Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 22:04:43 (2667)


[22:04]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil hefja ræðu mína á því að þakka sérstaklega hæstv. menntmrh. fyrir það hversu vel hann hefur setið yfir þessari umræðu. Ég hef tekið eftir því fyrr að hann hefur sýnt þinginu meiri virðingu en flestir aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn. Auðvitað er það svo að hæstv. fjmrh. ber að vera við þessa umræðu, en okkur stjórnarandstæðingum þykir eðlilegt að gera kröfu til þess að einstakir ráðherrar sem ekki síst fara með hina stóru málaflokka í fjárlögum séu hér viðstaddir umræðuna. Og eins og ég sagði, mér finnst það virðingarvert og þakka hæstv. menntmrh. hversu vel hann hefur hlustað hér á umræður í þetta sinn og ég hef tekið eftir því fyrr.
    Jafnframt vil ég þakka honum fyrir það að inn í þessa 2. umr. hefur náðst sá áfangi að íþróttasjóður fær sama framlag og hann hafði á síðasta ári. Við stjórnarandstæðingar eða alla vega framsóknarmenn lögum mikla áherslu á það hér við 1. umr. að svo væri og ber að fagna þessu sérstaklega því að þessi sjóður, þó hann sé ekki stór, hefur gífurleg áhrif um allt land á uppbyggingu mannvirkja og stuðlar að heilbrigðu lífi æskufólks um allt land. Þannig að ég þakka hæstv. ráðherra og fjárlaganefndarmönnum að þessi bæn hefur verið tekin til greina. Hún mun skila sér aftur, það er klárt.
    Ég vil jafnframt segja það, fyrst hæstv. menntmrh. er hér staddur, að það kom mér mjög á óvart sú árás sem háskólinn varð fyrir hér við þessa umræðu. Fyrst er það svo hjá frjálshyggjunni, fyrst eyðileggur hún svo stofnanir, gengur jafnvel af þeim svo veikum að þær standa ekki og síðan heggur hún þær niður. Og hér komu fyrstu skoðanirnar um það að tannlæknadeildin skyldi falla erlendum mönnum í hendur. Metnaður Íslendinga er að hverfa undir þessari ríkisstjórn. Háskólinn hefur verið sveltur. Það er fullyrt að það hafi vantað 300 millj. til þess að hann geti staðist þá samkeppni sem hann býr við sem öflug menntastofnun þannig að það er alvarlegur hlutur. Auðvitað veikjast síðan stofnanir innan frá við eilíft fjársvelti og það endar auðvitað með því sem hér er komið fram að hugur bæði Alþfl. og Sjálfstfl. í þessari umræðu er sá að byrja að henda deildum út úr háskólanum og segja ungu fólki: Viljirðu fara í þetta fag, farðu þá úr landi. Þeir byrja að draga eina og eina tönn úr tanngarðinum. Það hefur verið siður þessara manna á kjörtímabilinu að fara þannig að við að rýra niður margar mikilvægar stofnanir í þessu landi. Svo blasa skörðin við og eftir stendur eyðimörk, því miður.
    Ég gerði heilmiklar athugasemdir við vinnubrögð hv. fjárlaganefndarmanna í ræðu minni um fjáraukalög. Ég gerði það ekkert út í loftið. Nú hef ég sannfærst um að Alþingi þarf á endurskipulagningu að halda. Alþingi sjálfu er misboðið. Nefndadeild er misboðið vegna starfshátta fjárlaganefndarmanna. Menn bundu miklar vonir við breytt Alþingi í einni deild, þar sem sjálfstæði fagnefndanna yrði mikið og hér breyttust vinnubrögð. En því miður, þau eru verri en þau voru áður og leikaraskapur þeirra hv. þingmanna sem þarna sitja í meiri hlutanum er náttúrlega til skammar. Það er ekki bara að á ýmsum sviðum sé aðstaðan misnotuð heldur gera þeir púragrín að öðrum nefndum Alþingis.
