Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 21:51:36 (2659)


[21:51]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. spurði hvernig stæði á þeirri 13 millj. kr. viðbótarfjárveitingu sem gert er ráð fyrir í tillögum meiri hluta fjárln. vegna Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Því er til að svara að ætlunin er á næsta ári að taka í notkun nýja hjúkrunarálmu á sjúkrahúsinu sem þegar er lokið byggingu við. Það er ljóst að ef þetta viðbótarfjárframlag kæmi ekki til yrði sú starfsemi í algeru skötulíki á næsta ári. Ef hv. þm. hefði lesið greinargerð fjárlagafrv. hefði hann séð að gert er ráð fyrir því að 27 millj. kr. viðbótarfjárveiting hefði komið til sjúkrahússins á næsta ári vegna hjúkrunarálmunnar en það hefði hins vegar ekki nægt til þess að sú starfsemi hefði getað farið eðlilega fram. Þess vegna varð niðurstaða í umfjöllun fjárln. eftir að haft hefur verið samráð við heimamenn, forustumenn sjúkrahússins og starfsmenn heilbrrn. að það þyrfti að koma til 13 millj. kr. viðbótarfjárveiting til þess að sú starfsemi gæti

farið eðlilega fram.
    Ég vil líka segja vegna ræðu hv. þm. sem hefði vissulega getað kallað á margvísleg andsvör að mér þótti hún skjóta illilega yfir markið þegar hún spurði áðan í ræðu sinni hvað hefði verið gert til þess að draga úr mismun á húshitunarkostnaði í landinu og svaraði sjálfri sér þannig: Það hefur verið lagður á virðisaukaskattur, og gaf þar með til kynna að ekkert hefði verið gert í þessum efnum nema það að íþyngja þeim sem eru að kaupa orku á dýrari svæðum landsins. Þetta er auðvitað hið mesta öfugmæli því að það sem hefur gerst þrátt fyrir allt á þessu kjörtímabili er að framlög hafa verið aukin til niðurgreiðslu á raforku og afsláttur Landsvirkjunar hefur verið aukinn vegna þessa en ætlunin með þeirri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem hv. þm. vitnaði til, er að fara fram á að Landsvirkjun standi við sinn hlut og auki enn afslátt sinn vegna þessarar orkunotkunar vegna þess að það er einfaldlega þannig að það stendur upp á Landsvirkjun að efla sinn hlut sérstaklega í þeim efnum.