raun leysir ekki á nokkurn hátt úr þeim vanda sem þar er fyrir hjá stofnuninni að öðru leyti en því að vísa auknum útgjöldum á ríkissjóð.
    Eins og hv. formaður fjárln. gerði grein fyrir verður fjallað um Byggðastofnun við 3. umr. og mun ég ekki fara nánar út í fjárþörf þeirrar stofnunar. Það er alveg ljóst að það verður að beita mjög ákveðnum aðgerðum til þess að reyna að efla atvinnu á landinu á þeim svæðum þar sem mestur samdráttur hefur orðið, einkum í sauðfjárræktinni og það er óhjákvæmilegt og í raun eðlilegt að Byggðastofnun verði beitt til þeirra verka sem þar verður að takast á hendur. Þær aðgerðir verða bæði að beinast að því að styrkja afurðastöðvar og efla nýsköpun í atvinnustarfsemi.
    Eins og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun, sem birt var 10. des. sl., hafa stjórnarflokkarnir orðið ásáttir um skipulegar aðgerðir til þess að tryggja þann árangur sem náðst hefur í efnahagsstjórn og ríkisfjármálum það sem af er þessu kjörtímabili.
    Með yfirlýsingunni er haldið áfram á grundvelli þeirra markmiða sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa sett sér um framvindu í ríkisfjármálum og viðleitni til þess að tryggja atvinnu og bæta kjör. Í þeirri yfirlýsingu koma fram mikilvægir þættir eins og átak í vegamálum, sem vissulega eykur ríkisútgjöldin, en er engu að síður mikilvægur þáttur í því að tryggja hér viðunandi stöðu á vinnumarkaði. Stofnun nýsköpunarsjóðs er veiti lán og styrki og nýti til þess eignir Iðnþróunarsjóðs er afar mikilvægt verkefni sem ætti að geta orðið til þess að efla atvinnulífið enn frekar og skjóta stoðum undir margar atvinnugreinar. Þrátt fyrir mjög mikilvægar breytingar á skattalögum sem fyrirhugaðar eru, svo sem skattlagningu

fjármagnstekna, niðurfellingu svokallaðs ekknaskatts, afnáms tvísköttunar á lífeyrisgreiðslum, hækkun skattleysismarka og aðrar aðgerðir sem gerð er grein fyrir í fyrrnefndri yfirlýsingu, er ekki að mínu mati með nokkrum hætti hægt að halda því fram að stöðugleikanum í ríkisfjármálum sé stefnt í hættu. Vissulega hefði verið freistandi að ná meiri árangri í því að draga úr ríkisútgjöldum, en í ljósi þeirra markmiða um stöðu á vinnumarkaði, um að draga úr atvinnuleysi, er nauðsynlegt að ganga þann veg sem hér er gert ráð fyrir að ganga í ríkisfjármálum, en engu að síður að halda ríkisútgjöldunum innan þeirra marka að ekki ógni því mikilvæga markmiði að vextir lækki.
    Hæstv. forseti. Fagnefndir þingsins hafa eins og þingskapalög gera ráð fyrir fjallað um fjárlagafrv. Fyrir liggja nefndarálit og hefur fjárln. að sjálfsögðu farið yfir þau og tekið tillit til þeirra eftir því sem við verður komið. Vegna nál. hv. landbn. vil ég taka fram að tillögur nefndarinnar hafa að sjálfsögðu verið til skoðunar og vil ég vísa annars vegar til endanlegrar afgreiðslu fjáraukalaga vegna ársins 1994 og síðan til 3. umr. um fjárlagafrv., en mun ekki á þessu stigi fjalla að öðru leyti nánar um þann þátt í þessu fjárlagafrv.
    Um vanda landbúnaðarins mætti að sjálfsögðu mjög margt segja, en þær umræður vil ég geyma til umfjöllunar um fjáraukalög, eins og ég nefndi fyrr, og 3. umr. fjárlaganna.
    Hæstvirtur forseti. Ég vil svo að lokum þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir ágætt samstarf og þeim fjölmörgu sem hafa komið fyrir fjárln.