    Það var meiningin, hæstv. forseti, með breyttu þinghaldi að þannig yrði málum háttað að nefndirnar hver á sínu sviði köfuðu djúpt í mál og legðu fram tillögur og gerðu athugasemdir. Ég hef setið undir forustu eins mesta lýðræðissinna Alþingis, sem hefur borið meiri virðingu fyrir Alþingi kannski heldur en flestir aðrir. Þá á ég við hv. þm. Egil Jónsson og ég minnist þess að á fyrstu árum eftir breytt þinghald lögðum við okkur verulega fram í þessa vinnu, fara yfir þá liði sem snertu landbúnaðinn, fara um landið og hitta fólkið og kafa ofan í málefni byggðanna. Við skiluðum síðan þing eftir þing inn merkum tillögum til fjárln. sem að engu eru hafðar og fótum troðnar af virðingarleysi að mér finnst. Því miður, hæstv. forsrh., þá er það kannski verkstjórans að minna samráðherra sína oftar en gert er á virðingu alls Alþingis og halda þar uppi vinnubrögðum sem markast af almennum reglum og því sem menn ætluðu með breyttu þinghaldi. Þannig að ég fagna því að sjá hæstv. forsrh. hér.
    Ég hef enn fremur rætt það hér og þakkað einum af hæstv. ráðherrum fyrir það að mér hefur alltaf fundist hæstv. menntmrh. sinna hlutverki sínu vel þegar hans málaflokkur er hér til umræðu, að sýna þingmönnum þá virðingu að vera viðstaddur umræðuna.
    Ég ætla að fara ofan í nokkra liði, en ég ætla líka að finna orðum mínum stað sem ég hef hér sagt, sem kannski sýnist í svipinn að hafi verið gífuryrði gagnvart fjárlaganefndarmönnum. Við fjáraukalagaumræðuna gagnrýndi ég það sérstaklega að það væri engin tilviljun að ýmis ríkisfyrirtæki, spítalar og fleiri stofnanir í kjördæmunum þar sem meiri hlutinn ætti menn hefði notið sérstakrar fyrirgreiðslu. Í þeim efnum minntist ég Stykkishólms, ég minntist Neskaupstaðar, ég minntist Garðvangs og tengdi þetta nöfnum. Nú þegar ég fer yfir brtt. sem hér liggja fyrir þá vekur það óneitanlega athygli mína að sama rúllettan hefur verið í gangi við vinnubrögð nefndarmanna.
    Ég hef nefnilega tekið eftir því, hæstv. forseti, mér hefur dottið í hug hreinlega að starfið færi fram með þeim einfalda hætti að þeir séu búnir að koma sér upp spjaldi eins og Ingvi Hrafn notar í þáttunum, þar sem hreinlega hjólinu er snúið og nöfnin sem eru inni á eru Ísafjörður, Stykkishólmur, Akureyri, Vestmannaeyjar ( Gripið fram í: Norðfjörður.) og ég tala nú ekki um Austurland þar sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson situr. Hér á bls. 6 í brtt. tek ég eftir því að hvað brtt. varðar þá hefur St. Jósefsspítali í Hafnarfirði hækkað úr 249 millj. upp í 260 millj. Ég tek eftir því að St. Fransiskusspítali í Stykkishólmi hefur hækkað úr 108 millj. upp í 114. Ég tek eftir því að heilsugæslustöðin á Akureyri hefur hækkað úr 109 millj. upp í 110. Hefur þó hv. formaður fjárln. verið hógvær og kannski ekki víst að hann eigi von á þingsæti út á svo léleg störf.
    Þá tek ég eftir því að til þess að vega á móti þessu hefur hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson náð nýjum 18 millj. yfir á Austurland, yfir á hjúkrunarheimili á Eskifirði og hjúkrunarheimili á Fáskrúðsfirði og nú spyr ég. Ég sé lítið hvað Suðurland varðar. Það er ekki víst að hv. þm. Árni Johnsen hafi verið við. Þó sé ég auðvitað það hér sem kemur mér ekki á óvart að ýmis mál sem við höfum lagt áhersla á eins og byggingu heilsugæslustöðvar í Laugarási er inni, og ber að þakka það, með 15 millj. En því spyr ég, hv. þm. og fjárlaganefndarmenn: Hvar eru hinir? Hvers vegna gerðist þetta með þessum hætti? Það er nákvæmlega sama leikritið og var í gær og er hægt að gera þetta grín með þessum hætti? Ég held að við verðum að gera þær kröfur, hv. alþm., að við vinnum eftir almennum reglum og að stofnanir ríkisins á sömu sviðum um allt land njóti sömu réttinda og fái sömu umfjöllun og meðferð hvað fjárlög hins háa Alþingis varðar. Þetta er mér talsvert alvörumál.
