Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 20:33:22 (2655)

[20:33]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. fór ítarlega yfir álit minni hluta fjárln. um frv. til fjárlaga í ræðu sinni fyrr í dag. Eigi að síður vildi ég bæta við nokkrum orðum varðandi álit minni hluta nefndarinnar og víkja þá einkum að þeim kafla sem fjallar um menntamál, dóms- og kirkjumál og félagsmál, en eins og fram hefur komið í ræðum formanns fjárln. og fleiri fjárlaganefndarmanna í dag, þá á að fresta veigamiklum málum til 3. umr. Þannig að 3. umr. málsins hlýtur að verða nokkuð fyrirferðarmikil þar sem hinum venjubundnu málum, svo sem B-hluta stofnunum og 6. gr., er frestað ásamt stórum málum, svo sem málefnum sjúkrahúsanna í Reykjavík. Sjúkratryggingar, Háskóli Íslands, safnliðir og umsögn um tekjuhlið bíða 3. umr. Það er því ærið verkefni fyrir höndum þó að það sé áfangi í starfi fjárln. í dag þegar málið er lagt til 2. umr. og þær brtt. sem nefndin gerir við einstaka liði sjá dagsins ljós.
    Hv. formaður fjárln. og hv. varaformaður lögðu báðir á það áherslu í ræðum sínum hér í dag að nú væru hagstæð skilyrði í efnahagsmálum á Íslandi og það væri aðhaldssöm efnahagsstefna. Það var rætt um jafnvægi í ríkisbúskapnum. Það var rætt um hóflega kjarasamninga. Sannleikurinn er hins vegar sá að þetta fjárlagafrv. sýnir halla á ríkisbúskapnum fjórða árið í röð nú, þannig að þessari ríkisstjórn mun ekki takast að koma fjárlagafrv. í jafnvægi. Hallinn var 6,5 milljarðar þegar frv. var lagt fram. Nú er áformað að hann hækki um tæpar 400 millj. í meðförum fjárln., sem er ekki svo ýkja mikið, en síðan er það boðað að á næstu dögum muni sjá dagsins ljós ráðstafanir sem hækki þennan halla um a.m.k. 2 milljarða. Þá er hallinn kominn í tæplega 9 milljarða, en síðan eru eftir stóru málin eins og sjúkrahúsin í Reykjavík, Háskóli Íslands og fleiri mál sem verður að taka til meðferðar milli 2. og 3. umr. Ég væri því ekki hissa á því þó að fjárlagafrv. endaði eins og á fyrra ári í um það bil 10 milljarða kr. halla, það verði lendingin eftir þessa vegferð síðan í haust.
    Hv. formaður og varaformaður fjárln. fóru með afrekasögu mikla um átaksverkefni, minnkandi atvinnuleysi og hv. formaður talaði um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem sá dagsins ljós í gær og kallaði hana hvorki meira né minna en merkustu, pólitísku yfirlýsinguna í langan tíma. Ég skrifaði þetta niður eftir honum og ég verð nú að segja það að litlu verður nú Vöggur feginn, enda er von að hv. formaður fjárln. og fleiri stjórnarliðar og varaformaður þar með séu orðnir langeygir eftir aðgerðum frá ríkisstjórninni og líti þennan pappír stórum augum. Sannleikurinn er sá að þessi yfirlýsing er, eins og ég rakti í gær í ræðu minni um ráðstafanir í ríkisfjármálum, að mestu um ekki neitt. Hún er að mestu viljayfirlýsing um að ræða við aðila hingað og þangað um ákveðið mál og nú á samkvæmt yfirlýsinguni að taka á í nýsköpun. Nú rann upp ljós fyrir ríkisstjórninni, að það væri til sjóður sem héti Iðnþróunarsjóður, sem hefur verið mikið vandræðabarn og menn hafa verið að veltast með allt þetta kjörtímabil hvað eigi að gera við hann. Nú allt í einu rennur upp fyrir hæstv. ríkisstjórn ljós og er talið að vextirnir af þessum sjóði, höfuðstóll þessa sjóðs, muni geta leyst nýsköpunarmál í landinu, lagt fram áhættufjármagn og fleira og þetta eru hugmyndir sem eru auðvitað góðar og gildar. En það má spyrja sem svo: Því í ósköpunum rann þetta ekki upp fyrir hæstv. ríkisstjórn fyrr og hæstv. stjórnarliðum og formanni fjárln., sem telur þennan pappír sem kom í gær vera merkustu yfirlýsingu síðari tíma í stjórnmálum? Það má nú ekkert minna vera.
