Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 18:24:21 (2652)


[18:24]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 12. þm. Reykv. og þess sem hún sagði um Innheimtustofnun sveitarfélaga er rétt að upplýsa hv. þm. um að Samband ísl. sveitarfélaga og ríkisstjórnin hafa undirritað yfirlýsingu um það hvernig staðið verður að lausn málsins. Það er rétt hjá hv. þm. að ef mál Innheimtustofnunar leysast ekki þá skerðast þjónustuframlögin. Þjónustuframlögin ganga til sveitarfélaga sem eru af tiltekinni stærð þannig að þetta hefði ekki lent á öllum sveitarfélögum og er auðvitað ekki ásættanlegur kostur. Þetta mál hefur sem sagt verið leyst með því að gert er ráð fyrir því að heimila Innheimtustofnuninni að taka lán en tíminn síðan notaður til þess að ganga betur frá lögum um Innheimtustofnunina og tryggja það svo sem kostur er að þetta vandamál komi ekki upp. Hins vegar er meginvandinn auðvitað fólginn í slakri innheimtu barnsmeðlaga. Á því þarf einnig að taka en ég geri ráð fyrir því að hæstv. félmrh. leiti leiða í samstarfi við sveitarfélögin til þess að koma þarna á breyttri skipan.
    Hins vegar, hæstv. forseti, vil ég nefna í þessu andsvari að ekki er eins mikill sannfæringarkraftur í ræðu hv. þm. eins og var fyrst eftir að þingmaðurinn gekk út úr Alþfl. og tilkynnti þjóðinni hvernig hún hygðist leysa vanda allra sem þess þyrftu með þannig að það er nokkuð annað yfirbragð í ræðustólnum hjá hv. þm. og væri fróðlegt að heyra skýringar á því.