    Það er ýmislegt sem hefur verið afgreitt við þessa umræðu. Ég vil minna á eitt atriði og ekki síst vil ég minna hv. þm. Árna Johnsen á það. Það snýr að litlum hitaveitum. (Gripið fram í.) Það er gott að minna hv. þm. Sturlu Böðvarsson á það atriði. Hann þekkir fyrirgreiðslu fyrir þremur árum til lítillar hitaveitu á Hvalfjarðarströnd og annarrar í Varmahlíð. Ríkisendurskoðun fór yfir réttlætismál fyrir Alþingi í þeim efnum og komst að þeirri niðurstöðu að það væru einar átta aðrar hitaveitur sem hlytu að eiga sama rétt til niðurfellingar á gömlum söluskatti. Það hafa verið gefin fyrirheit tvö haust í röð um að þetta mál yrði afgreitt. Það komst inn á 6. gr. við síðustu fjárlagagerð en lengra hefur það ekki komist þannig að ég vænti þess að menn fari vel yfir þennan lið og skili honum hér inn. Þetta var ekki há upphæð. Það var niðurfelling á skuldum upp á 16 millj. og ég treysti á hv. þm. bæði meiri hluta og minni hluta að gleyma ekki þessu atriði.
    Mitt stóra erindi hér upp er það fyrst og fremst að fara yfir landbúnaðarmálin sem ekki hafa átt marga áheyrendur í fjárln. að þessu sinni. Það virðist vera svo að hæstv. landbrh. hafi ekki fylgt þeim málaflokki eftir sem skyldi. Þar kem ég aftur að hinu sem ég hef fyrr rætt um að undir forustu hv. þm. Egils Jónssonar höfum við öll árin trúað á hið nýja þing og farið í verulega faglega vinnu um stöðu og réttindi landbúnaðarins og enn einu sinni lögðum við í það verkefni að setja það upp fjárlaganefndarmönnum til glöggvunar að svikin eru stór. Það eru brostin fyrirheit gagnvart þeirri atvinnugrein og mun ég fara yfir marga liði í þeim efnum.
    Við höfum fundið það landbúnaðarnefndarmenn á ferðalögum okkar um landið, sem við höfum talið vera skyldu okkar við breytt þing, að bændur hafa trúað því að menn bæði vildu standa við búvörusamninginn og kannski við breyttar aðstæður opna nýjar leiðir og kannski væri einhver hugur í mönnum að verja byggðir þessa lands en því miður þegar kemur að því atriði sem öllu máli skiptir, peningunum sem þarf til þess þá vantar þá í spilið. Ég hygg að ekki sé fjarri lagi að við höfum komist að þeirri niðurstöðu að til þess að standa við, bæði lögum samkvæmt og samkvæmt samningum, þá vanti hátt í milljarð til landbúnaðarins í fjárlögum. Og ef 1 milljarður hefur ekki áhrif, þá er mér illa brugðið.
    Þegar hv. formaður lagði álitið fyrir nefndina þá segir, með leyfi forseta, og sýnir að trúin á hið nýja Alþingi er að minnka, en það segir í álitinu: ,,Á undanförnum árum hefur landbn. farið mjög ítarlega yfir þennan hluta fjárlagafrv., rætt við forsvarsmenn hinna ýmsu stofnana eftir því sem við hefur átt hverju sinni og fengið í hendur skýringar og athugasemdir. Í álitum sínum til fjárlaganefndar Alþingis hefur nefndin jafnan lagt áherslu á að vissra breytinga væri þörf. Þótt við fjárlagagerð hafi jafnan verið komið að nokkrum leiðréttingum hefur það á engan hátt nægt til þess að rétta hlut landbúnaðarins.``
    Síðan segir: ,,Landbn. vekur sérstaka athygli á að greiðslur til landbúnaðar hafa dregist mikið saman á kjörtímabilinu. Árið 1992 námu þær um 10,1 milljarði, árið 1993 6,8 milljörðum, á þessu ári er áætlað að þær verði um 5,8 milljarðar og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er lagt til að þessar greiðslur nemi 5,7 milljörðum. Hér er um að ræða meiri niðurskurð á fjárveitingum en gagnvart nokkrum öðrum þætti í fjárlögum undanfarinna ára.`` Meiri niðurskurð en um getur gagnvart nokkurri atvinnugrein í landinu.