    Ég hjó eftir því að hv. varaformaður fjárln. talaði um markvissa stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og að hallarekstur í dag væri skattur á morgun, eins og hann sagði kotroskinn í ræðustól í dag. Þetta eru mennirnir sem eru að skila ríkissjóði með upp undir 40 milljarða kr. halla á kjörtímabilinu. Ég kem að þessu aðeins nánar síðar, hversu markviss stefnan í ríkisfjármálum er.
    Hv. varaformaður sagði líka að baráttan við atvinnuleysi væri forgangsatriði og lægri vextir þýddu meiri fjárfestingar og atvinnulífið mundi fjárfesta mjög grimmt á næsta ári. Ég rakti í ræðu minni við 1. umr. þessa máls þennan fjárfestingarþátt sem mér finnst vera mjög vafasamur í frv., svo að ekki sé meira sagt, vegna þess að það er reiknað með því að ríkið dragi saman fjárfestingar, þó að það eigi að setja örlítið í vegagerð til viðbótar. Sveitarfélögin eru rekin með halla núna, staða þeirra hefur versnað mjög, þannig að það er ekki að búast við að þau fjárfesti með auknum krafti á næsta ári og ég hef enga trú á öðru en að atvinnulífið noti batnandi hag, ef það verður batnandi hagur, til þess að bæta eiginfjárstöðu sína í stað þess að ráðast í miklar fjárfestingar. Þannig er nú staðan. Þar að auki er þetta frv. byggt á mjög hæpnum forsendum og bjartsýnum forsendum og það hefur komið fram hjá Þjóðhagsstofnun í viðræðum við fjárln. um hagvöxt á næsta ári. Það er vonandi að þær forsendur gangi eftir að úthafsveiðar haldist á næsta ári, við fáum góða loðnuvertíð og þar fram eftir götunum. Ég vona það svo sannarlega því að ekki veitir af. En þetta eru nú enn þá fuglar í skógi, það verður að segjast.
    Ég vil víkja örlítið að störfum fjárln. þó að hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi gert það í ræðu sinni í dag og farið yfir þau mál. Það er vissulega svo að ríkisstjórn hverju sinni ákveður ramma fjárlaga og hve miklu fé er varið til einstakra málaflokka og hve mikið fé hvert ráðuneyti hefur til þess að skipta. Þetta tilheyrir efnahagsstefnu hverrar ríkisstjórnar og efnahagsstefnunni hverju sinni. Ég geri enga kröfu til þess sem stjórnarandstæðingur, ég styð ekki þessa ríkisstjórn og geri enga kröfu til þess að hafa áhrif á það. Það er þáttur í stefnu ríkisstjórnarinnar. Hitt finnst mér oft í of ríkum mæli, að minni hluta nefndarinnar sé haldið frá ákvörðunum um skiptingu fjármuna á lokastigi og ég hef stundum sagt það svona í hálfkæringi við meðnefndarmenn mína að þeir sitji við að skipta herfanginu og tilkynni svo minni hlutanum niðurstöðuna. Ég held að þetta þurfi ekki að vera svona og nefndarmenn geti unnið í meira mæli saman heldur en gert

er að skiptingu fjármunanna, þó að minni hlutinn geri enga kröfu til þess að hafa áhrif á efnahagsstefnuna. Ég held að það væri markvissara að vinna meira að því í sameiningu.
