Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 17:53:01 (2649)


[17:53]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er mjög athyglisvert þegar þm. Alþb., hv. 5. þm. Vestf., tekur til við að verja hinn svokallaða ekknaskatt og ræðst á Sjálfstfl. fyrir það að beita sér fyrir því að þessi löggjöf sem Alþb. stóð fyrir á árinu 1989 verði felld úr gildi svo að ekki sé talað um þá afstöðu sem kemur fram hjá þingmanninum að hann skuli sérstaklega mæla gegn þeirri hugmynd að hátekjur séu færðar úr því að vera taldar hjá einstaklingi 200 þús. kr. upp í það að verða taldar 225 þús. kr. Og það væri fróðlegt að heyra þingmanninn skýra það út fyrir kjósendum sínum á Vestfjörðum að það skuli alveg sérstaklega skattleggja, vegna þess að það séu hátekjur 225 þús. kr., með skatti sem alþýðubandalagsmenn treystu sér ekki til þess að fara út í en núverandi ríkisstjórn gerði. Þessi málflutningur ber þess auðvitað vitni að Alþb. veit ekki hvernig það á að bregðast við vegna þeirrar merku yfirlýsingar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa gefið um aðgerðir til þess að tryggja hag og jafna kjör í landinu.