Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 18:00:23 (2651)

[18:00]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar fjárlagafrv. var til 1. umr. var það gagnrýnt fyrir margt. Ég nefni hér aðeins fjóra mikilvæga þætti. Það var sýnt fram á að það hallamarkmið sem ríkisstjórnin setti sér, eða 6,5 milljarðar kr., stóð á brauðfótum og ýmislegt væri vanáætlað á útgjaldahlið sem í ljós kemur að staðfest er nú við 2. umr. málsins auk þess sem bent hefur verið á í umræðunni að ýmislegt virðist enn óljóst á útgjaldahlið sem einsýnt er að enn mun auka á útgjöldin.
    Í annan stað var það gagnrýnt með fullum rökum að ríkisstjórnin hefði litla viðleitni uppi til að skila efnahagsbatanum, sem boðaður er, til láglaunaheimilanna sem þó hafa helst borið uppi hitann og þungann af stöðugleikanum og efnahagsbatanum því enn á síðasta ári þessarar ríkisstjórnar virðist vera róið á sömu miðin og þrengt að kjörum láglaunaheimilanna, elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnulausra sem og áframhaldandi niðurskurður í félags-, heilbrigðis- og menntamálum. Ríkisstjórnin sýnist því harla lítið ætla að gera ef marka má það sem fram hefur komið við 2. umr. fjárlaga að snúa af þeirri braut og virðist mér í þeim aðgerðum sem hafa verið boðaðar og koma fram í skattafrv. ríkisstjórnarinnar sem hér hefur verið lagt fram að það virðist harla litlu breyta varðandi kjarajöfnun.
    Það var einnig gagnrýnt við 1. umr. málsins að forsendur fjárlaga og spá um atvinnulausa á næsta ári byggðist á harla veikbyggðum forsendum. M.a. var bent á að gert er ráð fyrir verulegum samdrætti í fjárfestingum hjá hinu opinbera eða 25% þannig að niðurskurður þar er um 3,3 milljarðar kr. sem gera má ráð fyrir að fækki verulega störfum. Hér er um að ræða niðurskurð sem nemur svipuðu og auknum fjárfestingum almennt í atvinnulífinu. Auk þess er nú ljóst að ríkisstjórnin hefur fallið frá kröfum um 600 millj. kr. framlög frá sveitarfélögunum í Atvinnuleysistryggingasjóð en á þessu og síðasta ári voru sköpuð hér um 3.300 heils árs störf vegna þessa sameiginlega átaks ríkis og sveitarfélaga sem og vegna þess að verulega var aukið fjármagn til viðhalds og vegaframkvæmda. Að auki hefur orðið veruleg búbót á þessu ári vegna Smuguveiðanna, líklega upp á 3--4 milljarða kr. sem ekkert er í hendi á næsta ári að skili sér með sama hætti. Það er því ekki einasta að fjárlagamarkmið ríkisstjórnarinnar sé í uppnámi, heldur virðist og margt benda til að spáin um tæplega 5% atvinnuleysi á næsta ári sé það einnig.
    Ég nefni einnig að við 1. umr. þessa máls var það gagnrýnt að ýmislegt virðist óljóst hvernig ætti að framkvæma í niðurskurðaráformum ríkisstjórnarinnar eins og þau birtast í fjárlagafrv. og greinargerð með því. Virðist margt af því vera harla óljóst enn þá, t.d. áform um niðurskurð í útgjöldum til heilbrigðis- og tryggingamála. Virðist svo vera að vísa eigi framkvæmdinni á ýmsum niðurskurðarþáttum sem boðaðir eru til framkvæmdarvaldsins og þá reglugerðarsetningu hjá ráðherra. Þannig er Alþingi gert að taka afstöðu til veigamikilla áforma í niðurskurði á útgjöldum til heilbrigðismála með óljósa vitneskju um hvað það þýðir í reynd fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sjúklinga eða bótaþega almannatrygginga. Þannig koma ekki fram í frv. um ráðstöfun í ríkisfjármálum nein ákvæði um útfærslu á þessum niðurskurði og ýmislegt því óljóst um hvernig kemur niður á bótaþegum almannatrygginga eða sjúklingum. Líklegt er að ríkisstjórnin geri kannski lítið í því að útfæra það á næstu vikum fram að kosningum og það verður þá lagt í hlut nýrrar ríkisstjórnar að útfæra það. En á það hefur verið bent að útgjöld í heilbr.- og trn. á árinu 1994 stefni í að vera um 2.000 millj. kr. meiri en fjárlög ársins gerði ráð fyrir og þessa fjárhæð vantaði ef halda ætti óbreyttri starfsemi í stofnunum heilbrigðismála.