    Ég sagði að ég mundi fara örfáum orðum um þann kafla frv. sem snýr að menntamálum, en ég veit að fleiri sem tala hér á eftir í þessari umræðu munu gera það einnig. Sannleikurinn er sá að þessi málaflokkur er afar mikilvægur, ekki síst eins og horfir nú í þjóðfélaginu. Það er nú svo að í okkar þjóðfélagi er framtíðin ekki síst undir því komin að menntun sé öflug og góð. Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands, brautskráði kandídata þann 22. okt. sl. og í ræðu sem hann hélt við það tækifæri segir hann svo, með leyfi forseta:
    ,,Til að þjóðir haldi velli í vaxandi samkeppni um takmörkuð lífsgæði er fátt vænlegra til árangurs en traust almenn menntun. Við þurfum góða grunnskóla og framhaldsskóla, nútímalega verkmenntun og fjölbreytta háskólamenntun sem veita þroska og yfirsýn og þjálfun til sérhæfðra starfa og rannsókna. Við skiljum nauðsyn þess að hvetja ungt fólk til náms og sjá starfandi fólki fyrir greiðum aðgangi að endurmenntun og viðbótarnámi svo að það geti tileinkað sér nýjungar og nýtt þær í atvinnulífi.``
    Undir þessi orð vil ég taka og þess vegna er ekki að ófyrirsynju að það sé skoðað með hverjum hætti þetta frv. rímar við þessi orð sem ég tek heils hugar undir.
    Grunnskólinn á að flytjast til sveitarfélaganna eða öllu heldur laun kennara við grunnskóla eiga að flytjast til sveitarfélaga og þá rekstur grunnskóla að fullu á næsta ári. Það er ljóst með þeim ráðstöfunum sem hafa séð dagsins ljós í frv. til fjárlaga og í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum að það á að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna í því ástandi sem hann er nú. Viðbótarfjárveitingar í frumvarpinu eru aðeins vegna fjölgunar nemenda og auk þess er gerð hagræðingarkrafa til grunnskólanna í heild, sem nemur 40 milljónum, sem étur upp bróðurpartinn af hækkuninni vegna aukins kennslukvóta. Þannig er ástandið, þannig á að afhenda sveitarfélögunum grunnskólann.
    Ég þarf í rauninni ekki að hafa mörg orð um þetta. Í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum eru ákvæði um að fresta enn einu sinni lagaákvæðum um skólamáltíðir og einsetinn skóla, þannig að það er ljóst að sveitarfélögunum er ætlað að þróa grunnskólann og það á að afhenda hann eins og hann er og það er auðvitað ekkert ljóst að sveitarfélögin sætti sig við að taka við honum með þeim fjármunum sem til hans eru ætlaðir í þessu frv. Ég þarf ekki í rauninni að hafa fleiri orð um það á þessu stigi.
    Hvað varðar framhaldsskólann þá vildi ég geta þess að það undrar mig dálítið, af því að það er mjög talað um verkmenntun í landinu, hvað ýmsir skólar sem eru tengdir atvinnuvegunum tala fyrir daufum eyrum þegar þeir fara fram á fjárveitingar til sinnar starfsemi. Ég nefni t.d. Stýrimannaskóla Íslands, Sjómannaskólann, Vélskólann og Fiskvinnsluskólann, sem er náttúrlega í þvílíku ástandi að það er ekki vansalaust. Ég horfði áðan, eins og fleiri þingmenn hafa sjálfsagt gert, á kvöldfréttirnar og horfði á fréttir af spástefnu þar sem ýmis atvinnufyrirtæki eða forsvarsmenn þeirra voru að spá um framtíðina og allir spáðu því að fullvinnsla í sjávarútvegi væri vaxtarbroddur í atvinnulífi númer eitt. Meðan svo er þá starfar Fiskvinnsluskólinn ekki og á ekki að starfa á vorönn vegna þess að málefni hans eru í nefnd. Þannig virðist stefnuleysið í þessum málum vera algert. Skólastjóri skólans kom á fund fjárln. og bað um 2 millj. kr. til að halda uppi einhverju námskeiðshaldi til þess að nýta kennslukrafta og þráðurinn slitnaði ekki. Það var ekkert hlustað á hann. Það var ekkert hlustað á beiðni Stýrimannaskólans um tækjabúnað til þess að kenna sjómönnum Íslands á siglingatæki og þar fram eftir götunum. Stefnuleysið í þessum málum virðist nefnilega vera algert. Sama er að segja um Tækniskólann, en ég þarf ekki að orðlengja mikið um hann því að málefni hans eiga að takast upp á milli 2. og 3. umr. ásamt málefnum háskólans.