    Nú geri ég mér grein fyrir því að auðvitað styðst þetta að miklu leyti við búvörusamning sem gerður var en því verri eru mannanna verk að samhliða slíkri aðgerð, sem var erfið, skuli ekki vera staðið við lög og skuli ekki vera staðið við samninga. Það er vont verk af hálfu þeirra sem nú ráða meiri hluta Alþingis. Staðreyndin er sú þegar hv. þm. Steingrímur Sigfússon stóð fyrir búvörusamningi og gerði hann við bændur þessa lands 1991 þá var tiltölulega bjart yfir í flestum byggðum. Þá blöstu við ýmis ný tækifæri. Það var næg atvinna. Meginkrafa búvörusamningsins var hagræðing og menn séu fyrir að margir mundu snúa sér að öðrum verkefnum. Staðan nú er sú að það er kreppa af manna völdum. Menn eiga ekki þau tækifæri sem þeir töldu sig eiga og bændur hafa áfram orðið að halda í réttinn þó þeir hefðu kosið að hætta framleiðslu. Þeir hafa ekki átt á þessu tímabili önnur tækifæri. Þetta er alvarlega staðan í málinu.
    Hitt er svo auðvitað alvarleg staða sem enginn varaði sig á á þeim tíma. Hún er sú að þegar búvörusamningurinn var gerður, þá áttu bændur ekki von á því. Þeir vissu að það var ekki þjóðarsátt um að

halda áfram þeim mikla útflutningi á lambakjöti sem hafði gengið mjög lengi. Þjóðin kaus að hverfa frá útflutningsbótum og samningurinn var að því leyti gallaður að hann lokaði menn inni í landinu. Útflutningsbætur voru afnumdar. En nú þremur árum síðar hefur það gerst í hinum breytta heimi að mannfólkið sjálft um víða veröld gerir nýjar kröfur um matvæli sín, hreinar, ómengaðar og vistvænar vörur. Á þremur árum hefur það því gerst að staðan gagnvart landbúnaðinum er sú að hann er lokaður af inni í landinu, býr ekki við sömu samkeppnisskilyrði hvað þetta varðar úti í Evrópu og í ofanálag er ekkert verið að gera í málinu.
    Á fund hv. landbn. komu í morgun menn úr græna geiranum. Þar upplýsti talsmaður þess hóps landbn. um það að Norðmenn hefðu á þessum þremur árum lagt mikla vinnu í svokallaða vistvæna leið. Þeir, eins og Svíar, ætla að verða hreinasta land í veröldinni. Þeir ætla með sínar vörur að rétta milljónum manna um allan heim sína vöru fyrir gott verð og þeir hafa varið í þetta verkefni sitt hvorki meira né minna en milli 500 og 600 millj. íslenskra króna. Meðan höfum við ekki varið einni einustu krónu.
    Þó skal það viðurkennt að landbúnaðurinn sjálfur, Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda, hefur áttað sig á þessum þremur árum en ríkisstjórnin og landbrn. láta ekkert í þetta verkefni renna. Bændasamtökin hafa sem betur fer ráðið færan mann sem vinnur að þessu verkefni, Baldvin Jónsson, og ég er sannfærður um að hann er búinn að vinna íslenskum landbúnaði og bændastéttinni mikið gagn. Mér finnst við þessar aðstæður þegar þetta blasir við í veröldinni og er miklu meiri samstaða um það hér og skilningur, þá verðum við að endurskoða þennan samning með það í huga að við séum ekki lokaðir af við þessar aðstæður.