    Í fjárlögum vegna næsta árs er gert ráð fyrir 800 millj. kr. niðurskurði í lífeyristryggingum, en af þeim er niðurskurðurinn 600 millj. kr. sem spara á vegna greiðslna sem elli- og örorkulífeyrisþegar hafa fengið vegna eingreiðslna eða launahækkana á vinnumarkaðnum. Það er fráleitt að gera ekki ráð fyrir fjármagni í þessar greiðslur og virðist það vera til þess eins gert að sýna minni fjárlagahalla því að ég trúi því ekki að stjórnarflokkarnir séu svo langt leiddir og kjarajöfnun sé svo fjarlæg í þeirra huga að þeir telji sig geta svipt elli- og örorkulífeyrisþega hækkunum á sínum bótum til samræmis við það sem gerist á vinnumarkaðnum. Sama á reyndar við um atvinnulausa en í bandorminum sem var ræddur í gær er einungis gert ráð fyrir að þær greiðslur komi til þeirra á yfirstandandi ári en ekki því næsta þannig að annaðhvort er að það á að svipta þessa vel settu hópa í þjóðfélaginu þessum greiðslum sem í heild nema um 800 millj. kr. eða ríkisstjórnin er vísvitandi að blekkja til að geta sýnt lægri tölur í fjárlagahalla í fjárlögum næsta árs.
    Samkvæmt fjárlagafrv. á að lækka útgjöld lífeyristrygginga til viðbótar um 250 millj. kr., bæði með endurskoðun á heimildabótum og almennri endurskoðun bótakerfisins. Vitað er að 50 millj. kr. af þessu er fjárhæð sem flyst yfir í húsaleigubótakerfið vegna þeirra elli- og örorkulífeyrisþega sem leigt hafa á almenna húsaleigumarkaðnum en fá nú húsaleigustyrki í gegnum nýtt húsaleigubótakerfi. Þá vantar að skýra með hvaða hætti og hvernig eigi að ná 200 millj. kr. sem boðað er í fjárlagafrv. Hvernig á sá útgjaldasparnaður að bitna á bótaþegum almannatrygginga? Á að lækka elli- og örorkulífeyrisgreiðslur eða hvernig á að ná þessari fjárhæð?
    Ég tel, virðulegi forseti, að það gangi varla að leyna Alþingi því hvernig spara eigi þessa fjárhæð og hæstv. heilbrrh. fái bara að valsa með það í reglugerð hvernig þessi útgjaldasparnaður bitnar á þessum hópum sem margir hverjir búa við lökustu kjörin í þjóðfélaginu og hvort og þá hve mikil kjaraskerðing felst í þessu fyrir aldraða og öryrkja og hvað með aukna gjaldtöku á sjúkrahúsum vegna ferliverka sem mig minnir að hafi átt að gefa um 100 millj. kr. Og maður spyr: Er ekki hér verið að stíga afdrifaríkt skref yfir til gjaldtöku á sjúklinga á sjúkrahúsum. Svipað virðist upp á teningnum varðandi sparnað í sjúkratryggingum sem allur virðist vera í vindinum og nánast með öllu óljóst hvernig ná eigi þeim sparnaði. Það er auðvitað spurning hvort það sé öruggt að með því að taka upp tilvísunarskyldu til sérfræðinga sparist 100 millj. kr. þegar á sama tíma er gert ráð fyrir svipaðri upphæð í sparnað á heilsugæslunni en með því að taka upp tilvísunarskyldu hlýtur það að kalla á að aukinn þungi muni leggjast á heilsugæsluna. Og hvernig á að lækka útgjöld til sjúkraþjálfunar um 50 millj. kr.? Hvort er það í formi þjónustugjalda eða með hvaða hætti á að ná þessum niðurskurði?