    En þó að málefni háskólans eigi að bíða til 3. umr. þá var það nú svo að bæði formaður fjárln. og varaformaður viku að háskólanum hér í dag. Það hafa komið fram miklar áhyggjur forráðamanna háskólans yfir því að menntun þar sé að dragast aftur úr menntun frá háskólum nágrannalandanna. Síðan koma hér tveir stjórnarliðar upp í dag og tala báðir um að það geti komið til greina að leggja niður tannlæknadeild háskólans og kenna tannlæknaefnum erlendis. Ég hef ekkert heyrt talað um þetta úti í fjárlaganefnd og það hefur engin stefnumörkun um þetta komið frá ráðuneytinu. Ég tel það miklu heppilegra ef stjórnvöld sem nú ráða ríkjum eru búin að gefast upp á að reka háskólann eins og hann er að það komi þá tillögur um þetta frá menntmrn. og stefnumörkun í þessu efni í staðinn fyrir eitthvað almennt tal hér við 2. umr. fjárlaga. Það verður þá að vera ljóst að það sé ekki ætlunin lengur að bjóða upp á það námsframboð sem er boðið upp á núna í háskólanum og það er auðvitað betra að leggja niður einhverjar deildir heldur en að láta háskólann allan dragast aftur úr í námi, en ég er ekki enn þá búinn að missa vonina um að það sé hægt að reka það nám hér innan lands sem við rekum núna. Ég held að það sé spurning um stefnumörkun.
    Það var einnig kvartað yfir því að háskólinn og forráðamenn skóla og stofnana væru tregir til að forgangsraða. Ég hef hér undir höndum, eins og aðrir fjárlaganefndarmenn, fjárlagabeiðnir háskólans. Þar er beðið um í fyrsta lagi 95 millj. kr., sem væri fyrsta skref í þá átt að kennsla væri sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndum. Þetta er formleg beiðni og útreiknuð og rökstudd. Ég ætla ekki að eyða tíma að þessu sinni í að fara yfir þann rökstuðning. Í öðru lagi sækja þeir um aukningu vegna fjölgunar nemenda umfram áætlun í fjárlagatillögum, 60 millj. kr., og framlög í vinnumatssjóð og rannsóknasjóð sem hvetja til rannsókna, 45 millj. kr. Alls gerir það 200 millj. kr. sem háskólinn telur sig geta rekið sig með. Það kemur einnig fram að samanburður við aðra háskóla í Vestur-Evrópu sýni að kennslumagn við Háskóla Íslands er um 75% af því sem erlendis telst viðunandi og fjárveiting á nemanda í fullu námi hefur lækkað um þriðjung að raungildi á síðustu 7 árum. Þessu er ekki svarað að öðru leyti en því að í minnisblaði frá fjmrn. segir að hagræðing og nýting á húsnæði og kennslukröftum vaxi með fleiri nemendum, ef ég man rétt þeirra umsögn. Hún er á þann veg að það er eins og háskólinn sé nokkurs konar verksmiðja og eftir því sem fara fleiri þar í gegn því betri verður nýtingin.
    Hér stendur í umsögn fjmrn. um fjárlagabeiðnir háskólans, með leyfi forseta: ,,Að svo komnu máli leggur fjmrn. til að fjárveiting til Háskóla Íslands verði óbreytt frá frv. til fjárlaga 1995 og skólanum verði gert að mæta fjölgun nemenda innan síns fjárlagaramma með aðhaldi, samdrætti í kennslumagni og með því að beita ýmsum heimildarákvæðum í kjarasamningum til að halda aftur af útgjöldum, sérstaklega úthlutun til rannsókna úr vinnumatssjóði. Það er athyglisvert að fjárveitingar til rannsókna úr vinnumatssjóði taka stærri og stærri hluta af fjárveitingum til skólans og það þá væntanlega á kostnað kennslunnar.``
    Þarna er bara talað umbúðalaust um það, þegar samanburður við aðra háskóla í Vestur-Evrópu sýnir að kennslumagnið er um 75% af því sem erlendis telst viðunandi, að draga saman kennslumagnið. Þetta er nú stefnumörkunin í málefnum Háskóla Íslands, en ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð núna vegna þess að þessi mál eiga eftir að koma aftur til umræðu því að meiri hluti fjárln. hefur ekki treyst sér til að ryðja þessu út af borðinu enn þá a.m.k., hvað sem verður nú á næstu dögum.