    Það eru mörg atriði sem ég verð því miður að gagnrýna undir þessum lið. Í áliti landbn. um búvörusamninginn kemur fram að landbn. lét 9. nóv. 1993 Ríkisendurskoðun kanna hvort framkvæmd núgildandi búvörusamnings væri í samræmi við ákvæði hans. Hinn 16. des. 1993 barst nefndinni svarbréf Ríkisendurskoðunar við þessari fyrirspurn. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um framkvæmd búvörusamningsins, sem m.a. eru lagðar til grundvallar þessu áliti. Í greinargerðinni kemur fram að ágreiningur er um ýmis atriði. Hér segir:
    ,,Rík áhersla er lögð á að aðilar að búvörusamningnum leysi þann ágreining.``
    Eru það nokkur vinnubrögð, hv. þm. Árni Johnsen, að í tvö ár hefur staðið ágreiningur um þetta mál? Eru það nokkur vinnubrögð af hæstv. ríkisstjórn að höggva ekki á þann hnút? Og við skulum átta okkur á því um hvað sá ágreiningur snýst. Hann snýst fyrst og fremst um það að bændasamtökin telja --- ég fagna því að sjá hæstv. landbrh. við þessa umræðu. Ég var, hæstv. landbrh., að fara yfir ágreining um búvörusamning og segja það við hv. þm. að ég teldi ófært að slík deila hefur staðið í tvö ár. Hún skaðar íslenska bændur verulega, það hrannast upp birgðir. Þessi ágreiningur snýr að því að bændur telja að þegar kom að því atriði að þeir ættu sjálfir að bera ábyrgð á framleiðslunni þá gerðist það óvænt að ríkisstjórnin setur í gang mikla útsölu og nær miklum árangri við að selja lambakjöt þannig að birgðir voru sáralitlar þegar bændurnir tóku við ábyrgðinni en allar frystikistur fullar af kjöti þannig að sala næstu mánuði á eftir var sama og engin. Er nú vel að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er þingmaður margra dökkleitra byggða í þeirri skýrslu sem hér er rætt um. Hann er þingmaður á sauðfjársvæðum þar sem samdrátturinn veldur miklum skaða. Það er lágmark að ríkisvaldið reyni ekki við svona aðstæður að hirða, ég vil segja með óheiðarlegum hætti, markaðinn af sauðfjárbændum til þess að fría sig. Auðvitað var það svo, hæstv. ráðherra, að í þessu tilfelli hefði verið langeðlilegast að ríkisvaldið hefði flutt þetta magn af kjöti út. En í staðinn fyrir var því beint inn á innlandsmarkaðinn.
    Ég vil ekki orðlengja þetta atriði meir. Ég treysti því að hæstv. ráðherra skeri úr um þessa deilu. Það á ekki að standa ágreiningur út af svona atriði.
    Sama er að segja um Jarðasjóð ríkisins. Í áliti landbn. kemur fram: ,,Samkvæmt búvörusamningnum áttu fjárveitingar til jarðasjóðs að vera 150 millj. kr. árin 1992 og 1993. Þær hafa hins vegar reynst miklu lægri eða aðeins 21 millj. kr.``
    Eru þetta ekki svik á búvörusamningi? Og ég vil spyrja: Hversu margar jarðir hefur ríkissjóður keypt á þessu tímabili? Því var heitið að á ýmsum stöðum þar sem bændur seldu framleiðslurétt sinn þá gæti það gerst að Jarðasjóður leysti jarðirnar til sín en menn gætu setið þar áfram.
    Það er líka hægt að minnast á stuðningsaðgerðir samkvæmt viðaukum við búvörusamninginn og það er hægt að minnast á Framleiðnisjóð landbúnaðarins sem átti samkvæmt búvörusamningi og breyttum áherslum 1985 að vera fyrst og fremst atvinnuskapandi sjóður í íslenskum sveitum. Nú hefur það gerst, því miður, síðustu árin að þessi sjóður hefur verið notaður eins og ríkissjóður og tekið þar fé til ýmissa verkefna sem hefði verið miklu eðlilegra að standa að í fjárlögum og þar með dregið úr því fjármagni sem hefur farið til atvinnuskapandi verkefna. Ég get nefnt hér til þess að menn glöggvi sig á því að framleiðnisjóður varð að leggja fram hlut ríkisins í bútæknihúsi á Hvanneyri. Framleiðnisjóður varð að leggja fram hlut ríkisins í nýju fjárhúsi á Hesti. Framleiðnisjóður varð að leggja fram hlut ríkisins í nýju fjárhúsi á Hólum og framleiðnisjóður varð að leggja fram peninga í stóðhestastöð í Gunnarsholti. Ég tek fram að allt voru þetta þörf og góð verkefni. Ég er ekki að gagnrýna þau. En ég er að gagnrýna það að menn skuli fara þessar leiðir að skerða þann sjóð í fyrsta lagi um fjármagn í hann og nota svo fjármagnið sem í hann fer í verkefni sem ættu að vera á fjárlögum hvers árs. Það er þetta sem ég gagnrýni, hæstv. landbrh., því að samfara búvörusamningnum og samdrættinum í landbúnaðinum urðu menn að standa klárir að því að hafa fjármagn til þess að byggja upp nýtt atvinnulíf á landsbyggðinni. Það var lykilatriði.
