Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 21:21:17 (2658)


[21:21]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hvar er hinn margrómaða efnahagsbata að finna sem hæstv. forsrh. boðaði í sumar sem leið og hefur síðan verið endurtekið? --- Nú réttir hæstv. fjmrh. upp höndina. Það er eitthvað nýtt ef það er að finna bata hjá honum varðandi fjármálin því það er ekki að heyra í þingsölum og ekki að finna í fjárlagafrv. En hver stjórnarliðinn af öðrum sem hér stendur upp magna upp batann í andanum en draga svo úr jafnharðan enda eðlilegt vegna þess að efnahagsbatinn er hvergi áþreifanlegur í þjóðfélaginu, því miður. Það má eiginlega segja að þessi uppsveifla sé aðeins á Austurvelli, hún nái ekki lengra. En með jöfnu millibili þá sveifla þeir sér upp hér ákveðnir hv. þm. og hæstv. ráðherrar. ( SJS: Þeir eru svo léttir sumir.) Þeir eru svo léttir sumir, segir einn hv. þm. Já, með jöfnu millibili eru þeir léttir og þyngjast svo á milli þegar raunveruleikinn blasir við þeim.
    Það var t.d. ekki mikinn bata að finna í nýja undrinu frá hæstv. ríkisstjórn sem birt var um helgina sem hv. formaður fjárln. sagði að væri merkasta pólitíska yfirlýsing um langan tíma og flokksbróðir hans, formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., sagði daginn sem undrið fæddist hafa verið einn besta dag í lífi hans í þessu stjórnarsamstarfi. Það var ekkert minna. Þá fór maður að sjálfsögðu að hugsa: Óskaplega hafa þetta verið daprir dagar og erfiðir ef þetta lítilræði gat lyft þeim svona hátt í hæðir.
    Það er knálega orðað þetta plagg: ,,Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun.`` Þetta er knálega orðað. En innihaldið er ekki alveg jafnknálegt. Að vísu eykur það fjárlagahallann um 2,5 milljarða ef þetta yrði nú keyrt í gang vegna þess að menn treysta sér ekki til að leggja á skatta á móti. Menn treysta sér ekki til þess. Þeir ætla að bíða eftir því að sjálfsögðu að stjórnarandstaðan í dag geri það enda eru þeir búnir að bjóða þeim sæti í þeirri nefnd sem á að semja lög varðandi fjármagnstekjuskattinn. Nei, hæstv. fjmrh. treystir sér ekki til þess. Þetta á allt að gerast á næsta ári. Það er svolítið athyglisvert að okkur í stjórnarandstöðunni skuli allt í einu vera boðið að taka þátt í þessu því ekki var okkur boðið að taka þátt í endurskoðun sjávarútvegsstefnu og ekki endurskoðun á skólamálum almennt. En í þessu já, gjörið þið svo vel, þið megið taka þátt í þessu. Það er vegna þess að sjálfsögðu að stjórnin er hrædd við að leggja skatt á þessa aðila, fjármagnseigendur í landinu. Þeir treysta sér ekki til þess, að sjálfsögðu ekki. Með þessu plaggi er ríkisstjórnin að leggja 2,5 milljarða a.m.k. í aukinn fjárlagahalla.
    Mig langar að taka einn punkt úr þessari yfirlýsingu sem var eiginlega upphaf ræðu hv. formanns fjárlaganefndar í dag. Það er úr 3. kafla í þessu merka plaggi um nýsköpun í atvinnulífi og markaðssókn og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að treysta enn frekar undirstöður íslensks atvinnulífs og skapa fleiri störf mun ríkisstjórnin leggja fram frumvarp um nýsköpun í atvinnulífinu. Með því verður greitt fyrir vöruþróun og markaðssókn erlendis, m.a. á EES-svæðinu. Aðgerðir þessar munu ná til allra atvinnugreina. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið sérstakar aðgerðir til þess að auka erlendar fjárfestingar hér á landi.``

    Þetta var upphaf ræðu hv. formanns fjárln. Hann lagði út frá þessum orðum. Maður spyr sig: Voru þessir menn að vakna af dvala? Eru ekki tvö ár síðan að hér var samþykkt að ganga í hið Evrópska efnahagssvæði? Hvað hafa menn verið að gera allt þetta ár? Ég spyr. Jú, að sjálfsögu lögðu þeir 2 millj. kr. í sendiráðið í London einmitt í þessum tilgangi. Ég veit ekki í hvað það fór nákvæmlega en þeir geta kannski svarað því. Það er einmitt mál sem er í rannsókn um þessar mundir. En hvernig á maður að trúa því núna að það eigi að fara fram einhver sérstök aðgerð til að nota þau tækifæri sem við höfum á hinu Evrópska efnahagssvæði? Af hverju skyldum við trúa því í dag? Af hverju skyldum við trúa því akkúrat í dag að þessir aðilar ætli að fara af einhverjum krafti í nýsköpun?