    Það eru fáein atriði hér undir menntmrn. sem ég vil minnast á og það er eitt verkefni sem heyrir undir Þjóðminjasafn Íslands sem ég vil sérstaklega minnast á, sem er húsafriðun og Húsafriðunarsjóður, sem sækir um framlag ríkissjóðs til Húsafriðunarsjóðs en Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur þar á móti. Húsafriðun er hið þarfasta mál, en það er nú svo með húsafriðunina að hún er bæði menningarleg nauðsyn, að varðveita þann arð sem við eigum í byggingum, sem er nú ekki fjölskrúðugur miðað við aðrar þjóðir, og það hefur sýnt sig að þetta er nátengt ferðamannaiðnaðinum, ef svo má segja, í landinu og þar sem gömlum húsum hefur verið haldið til haga hefur það verið mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Ég kann dæmi um það að slík viðgerð á gömlum húsum hefur lyft heilum byggðarlögum og skapað þar miðpunkt.
    En hér segir í umsókn húsafriðunarnefndar ríkisins: ,,Allt frá gildistöku þjóðminjalaga, nr. 88 1989, hefur framlag ríkissjóðs til Húsafriðunarsjóðs verið skorið niður á fjárlögum. Í þjóðminjalögum er kveðið á um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og ríkissjóður leggi jafnt framlag til Húsafriðunarsjóðs.``
    Hér kemur fram að framlög ríkisins hafa verið skert á þessum tíma um 123,6 milljónir undanfarin fimm ár og samkvæmt frv. til fjárlaga 1995 er gert ráð fyrir að ríkissjóður skerði framlag sitt og greiði aðeins 10,5 milljónir til Húsafriðunarsjóðs. Ég satt að segja á erfitt með að skilja að það skuli ekki vera betur gert í þessum málaflokki, ekki síst vegna þess hvernig atvinnustigið er í landinu. En það er nú svo með þessar framkvæmdir einmitt, viðhald og viðgerðir gamalla húsa, að þetta er eitthvað vinnufrekasta verkefni einmitt fyrir iðnaðarmenn sem skortir oft og tíðum vinnu, sérstaklega yfir vetrartímann, að vinna að þessum viðgerðum.
    Ég dreg ekki úr því að það sé gott verkefni að fara í átak í vegamálum. Ég er mikill talsmaður þess að leggja vegi. En það er vegna þess að vegir skapa góðar samgöngur en vegagerð í dag er ekki mjög vinnuaflsfrek. En ýmis viðhaldsverkefni af þessu tagi, einkum viðhald gamalla húsa er verkefni sem útheimtir vinnuafl í ríkum mæli og ég er því hissa á því hvað er talað fyrir daufum eyrum í þessum efnum. Ég vildi líka minnast á þá ráðstöfun sem ég skil ekki og hef ekki fengið neinar skýringar á, þ.e. að fella niður framlag til listskreytingasjóðs þó að verið sé að endurskoða lögin um hann. Auðvitað er stefnumörkun í því að klippa á starfsemi sjóðsins. Það hlýtur að gefa vísbendingu um að það eigi að leggja sjóðinn niður fyrir fullt og allt, a.m.k. hafa ekki aðrar skýringar verið gefnar á því af hverju þetta fjármagn er skorið af núna. Ég tel þetta einnig mjög miður. Það er mikil gróska í myndlist í landinu og myndlistarmenn hafa bæði komið til fjárln. og áskoranir hafa komið úr ýmsum áttum um að halda þessu fjármagni inni sem var ætlað til hans en allt hefur komið fyrir ekki. Meira að segja þegar frúin aðsópsmikla kom og það var . . .  ( Gripið fram í: Frúin . . .  ) Það var frú vors hæstv. utanrrh. sem kom á fund nefndarinnar og fékk þá til að hækka framlög til Kvikmyndasjóðs um 20 millj. sem var þarft verk en listskreytingasjóður fékk ekki að fljóta með í þeirri hækkun.