    Ég held að það verði að segjast að það felist varla mikill sparnaður í því að lækka fjárveitingu til sjúkraþjálfunar eða endurhæfingar en markviss endurhæfing er forvarnaraðgerð sem skilar sér í minni útgjöldum til heilbrigðismála. Mér sýnist almennt að það virðist vera lítil heildaryfirsýn í niðurskurði til heilbrigðismála, félagsmála eða menntamála heldur finnst mér þetta byggjast fremur á svona handahófskenndum ákvörðunum og lítið virðist lagt upp úr forvarna- eða fyrirbyggjandi aðgerðum í velferðarkerfinu sem er vísasti vegurinn til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu og á sjúkrahúsastofnunum. Ég tel að því sé orðið mjög brýnt að taka á því með þeim hætti að marka heildarstefnu í forvarna- og fyrirbyggjandi starfi svo að ég nefni t.d. á sviði barnaverndar eða slysavarna, endurhæfingar og vímuefnavarna en ég er sannfærð um að væri markvisst að því máli staðið sæjum við örugglega til lengri tíma litið mikinn sparnað í útgjöldum til heilbrigðismála. Enda sést í alþjóðlegum samanburði hve litlu við verjum til þessara mála almennt eins og forvarnastarfa, til félagsmála svo að ekki sé talað um til barnaverndarmála en eru síðan með há útgjöld samanborið við þessar þjóðir til heilbrigðismála sem skýrist að mínu viti mjög mikið af því að áherslurnar eru ekki rétt lagðar í þessu efni.
    Að því hafa verið leiddar líkur og kemur reyndar fram í áliti minni hluta fjárln. að um verulega vanáætlun sé að ræða í sjúkrahúsrekstri svo að skipti hundruðum millj. kr. og það virðist ljóst að verði ekki þar breyting á þá blasi við niðurskurður í þjónustu á sjúkrahúsum landsins. En mér sýnist að þarna sé kannski enn einn feluleikurinn til að fela staðreyndir í þessu efni til að sýna minni fjárlagahalla og er ekki óvarlegt að áætla að hallinn sé í raun og sanni þegar upp er staðið kannski nálægt 10 milljörðum kr. eða þar yfir í stað 6,5 milljarða sem lagt var upp með þegar fjárlagafrv. var lagt fram. En það hefur verið boðað að við 3. umr. fjárlaga megi vænta að gerð verði einhver bót á þessu, bæði varðandi sjúkrahúsreksturinn og menntamálin, ekki síst framlög til háskólans, og ég held að það sé ljóst og flestir viðurkenni að öflugt menntakerfi sé forsenda fyrir nýsköpun og uppbyggingu í atvinnulífinu. Það má spyrja hvort enn eigi að halda við þann sparnað í menntakerfinu sem var boðaður og felur í sér að takmarka aðgang námsmanna að háskólanum. Að því hefur verið spurt af háskólaráði og fleiri hvort stefna stjórnvalda sé að gera Háskóla Íslands að annars flokks háskóla og flytja æðri menntun Íslendinga úr landi.
    Ég hef, virðulegi forseti, við þessa umræðu leyft mér að flytja brtt. ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni, Valgerði Sverrisdóttur og Guðrúnu Halldórsdóttur sem felur í sér að verja skuli 30 millj. kr. til að koma á fót sumarmissiri við Háskóla Íslands. Sömu þingmenn hafa flutt á Alþingi till. til þál. um þetta sumarmissiri við háskólann. Hér er um að ræða hugmynd sem stúdentaráð háskólans hefur kynnt að gerð verði tilraun með að koma á fót sumarmissiri við háskólann á næsta ári og í framhaldi af því verði lagt mat á það hvort það verði þá framhald á þeirri starfsemi. En markmiðið með því er að gera atvinnulausum námsmönnum kleift að stunda nám yfir sumartímann við háskólann og er einkum hugsað til stúdenta sem eru án vinnu og nýta vilja tímann til náms. Einnig nýtast sumarmissiri þeim stúdentum sem flýta vilja fyrir sér við námið og létta sér róðurinn seinna meir og taka sér þá frí frá vinnu á öðrum árstíma. Ég tel að þetta bjóði upp á marga möguleika og þannig opnist möguleikar fyrir barnafólk og aðra sem hafa átt erfitt með að mæta auknum kröfum LÍN um námsframvindu ný leið til þess að skila einingum til lokaprófs. Einnig hafa verið sett fram þau mikilvægu rök fyrir sumarmissiri að með því sé verið að hvetja stúdenta til að taka sér leyfi til vinnu á öðrum árstíma og mætti það einnig létta nokkru álagi af vinnumarkaðnum yfir sumartímann og koma í veg fyrir að þúsundir námsmanna þyrptust á sama tíma út í atvinnulífið yfir sumarmánuðina.