    Ég nefni dæmi. Í maí var samþykkt svokölluð Vestfjarðaaðstoð. Hvernig hefur það mál gengið fyrir sig? Sú ágæta aðstoð sem Vestfirðingar áttu að fá hefur nú verið til umræðu alllengi en þetta frv. sem varð að lögum í maí í ár hét Ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla. Það er fyrst í dag eftir allan þennan tíma sem verið er að úthluta smáhluta af þessum 300 millj. sem var nú ekki stór upphæð. Það var í dag sem Byggðastofnun var að gefa grænt ljós á 100 millj. kr. til þriggja fyrirtækja á þessu svæði. Það tók allan þennan tíma.
    Ég nefni annað dæmi. Á sama tíma og því var lofað að Vestfirðingar fengju þessa aðstoð þá var því einnig lofað að sérstaklega yrði skoðað það svæði á utanverðu Snæfellsnesi sem nú heitir Snæfellsbær sem er líkt varðandi atvinnumál og á Vestfjörðum. Þessi skoðun hefur staðið yfir síðan í desember í fyrra. Henni er ekki lokið enn þá. Hún hefur staðið yfir í ár. Það er ekki af því að það séu svo mörg fyrirtæki á þessu svæði og ekki af því að atvinnulífið sé svo flókið. Það er vegna þess að ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt í þessu máli. Hún hefur aldrei ætlað að gera neitt. Þess vegna þegar maður les þessar línur á bls. 2 þá trúir maður ekki orði og veit að það verður ekkert gert í þessu máli. Mig langar til að spyrja í þessu sambandi: Hvenær eigum við von á þessu frv. til laga um nýsköpun í atvinnulífi og markaðssókn? Er þetta frv. tilbúið hjá hæstv. ríkisstjórn? Hvenær fáum við að sjá þetta frv.?
    Það er nú svo að þó þetta líti nú vel út þá eru fleiri liðir sem manni finnast harla ótrúlegir miðað við það sem við höfum upplifað síðustu þrjú ár. T.d. er í 13. lið í þessu sama plaggi um lækkun húshitunarkostnaðar og, með leyfi forseta, stendur hér:
    ,,Ríkisstjórnin mun hefja viðræður við orkusölufyrirtækin með það fyrir augum að efna til samstarfs um að lækka húshitunarkostnað á dýrustu svæðunum umfram það sem þegar hefur verið gert af hálfu stjórnvalda með niðurgreiðslum og yfirtöku skulda orkufyrirtækja.``
    Hvað hefur gerst í þessu máli? Það var lagður virðisaukaskattur á alla orku í landinu. ( Gripið fram í: Mishár.) Það er akkúrat það sem ríkisstjórnin hefur gert, að leggja virðisaukaskatt á alla orku í landinu. Það eru nú lækkunaraðgerðirnar. Og núna þegar þessi ríkisstjórn er að syngja sinn svanasöng þá vildi maður fá aðeins nánari útskýringar á hvernig þeir ætla að fara að því að lækka húshitunarkostnað á köldu svæðunum á landinu. Ég vildi óska að satt væri og þeir mundu drífa það af áður en þeir hverfa héðan á brott en ég hef enga trú á að það verði. Svona er ýmislegt í þessu plaggi.