    Ég vil víkja örlítið að einni stofnun undir menntmrn. en það er Námsgagnastofnun. Fjárhagur hennar hefur verið afar bágborinn og þar vantar hundruð milljóna upp á að stofnunin hafi getað sinnt hlutverki sínu. Hún fékk að vísu 17 millj. kr. hækkun sem er þó í áttina en það er langt í frá að sú stofnun geti þjónað hlutverki sínu því að auðvitað þarf að vera samfella í útgáfu og námsefnið þarf að svara kröfum tímans. Ég hef það t.d. fyrir satt að það sé kennt enn þá í námsbókum í landafræði að Sovétríkin séu við lýði. Ég held að þetta standi í námsbókum í landafræði og hef það fyrir satt að það hafi ekkert breyst í því efni að Sovétríkin séu enn þá eins og þau voru. ( StB: Það er allur varinn góður.) Það er allur varinn góður segir hv. varaformaður fjárln. Það er gott að vera varasamur en ég held að það mætti nú breyta þessu. Ég vona að ástandið verði ekki þannig aftur að ástæða sé til að láta þetta standa. Ég er hissa á því ef hv. varaformaður fjárln. vill láta þetta standa. Ég hélt að hann hefði ekki verið hallur undir það batterí sem þarna var fyrir austan. En lengi skal manninn reyna.
    Ég vil víkja örlítið að félagsmálum og Framkvæmdasjóði fatlaðra sem hefur komið til umræðu fyrr í dag. Fulltrúar framkvæmdasjóðsins voru á fundi með félmn. í morgun og höfðu áhyggjur af því háa hlutfalli sem ákveðið er að fari til rekstrar af framkvæmdafé framkvæmdasjóðsins. Sannleikurinn er sá að ekkert hefur verið rætt við þessa aðila um þessi mál. Þessir fulltrúar fundu nú að því. Þeir útilokuðu ekkert í sjálfu sér að eðlilegt væri að það færi eitthvað til reksturs. En það er nú lágmarkið að ræða við og kalla fólk, sem stýrir þessum málum, til viðræðu um það hlutfall sem gengur til þessara mála. Ég hvet til þess að málið verði tekið upp milli 2. og 3. umr. og skoðað betur og ekki síst af því að skerðingin er í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er til meðferðar í hv. efh.- og viðskn. Þá hefur þingið tækifæri til að skoða þessar forsendur upp á nýtt. Ég vildi hvetja til þess að það yrði gert. Einnig komu fram hjá þessu fólki áhyggjur vegna húsaleigubótanna sem eiga að greiðast um áramót til öryrkja og skerðir hina svokölluðu uppbót þeirra og verður til þess að í raun fá öryrkjar 2.000 kr. á mánuð sem njóta húsaleigubóta og aðrir fá 7.000 þús. kr. á mánuði. Ég held að þetta mál verði Alþingi að taka til meðferðar. Ég get þess um þetta mál þar sem ég tel að það verði að fara nánar yfir málin því hér hafi löggjafanum yfirsést og verði að fara aftur yfir þessar forsendur.
    Ég vil einnig nefna að felldur er niður liðurinn Vinnumál þar sem fjármagni hefur verið veitt til Alþýðusambands Íslands og aðila vinnumarkaðarins vegna ákveðinnar þjónustu sem þessir aðilar inna af hendi í almannaþágu. Þessum málum hefur einnig verið frestað til 3. umr. En ég nefni þetta vegna þess að ég tel að þetta málefni þurfi að lagfæra á milli 2. og 3. umr.
