Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 21:19:26 (2657)


[21:19]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. undrast að ég skuli gagnrýna halla ríkissjóðs og biðja um leið um auknar fjárfestingar eins og hann orðaði það. Það er mergurinn málsins og ég kom reyndar inn á það við 1. umr. þessa máls að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar hefur brugðist og þess vegna er atvinnuvandinn stærsti útgjaldavandi ríkissjóðs. Ef hjól atvinnulífsins mundu snúast þá mundi það létta undir með afkomu ríkissjóðs. Það er mergurinn málsins.
    Við minnihlutamenn í fjárln., fulltrúar Framsfl., höfum ekki flutt útgjaldatillögur við þetta frv. Og ekki flutt brtt. um útgjaldamál sem við vitum að hv. stjórnarliðar muni fella í þinginu því það er búið að berja þá saman. Þeir ætla líklega að stjórna áfram. En atvinnustefnan er veigamesti þátturinn í þessu.
    Varðandi grunnskólann þá sýnir frv. hvernig ríkið vill hafa grunnskólann og ráðstafanir í ríkisfjármálum sýna það. Það er þá sveitarfélaganna að efla grunnskólann. Það var það sem ég átti við. Ég geri mér alveg fullkomlega grein fyrir því að það verða ákveðnar fjárveitingar á sínum tíma. En stefnumörkunin liggur fyrir af hálfu ríkisvaldsins.