    Það er ekki hægt að hugsa sér það fyrir Alþingi Íslendinga að hafa ekki meiri metnað en það að vísinda- og rannsóknarstarfsemin skuli ekki lengur fá framlög við gerð fjárlaga heldur þurfi að fara í sértæka sjóði sem eiga lögum samkvæmt að sinna öðrum verkefnum.
    Þáttur Byggðastofnunar er svo kapítuli út af fyrir sig. Hann er búið að skerða á þessu tímabili þannig að hún hefur ekki haft magn til þess að koma til móts við mörg mikilvæg atriði sem hefðu skipt miklu máli. T.d. hagræðingu í sláturhúsum, t.d. markmið í útflutningsmálum. Það hefði því munað mikið um ef Byggðastofnun hefði ekki verið leikin jafngrátt á þessu tímabili og raun ber vitni um.
    Það er svo, hæstv. ráðherra, að í áliti landbn. sjáum við að Ísland er skjöldótt. Við litum svört sauðfjársvæðin sem við teljum vera viðkvæmu svæðin, svæði þar sem samdrátturinn hefur leikið afkomu fólksins mjög grátt og því miður hefur það gerst í tíð núv. ríkisstjórnar vegna samdráttarins, vegna atvinnuleysisins, að menn hafa orðið að fara undir stjórn hæstv. ráðherra í flata skerðingu á bændur. Tekjuskerðing íslenskra bænda á 2--3 árum er frá 30% upp í 40% af launalið. Þetta er hin grafalvarlega staða málsins og samdrátturinn og tekjufallið er með þessum hætti. Og fyrir þessu höfum við landbúnaðarnefndarmenn fundið á okkar ferðum. Ég minnist þess á Ströndum þegar landbn. var þar á ferð, alla leið norður í Árneshreppi, þá sagði einn bóndinn: Samdrátturinn er búinn að leika okkur það grátt að í rauninni getur ekkert verra tekið við. Byggðin er að falla saman. Það er því mikil alvara, hæstv. ráðherra, í áliti landbn.
    Áður en ég lýk þessum þætti, hæstv. forseti, vil ég minnast á, sem er kannski eini kaflinn sem ég ætla að ræða því að ég vil ekki taka of langan tíma, en það eru jarðræktarframlögin sem eru hrein svik að sé ekki staðið við.
    Heilbrrn. hefur eðlilega, sem ég held að sé mikilvægt, gert kröfur á íslenska matvælaframleiðendur að þeir stæðust alla staðla og kröfur sem gerðar eru í nálægum löndum. Þannig hafa verið gerðar um byggingu haughúsa við fjós og nú er verið að gera miklar kröfur á kaldavatnsveitur um allt land. Það kemur í ljós að því miður er vatnið ekki nógu gott þar sem menn hafa ekki komið upp vatnsveitum og þess vegna verða menn að snúa sér að því verkefni að fara í virkjanir á köldu vatni sem er afar dýrt. T.d. vinnur heilbrigðiseftirlit Suðurlands í samráði við hæstv. umhvrh., sem hefur sýnt góðan vilja í þessu máli, að því að gera Suðurland að hreinasta svæði í heiminum hvað þetta varðar. Það er verið að taka út kalt vatn og frárennsli á öllum sveitabæjum. Það kallar á dýrar virkjarnir á köldu neysluvatni og þá komum við að þessu með jarðræktarframlögin. Þar standa uppi stórkostlegar skuldir við bændur upp á nokkur hundruð milljónir. Og sumar greinar eins og kornræktin þurfa á styrkjum að halda til þess að standast samkeppni eru ekki hér heldur á blaði. Eins hygg ég að þegar við horfum til framtíðar þá ræður hver bóndi ekki við það verkefni að halda við því stórkostlega skurðakerfi sem var gafið í landinu fyrir áratugum síðan. Þeir eru fallnir sumir og ljótir í landslaginu og hættulegir. En ég held að það þurfi að halda þeim við eða grafa ofan í þá, hv. þm. Það er í sumum tilfellum hægt. En hér vantar peninga til þess að koma til móts við þessa þætti sem ég hef minnst á.