    Hvar er svo efnahagsbatann að finna í fjárlagafrv.? Hann er hvergi að finna þar. Ef ég tek heilbrigðismálin sérstaklega fyrir þá er enn boðaður niðurskurður í heilbrigðismálum og það er enn boðaður sérstakur skattur á sjúklinga. Þetta eru kallaðar sértekjur í fjárlagafrv. en heitir á mæltu máli bara einfaldlega sjúklingaskattur, nýjar álögur á sjúklinga. Þegar maður skoðar það hvernig þessar sértekjur hafa náðst á undanförnum árum á sjúkrahúsum þá hafa þær ekki náðst nema að litlu leyti. Þær hafa ekki náðst nema að litlu leyti og munu ekki nást nema að litlu leyti vegna þess að sjúklingar sem eru tekjulitlir geta ekki fjárhags síns vegna farið í aðgerðir sem kosta fleiri þúsund krónur. Það er ekki flóknara en svo.
    Enn eru boðaðar nýjar sértekjur á sjúkrahúsunum sem þýðir einfaldlega það, einföld dæmi, að allar kviðspeglanir kosta eftir áramóti 14.000 kr. Einföld rannsókn mjög mikilvæg fyrir sjúklingana. Það þýðir að þeir sem eiga ekki þessar 14.000 kr. fara ekki í þessar rannsóknir sem þýðir að þeir fá ekki sjúkdómsgreiningu eins og þeir hefðu fengið áður meðan ekki var borgað fyrir þetta að fullu eins og nú á að gerast. Það mun kannski kosta þjóðfélagið enn þá meira til lengri tíma litið því þá geta blossað upp erfiðir sjúkdómar sem hægt er að finna við þessa einföldu rannsókn. Það gerist nefnilega alveg það sama og hefur gerst varðandi tannlækningar. Það hefur gerst hjá tannlæknum að tekjulágt fólk fer ekki til tannlækna vegna þess að það hefur einfaldlega ekki efni á því.
    En af því að ég er farin að tala um tannlækna og af því að ég sé að hæstv. menntmrh. er hér þá langar mig að spyrja hann að því sem var aðalfréttaefnið í kvöld að það væri réttast að leggja niður tannlæknadeildina við Háskóla Íslands, nú langar mig að heyra hvað hæstv. menntmrh. segir um það málefni. Er hann sammála því? Mér fannst það svolítið fróðlegt að hlusta á þá sem voru með þessar tillögur að þeir voru að tala um að þeim fyndist rétt að háskólinn nýtti peningana í eitthvað annað, t.d. í sjávarútvegsnám á háskólastigi. Nú er það tiltölulega ný námsgrein og ég held að það væri gott að það kæmi betri reynsla á það áður en menn spýttu miklu fjármagni til viðbótar þó það sé allra góðra gjalda vert eitt og sér. En það væri gaman að heyra hvað hæstv. menntmrh., fyrst hann er einn fárra ráðherra í salnum, segir varðandi þessa fyrirspurn.
    Það er ýmislegt fleira varðandi heilbrigðismálin sem væri fróðlegt að spyrja hæstv. heilbrrh. um en hann er trúlega ekki í húsinu. Nei, hann er ekki hér í húsi, því miður. Ég sé nefnilega í fjárlagafrv. að áætlað er að þáttur sjúkraþjálfunar lækki um 50 millj. Mig langar að lesa bréf sem barst til hv. heilbr.- og

trn. varðandi þetta mál og skýrir vel hve þáttur sjúkraþjálfunar er mikilvægur. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig er hægt að draga 50 millj. úr þessum mikilvæga þætti. Með leyfi forseta, stendur í þessu bréfi frá Félagi íslenskra sjúkraþjálfa:
    ,,Ekki hafa fengist upplýsingar um forsendur niðurskurðarins frá heilbrrn. eða Tryggingastofnun ríkisins aðrar en þær að útgjöld til sjúkraþjálfunar hafa hækkað síðustu ár og við því þurfi að bregðast. Sjúkraþjálfarar hafa ítrekað bent á að þessi aukning er fyrst og fremst til komin vegna aðgerða heilbrigðisyfirvalda, m.a. styttri legutíma á sjúkrahúsum. Sjúklingar sem áður fengu endurhæfingu innan veggja sjúkrahúsanna þurfa nú að sækja meðferð á göngudeildir. Það var því viðbúið að þessi liður fjárlaga mundi aukast.
