Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 17:48:52 (2647)


[17:48]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil vegna ræðu hv. 5. þm. Vestf. mótmæla þeim málflutningi sem hann hafði hér uppi þegar hann spyr með hverjum Sjálfstfl. standi og reynir síðan að færa fyrir því rök að Sjálfstfl. hafi m.a. með því að styðja aðgerðir sem tengjast afgreiðslu fjárlaga og skattalagabreytinga staðið fyrir einhverri aðför að einhverjum sérstökum hópum í þjóðfélaginu. Það væri fróðlegt að heyra skýringar á því frá hv. þm. hvers vegna Alþb. meðan það hafði tækifæri til þess beitti sér ekki með meira afgerandi hætti í skattamálum, t.d. með því að tekjutengja bætur til þess að það væri þá hægt að láta þá greiða sem meiri og betri hafa kjörin og t.d. hvers hátekjuskattur væri ekki tekinn upp á vegum alþýðubandalagsráðherra þegar Alþb. hafði fjmrh. Það væri fróðlegt að heyra skýringar þingmannsins á því.
    Síðan heldur hann því fram að Sjálfstfl. eigi Íslandsmet í skattahækkunum. Það Íslandsmet sem Sjálfstfl. stendur fyrir er það Íslandsmet að halda uppi þeim lífskjörum á Íslandi miðað við þær erfiðu aðstæður sem við búum við í dag. Það er vissulega Íslandsmet sem verður ekki slegið alveg á næstunni. En það hefur verið mjög erfitt eins og þingmaðurinn veit mætavel að standa fyrir þeim aðgerðum sem hefur þurft að standa fyrir hér í þinginu til þess að tryggja hag láglaunafólksins og það er meginútgangspunktur þeirra aðgerða sem stjórnarliðið hefur staðið fyrir.