    Hugmyndin er einnig sú að nýta mætti sumarmissiri fyrir aðra hópa sem eru án atvinnu en fyrir þá gæti verið um að ræða hluta af áætlun um endurmenntun fyrir atvinnulausa.
    Við flutningsmenn þessarar tillögu teljum mjög brýnt að þessi hugmynd komist til framkvæmda á næsta ári og því flytjum við þessa brtt. við fjárlagafrv. um að varið verði 30 millj. kr. til þessa verkefnis en kostir sumarmissiris eru mjög miklir og þeir fjármunir munu vafalítið skila sér margfalt til baka, m.a. í minna atvinnuleysi auk þess að auðvelda stúdentum nám og endurmenntun.
    Ég vil aðeins víkja hér að Framkvæmdasjóði aldraðra og fatlaðra. Í báðum þessum sjóðum hefur verið opnað fyrir heimildir til að þeir geti fjármagnað rekstur í málefnum fatlaðra og aldraðra. Báðir þessir sjóðir voru settir á laggirnar til þess að fjármagna stofnkostnað í þessum málaflokki en sérstaklega og einkum varðandi málefni fatlaðra þegar sjóðurinn var settur á laggirnar, þá höfðu þessi málefni dregist mjög aftur úr og því þurfti að gera átak við stofnun þessa sjóðs, en tilhneigingin hefur verið núna á síðari árum að nota fjármagn sjóðanna, ekki síst Framkvæmdasjóðs aldraðra, til að fjármagna rekstur í vaxandi mæli. Á tímum efnahagsþrenginga eins og hefur verið á umliðnum árum má að hluta til færa rök fyrir því að nýta megi einhvern afmarkaðan hluta þessa fjármagns í rekstur til að koma á fót brýnum stofnunum sem ella væri ekki hægt að hefja rekstur á. En þegar svo er komið að stærsti hluti fjármagnsins rennur í rekstur eins og virðist nú t.d. blasa við Framkvæmdasjóði fatlaðra þar sem þrír fjórðu hlutar fjármagsins renna til rekstrar þá er eiginlega hreinlega of langt gengið í þessu efni.
    Ég fór nokkuð inn á þetta mál við umræður í gær um ráðstafanir í ríkisfjármálum og ætla ekki að endurtaka það hér. Ég vil þó nefna eitt atriði í þessu sambandi og það eru tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Samkvæmt lögum um málefni fatlaðra er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi til ráðstöfunar óskertar tekjur Erfðafjársjóðs. Í frv. til fjárlaga á yfirstandandi ári var gert ráð fyrir og áætlað að tekjur Erfðafjársjóðs yrðu á þessu ári um 300 millj. kr. en nú hefur komið í ljós að tekjur Erfðafjársjóðs verða mun meiri á þessu ári. Í nóvember var innheimtur erfðafjárskattur 335 millj. kr. eða 35 millj. kr. meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs og að meðaltali er um það að ræða að í desembermánuði innheimtist 14% af heildartekjum Erfðafjársjóðs þannig að það gæti stefnt í á þessu ári að tekjur Erfðafjársjóðs yrðu 80--90 millj. kr. meiri en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Það er alveg skýrt í lögum um málefni fatlaðra að óskertar tekjur Erfðafjársjóðs eiga að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Engin skerðingarákvæði eru í gildi um þennan sjóð á árinu og hefur verið á undanförnum árum og er ekki gert ráð fyrir á næsta ári. Ég vil því beina orðum mínum til formanns fjárln. þar sem hann er í þingsalnum að sérstaklega verði hugað að þessu efni vegna þess að engin rök eru fyrir því og lagagrundvöllurinn er alveg skýr. Ekki er hemilt að skerða þessar tekjur, ekki er heimilt að þetta renni í ríkissjóð heldur á þetta að renna í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við fjáraukalögin sem ég tel eðlilegra að gera en við fjárlög 1995 þá núna við 3. umr. að 85 millj. bætist við Framkvæmdasjóð fatlaðra vegna yfirstandandi árs.
    Ég tel reyndar að öll rök standi til þess, ekki síst þegar verið er að bæta viðamiklum verkefnum á sjóðinn í rekstri núna fyrir næsta ár þannig að þrír fjórðu hlutar hans renna í rekstur og því veitir auðvitað sjóðum ekki af því að fá allar þær tekjur sem hann á að fá lögum samkvæmt og gæti breytt verulega stöðu sjóðsins á næsta ári ef honum yrði skilað þessum tekjum sem hann sannarlega á inni til að standa undir þeim mjög svo auknu verkefnum sem eru nú sett á hann í þessu fjárlagafrv. og kom fram í frv. um aðgerðir í ríkisfjarmálum sem rætt var í gær.