    Hins vegar er komin enn ein yfirlýsingin í sveitarfélagamálunum varðandi Innheimtustofnun og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, því að þessar yfirlýsingar sjá dagsins ljós reglulega á jólaföstunni svona um það leyti sem fyrsti jólasveinninn kemur. Það er hætt við að svíkja loforðið frá síðasta ári um að hætta að innheimta gjald frá sveitarfélögunum í Atvinnuleysistryggingasjóð og það er auðvitað vel að það er horfið frá því. Þar með er búið að draga til baka þá ákvörðun sem var á sínum tíma tekin um lögguskattinn sem var harðlega mótmælt á Alþingi. Einnig er búið að leysa málið um þjónustuframlög sveitarfélaga í bili með lántöku og ýta því fram á næsta ár og fyrirheit um að endurskoða löggjöf um Innheimtustofnun sveitarfélaga og innheimtu barnsmeðlaga þannig að Jöfnunarsjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar að þessu leyti. Það er mjög áríðandi að koma þessum málum á hreint svo þetta endurtaki sig ekki vegna þess að staða sveitarfélaganna er miklu verri en hún hefur verið. Sveitarfélögin standa orðið höllum fæti og staða þeirra hefur versnað um 2--3 milljarða kr. á undanförnum árum. En hagur þeirra batnaði mjög eftir tekjustofnalögin árið 1989 en nú hefur sigið aftur á ógæfuhliðina.
    Varðandi dómsmálin vil ég minnast á eitt atriði þar sérstaklega sem ekki er hlustað á og ekkert er fyrirséð í fjárlagafrv. en það eru löggæslumál um land allt. Það er nokkuð sama hvar maður fer, a.m.k. í mínu kjördæmi og ég veit að það er víðar, að kvartanir um ófullnægjandi löggæslu eru mjög miklar. Mörg erindi liggja fyrir fjárln. um þetta mál um auknar heimildir fyrir stöðum fyrir löggæslumenn en þessu málefni hefur ekki verið sinnt. Við svo búið má ekki standa. Það er beinlínis öryggismál og þarf ekki að lýsa því að öflug löggæsla sé á þéttbýlisstöðum um allt land, ekki síður en í Reykjavík. Það getur beinlínis verið eitt af þeim atriðum sem ræður búsetu fólks hvernig búið er að í þessum efnum eins og öðrum. Það er mjög miður að ekki skuli vera hlustað á þessi erindi. Full þörf væri á því að setja sérstaka vinnu í þessi mál til að gera sér grein fyrir því hvernig má bæta hér úr brýnustu þörfinni. Ég veit að hún er fyrir hendi.
    Í öðru lagi vildi ég minnast á málefni Landhelgisgæslunnar. Þar sem ekki er séð fyrir rekstri hinnar nýju og glæsilegu björgunarþyrlu sem loks kemur nú á þessu ári og er mikill og gleðilegur áfangi. Gæslunni er ætlað að skera niður annan rekstur á móti rekstri þyrlunnar sem nemur 10 millj. á mánuði. Þetta er auðvitað óviðunandi því að Landhelgisgæslan þarf að vera öflug. Breyttar aðstæður í sjávarútvegi hafa gert það að verkum og raunar hefur alltaf verið mikil þörf fyrir öfluga landhelgisgæslu. Það kom einmitt fram í fyrirspurnatíma í gær hvað brýnt er að Landhelgisgæslan geti sinnt eftirlitshlutverki sínu á sjó eins vel og unnt er.
    Eins og ég sagði í upphafi mun 3. umr. málsins verða allfyrirferðarmikil vegna þess hve mikið stendur út af enn þá í starfi nefndarinnar og hve mörgum stórum málum hefur verið ýtt til 3. umr. Ég hóf ræðu mína á því að segja að stjórnarliðar hefðu talað af mikilli bjartsýni í dag. Þeir eru nokkuð kotrosknir í ræðustól og hafa veifað merkustu pólitísku yfirlýsingu síðari tíma. Hins vegar verð ég að segja því miður að ég er ekki eins bjartsýnn varðandi þetta frv. og efnahagsmálin almennt. Mér finnst mál málanna nú vera afkoma heimilanna í landinu, avinnumál og kjaramál. Þetta frv. tekur engan veginn á þeim málum að neinu leyti. Það er einnig byggt á ótryggum forsendum um hagvöxt og atvinnustig, því miður. Þess vegna er ég ekki bjartsýnn á að þetta frv. reynist raunhæft. Þetta er ekki innlegg í þá kjarabaráttu sem fram undan er frekar en merkasta pólitíska yfirlýsing síðari tíma sem var kynnt á Alþingi í gær.