    Hjálagt eru upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins um kostnað vegna sjúkraþjálfunar. Eins og sést á yfirlitinu er það meðferð sjúklinga sem fá fría sjúkraþjálfun 100% sem hefur hækkað mest. Er það fólk sem hefur ævilangar fatlanir og langvinna sjúkdóma sem flokkast þar undir. Jafnframt má sjá af yfirlitinu að sjúkraþjálfun vegna íþrótta hefur aukist verulega. Engum hefur dottið í hug að skera niður þar enda sterkur hópur sem stendur vörð um íþróttamenn sem gildir því miður ekki um alvarlega sjúkt fólk og aldraða sem á sér ekki sterkan málsvara. Mörg dæmi eru til að um þennan mikla sparnað sem verður þegar endurhæfing er færð frá stofnun til göngudeildar. Eitt dæmi er að sjúklingur hefur verið í sjúkraþjálfun á göngudeild sl. þrjú ár. Sjúklingurinn hefur fengið að meðaltali 40 meðferðir á ári sem kostar þjóðfélagið 76 þús. kr. á ári. Áður en þessi háttur komst á með göngudeildarþjálfun þurfti þessi sami sjúklingur að liggja inn á stofnun í um 30 daga á ári sem kostar þjóðfélagið yfir 1 millj. kr. Þarna er augljós sparnaður.
    Með niðurskurði á göngudeildarþjónustu er hætta á að snúið verði af þessari braut og fleiri sjúklingar komist ekki til endurhæfinga á göngudeild og verði því að leita dýrari úrræða. Félag íslenskra sjúkraþjálfara hefur átt í samningaviðræðum við Tryggingastofnun ríkisins í rúmlega ár um breytingar á samningi aðila. Helstu tillögur um niðurskurð sem komið hafa frá Tryggingastofnun ríkisins eru:
    1. Að hækka hlutfall greiðslu sjúklinga úr 40 í 50%.
    2. Að fækka þeim sem fá fría sjúkraþjálfun en það er fólk sem hefur ævilanga fötlun og langvinna sjúkdóma.
    3. Að hætta að greiða fyrir ákveðna sjúkdómsflokka, svo sem vöðvabólgu.
    Allar þessar tillögur koma hart niður á sjúklingum.
    Á niðurskurðartímum hafa nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum aukið útgjöld til endurhæfingar en ekki dregið úr þeim eins og hér stendur til að gera. Þar hefur verið sýnt fram á að með endurhæfingu er hægt að gera fólk vinnufært mun fyrr eftir slys og erfið veikindi. Með niðurskurði til sjúkraþjálfunar og með breytingum á reglum nr. 14/1993, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, sem tók gildi 1. okt. sl., er almenningi torveldað að fara í sjúkraþjálfun. Það er rétt að benda á að það kostar ekkert að fá lyfseðil hjá lækni en það kostar sjúklinginn 600 kr. að fá tilvísun til sjúkraþjálfara. Við óttumst því að sjúklingar leiti í auknum mæli eftir verkjastillandi og vöðvaslakandi lyfjum í stað sjúkraþjálfunar og hvað sparar það?``
    Það er alveg augljóst að ef þessi liður verður ekki hækkaður þá verður þetta til þess að læknar munu í auknum mæli leggja þá sjúklinga sem í dag fá sjúkraþjálfun og geta verið heima hjá sér inn á sjúkrahús vegna þess að þeir geta ekki verið án þessarar meðferðar og það kostar ríkið miklu hærri upphæðir, þannig að það mun ekkert sparast við þetta, því miður, nema síður væri.