    Varðandi Byggingarsjóð verkamanna vek ég athygli á því að ekki er gert ráð fyrir því að framlag sjóðsins sé fært upp miðað við verðlag sem þó hefur verið gert á umliðnum árum. Vænti ég þess að það verði tekið til greina af hv. fjárln. við meðferð málsins við 3. umr. Einnig virðist hafa verið gengið lengra í skerðingu á honum núna fyrir næsta ár en nemur því sem ætlað var að verja til húsaleigubóta. Þá var miðað við 250 millj. kr. auk lækkunar á framlagi vegna lækkunar vaxta af lántökum sjóðsins sem gaf þá svigrúm til þess eða samtals 300 millj. en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 310 millj. auk þess sem ekki er gert ráð fyrir verðlagsuppfærslu nú í því sem fram kemur hjá meiri hluta fjárln. við þessa umræðu. Því ætti samtals að bæta inn í sjóðinn a.m.k. sem samsvarar verðlagsuppfærslunni sem er um 15 millj. kr. Það eru nokkrir peningar fyrir sjóðinn. Ríkisstjórnin sá ástæðu til þess að hækka ábyrgðargjald á húsbréfum sem skilaði 10--15 millj kr. sem var náttúrlega mjög sérkennileg aðgerð í ljósi þeirrar stöðu sem ýmis heimili eru í og eiga erfitt með að standa í skilum vegna atvinnuleysis og tekjufalls hjá fólki.
    Ég nefni í lokin að í fyrsta lagi var gert ráð fyrir í fjárlagafrv. að lækka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 200 millj. kr. með endurskoðun á fyrirkomulagi og reglum um úthlutun bóta. Meðal áforma, sem boðað var í fjárlagafrv. um sparnað, var gert ráð fyrir að endurskipuleggja og samræma störf úthlutunarnefnda og tekjutengja biðtíma eftir bótum. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að vita það meðan við fjöllum um fjárlagafrv. hvernig við eigum að ná þeim 200 millj. kr. sparnaði sem frv. gerir ráð fyrir. Í bandorminum, sem við ræddum um í gær um ríkisfjármálin, er sem betur fer ekki gert ráð fyrir þessu en maður spyr sig hvort eigi að fara einhverja bakdyraleið í þessu efni þegar þingið er farið heim og fjárlögum er lokið, þ.e. hvort hugmyndin sé að fara einhverja reglugerðarleið í því að ná sparnaðinum, um 200

millj. kr. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að fá það upplýst við umræðuna.
    Í annan stað er ástæða til þess að skoða þá við þessa umræðu eða við 3. umr. og sennilega fæst þá upplýst að spurning er hvernig á að leysa vanda Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna hækkunar á meðlagsgreiðslum. Þar stefndi í að skuldbindingar sjóðsins yrðu um 500 millj. vegna þessa en ekki 300 millj. sem er kannski ástæða til þess að hafa áhyggjur af nema það hafi þá verið leyst núna með öðrum hætti af ríkisstjórninni án þess að það hafi verið lagt fyrir Alþingi, að óttast að það geti bitnað á þjónustuframlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna ef ekki fæst þarna leiðrétting á með einum eða öðrum hætti. Það er ljóst að meðlagsgreiðslurnar hafa bitnað með nokkrum þunga á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og er ástæða til þess að skoða það sérstaklega og má vera að það hafi verð gert af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Virðulegi forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég hef lýst þeirri brtt. sem við nokkrir þingmenn flytjum um sumarmissiri við háskólann að fjárhæð 30 millj. og fært rök fyrir að feli í sér sparnað. Þó ástæða væri til þess að flytja ítarlegri brtt. bæði um útgjöld og tekjuhlið frv. sem bæði styrkti þá frv. en fæli í sér meiri kjara- og tekjujöfnun þá met ég það svo að það sé tilgangslaust við 2. umr. málsins og ég tel rétt að skoða hvernig það kemur fram þá við 3. umr. málsins frá hæstv. ríkisstjórn. Miðað við það sem ríkisstjórnin hefur lagt fram finnst mér þó líklegra að hún virðist staðráðin í því að láta það verða lokaverk sitt á kjörtímabilinu að heykjast á því að skila batanum til þeirra sem standa höllustum fæti í þjóðfélaginu.