    Það eru ýmsar aðrar spurningar sem brenna á vörum okkar sem erum í heilbr.- og trn. Það er mjög slæmt að hæstv. heilbrrh. skuli ekki vera hér. Við þurfum að fá svör við því hvernig á að spara 200 millj. kr. í lyfjakostnað. Við höfum ekki fengið nein svör við því. Við þurfum að fá svör við því hvernig á að spara 100 millj. í sérfræðiþjónustu. Á að taka upp tilvísunarkerfið? Þessar 100 millj. áttu að sparast með því. En það er alveg óljóst hvort það á að taka upp þetta tilvísunarkerfi. Svo rekst þetta hvert á annars horn því þó svo það eigi að spara 100 millj. í sérfræðiþjónustu þá á líka að draga 50 millj. kr. úr heilsugæsluþjónustu sem á þó að taka við af sérfræðingunum. Það er eiginlega alveg óskiljanlegt hvernig hægt er að fá þetta heim og saman. Þá á að draga 70 millj. kr. úr rannsóknalækningum. Ég vildi gjarnan fá svör við því hvernig á að fara að því. Og stóra málið sem við verðum að fá svör við er það hvernig á að spara 850 millj. í lífeyristryggingar? Við höfum áhyggjur af því að húsaleigubætur skerði annan lífeyri. Við því verðum við að fá skýr svör hvort það er tilfellið. Vonandi er þessi ótti ástæðulaus hjá okkur en við verðum að fá svör við því hvernig á að ná þessum 850 millj. Er þetta bara plat?
    Fulltrúar stærstu sjúkrahúsanna í landinu hafa komið til hv. heilbr.- og trn. og það er alveg ljóst að mörg stærri sjúkrahús geta ekki verið með óbreyttan rekstur ef fjárlagafrv. verður samþykkt eins og það er í dag. Tökum bara Ríkisspítalana eina og sér. Þeir eiga að spara 250--300 millj. kr. og auk þess eiga þeir, bara Ríkisspítalarnir einir, að ná inn 50 millj. kr. í nýjar sértekjur, sem ég er búin að lýsa hér að er útilokað að ná. Það er útilokað að ná þeim. En þar fyrir utan eiga þeir að spara 250--300 millj. kr. Það eru 337 þús. legudagar bara á Ríkisspítölunum og þeir hafa sparað og dregið saman á öllum deildum eins og hægt er. Það er ekkert nema eitt sem er eftir, þ.e. að loka deildum. Hvar í heila heiminum getur það gerst nema á Íslandi þar sem eru byggðar glæsilegar sjúkrastofnanir, þar sem er eitt langbest menntaða fólk í heilbrigðisstéttum í heiminum? Við erum afskaplega vel tækjum búin en við getum ekki rekið þessar stofnanir. Og við rekum ekki þessar stofnanir, mörg stór og myndarleg sjúkrahús, nema á hálfum snúningi. Ég nefni Sjúkrahús Akraness sem hefur alla möguleika til að gera flestar tegundir aðgerða en hefur ekki efni á því þrátt fyrir að sérfræðingarnir séu til staðar.
    Þetta er ekki eðlilegt og því hlýt ég að taka undir með hæstv. heilbr.- og trmrh. þar sem hann sagði á fundi Ríkisspítala í dag að hann væri að skipa nefnd til að endurskoða hvernig nýta mætti þær 40 skurðstofur sem eru um allt land. Þetta er mikil fjárfesting og það er mikið hægt að nýta þessa fjárfestingu. Það þætti lélegur almennur rekstur í fyrirtækum ef það væri hagkvæmast að vinna sem minnst eins og er með þessi sjúkrahús ef þau eiga að ná endum saman. En sem betur fer sé ég í brtt. frá meiri hluta við fjárlagafrv. að það hafa komið fram nokkrar breytingartillögur um að rétta hag nokkurra sjúkrahúsa á landinu og með leyfi virðulegs forseta langar mig að lesa nokkrar breytingartillögur sem hér eru gerðar.
    Gert er ráð fyrir því að Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði fái 13 millj. kr. til viðbótar við það sem áður stendur í fjárlagafrv. og mig langar að spyrja nákvæmlega vegna þess að mér finnst að það þurfi að fara faglega yfir það þegar verið er að skerða sum sjúkrahús og auka við önnur, hvað býr nákvæmlega að baki. Mig langar að spyrja að því varðandi Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði sem fær hæstu upphæðina: Hvaða nýjungar eiga þar að fara fram? Er þetta til að geta haft óbreyttan rekstur eða er þetta vegna nýjunga?
    Ég sé hvað á að gera á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sem gerð er tillaga um að fái 15 millj. kr. í aukafjárveitingu og er það vegna öldrunarlækningadeildar.
    Á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði er gert ráð fyrir 11 millj. kr. aukafjárveitingu og mér sýnist það vera til að bæta almennan rekstur. Ef það eru einhverjar nýjungar þar langar mig til að heyra um þær. Varðandi St. Fransiskusspítalann á Stykkishólmi býst ég við að það sé til að halda bara þeim almenna rekstri sem þar er uppi. En mig langar að spyrja: Hvað ætla menn að gera við stóru sjúkrahúsin sem geta ekki haldið upp þeim rekstri sem þau hafa gert undanfarin ár með óbreyttri fjárveitingu? Það er nauðsynlegt að skoða þessi mál í heild sinni.
    Auðvitað eru mjög mörg málefni sem brenna á manni við þessa umræðu um fjárlagafrv. Gert er ráð fyrir í frv. að embætti héraðslækna falli út og mönnum hefur fundist þau störf fremur léttvæg sem héraðslæknar hafa innt af hendi en mig langar til að fræða hv. alþm. um það hvað héraðslæknum er ætlað. Í upphafi var tillaga um að héraðslæknar væru fimm að tölu, einn fyrir Reykjavík og einn fyrir hvern landsfjórðung. Embætti landlæknis átti að leggjast niður í upphafi. Í meðförum þingsins var því breytt í það horf sem enn er. Samtímis voru ýmsar embættisskyldur, sem áður hvíldu á heilsugæslulæknum, felldar niður. Embættin hafa alla tíð átt að vissu leyti erfitt uppdráttar vegna tregðu heilbrigðisyfirvalda að flytja verkefni heim í héruð. Miklar umræður hafa verið undanfarin ár um dreifingu valds í heilbrigðisgeiranum og að færa ábyrgð bæði fjárhagslega og faglega nær heilbrigðisstofnunum. Þannig var samþykkt á Alþingi árið 1991 þáltill. um héraðsskrifstofur heilbrigðismála sem þó hafa ekki leitt til neinna breytinga. En störf héraðslækna eru sem hér segir: Seta í heilbrigðismálanefnd, formennska í svæðisnefnd heilbrigðiseftirlits, seta í svæðisráði fatlaðra, umsagnaraðili fyrir þing og önnur yfirvöld, embættislækningar fyrir ýmis yfirvöld í héraði, t.d. í málum sem snerta vottorð geðsjúkra og mannskaðarannsóknir, kvörtunaraðili sem almenningur og starfsfólk í heilbrigðisþjónustu getur leitað til, seta í inntökuhópi fyrir verndaðan vinnustað og ýmis önnur tilfallandi störf og uppákomur.
    Mér finnst nauðsynlegt að fram komi hver eru laun héraðslækna utan Reykjavíkur en þau eru 24.008 kr. á mánuði fyrir skatt. Við erum því ekki að tala um stór embætti. En ég tel að þessi embætti séu mjög mikilvægur tengiliður og að frekar eigi að efla þau en að þynna þau svona út. Þó svo í þessu frv. sé aðeins gert ráð fyrir að falli niður embætti héraðslæknis í Reykjavík og á Akureyri er þetta auðvitað skref til þess að leggja þetta alfarið niður. Í frv. er heilsugæslulæknum ætlað að taka þetta yfir en það hlýtur að verða að setja meiri peninga í landlæknisembættið ef það á að leggja niður bæði þetta embætti á Akureyri og eins í Reykjavík. Við sjáum það í fjárlagafrv. að gert er ráð fyrir aukinni starfsemi hjá landlækni. Það eru 5 millj. komnar aukalega sem er tilgreint nákvæmlega í hvað á að fara en ég tel það líka hljóti að vera að það sé til að dekka aukin verkefni.
    Það er von að maður spyrji sig hvar efnahagsbata sé að finna. Það er alla vega ekki að finna mikinn efnahagsbata þegar maður les yfir fjárlagafrv. hvað varðar heilbrigðismál í landinu.