    Við minnumst á loðdýraræktina. Ég er ekkert viss um að loðdýraræktin sé svo sjálfbjarga og tel fráleitt að minkaræktin geti staðist það nú að menn hendi henni bara á rúmsjó og segi: Við veitum ekki fjármagn til niðurgreiðslu á fóðri. Stóri þátturinn, hæstv. ráðherra, í því máli er það að stjórnvöld í mörg ár, í gegnum 15 ára sögu og allir flokkar bera ábyrgð á nema kannski Kvennalistinn sem engu ber ábyrgð á, hefur aldrei tekið afstöðu til neins máls eða setið í ríkisstjórnum. En hinir flokkarnir bera þarna allir kalda ábyrgð. ( KE: Hvers lags bull er þetta. Vitaskuld tökum við afstöðu.) Þið takið afstöðu já, það er hárrétt. En ábyrgðin hefur nú ekki verið á mörgum sviðum. ( GJH: Við erum enn á bak við eldavélina.)
    Það er auðvitað stórmál, hæstv. ráðherra, að standa við mörg fyrirheit. En ég vil segja það nú, bæði við fjárlaganefndarmenn og hæstv. landbrh.: Hvernig ætla menn að koma út á land til þess að bjóða sig fram í vor eftir öll þau svik sem blasa við í heilu nefndaráliti? Hvernig ætla menn að ganga um þessar svörtu byggðir? Það er ekki hægt að ganga um þær og segja: Ég stóð mig vel af því að ég skammaði hæstv. utanrrh. ( Landbrh.: Það er nú viðleitni.) Það er hárrétt, hæstv. ráðherra. Það er viðleitni og oft átti hann það skilið og vann til þess. En hæstv. utanrrh. ber ekki ábyrgð, á öllu. ( Gripið fram í: Sem betur fer.)
    Ég vil því gera það að lokatillögu minni hér hvað landbúnaðinn varðar að menn reyni að sættast á að segja millileið í þessu máli. Vegna breyttra aðstæðna reyni menn að koma til móts við landbúnaðinn. Það er fullyrt að ef nefndaráliti landbn. væri fullnægt í fjárlögunum þá þýddi það milljarð. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé svo hátt en mér þætti það engin ofrausn miðað við þá grafalvarlegu stöðu sem blasir við í sveitum landsins að menn sættist á einhverja millileið, kannski 25--30% við þessar aðstæður, 250--300 millj., hæstv. ráðherra. Ég hygg að það mundi skipta sköpum í mörgum tilfellum.
    Síðan er náttúrlega hitt atriðið sem er mjög mikilvægt að menn gefi bændum Íslands sama tækifæri þegar framtíðin blasir við þeim, samkeppnin, að þeir séu ekki bara lokaðir af heldur hafi möguleika á að flytja afurðir sínar út í lönd. GATT-málið er nú orðið svo mikið feimnismál að hv. þm. Egill Jónsson neitar að taka það til umræðu í landbn. Ég skil vel að menn séu feimnir, GATT-samningarnir að skella á, jafnvel um næstu áramót. En íslenskir bændur einir allra bænda á Evrópska efnahagssvæðinu og í Evrópu allri vita ekkert við hvaða aðstæður þeir eiga að vinna. Svo halda þingmenn Sjálfstfl. að þeir geti kokhraustir gengið um landið og sagt: Við stóðum okkur vel af því að við vorum svo duglegir að skamma hæstv. utanrrh. Þeir verða bara að ljúka við það verkefni að móta stefnu og starfsskilyrði landbúnaðarins. Það er mjög mikilvægt.
    Ég er farinn að tala lengra mál en ég ætlaði mér í upphafi og hef komið inn á æðimörg atriði. Ég vil í lokin minnast á þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin sendi frá sér um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun í gær eða fyrradag. Mér finnst sú yfirlýsing hlægileg. Það er eins og gamanleikur í 14 þáttum með plati og fyrirheitum sem næsta ríkisstjórn verður að vinna úr. Fallegur texti um nákvæmlega ekki neitt, því miður. Menn mega ekki láta sér detta í hug að þessi texti gangi í íslenska þjóð. Hún gerir kröfu um vandaðri vinnubrögð og hún sér í gegnum þennan blekkingaleik sem er settur á blað í 14 liðum. Eins og það atriði, svo að ég taki bara eitt atriði út úr, að samstaða um skattlagningu fjármagnstekna á að taka gildi 1996. Þessi ríkisstjórn hefur lokið störfum sínum 8. apríl og það dettur engum manni í hug að hún starfi einn einasta dag eftir það. Í fyrsta lagi fær hún ekki meiri hluta til þess. Þar verða nýir menn að taka við.
    Hæstv. forseti. Ég hef komið að mörgum atriðum í ræðu minni og vænti þess að milli 2. og 3. umr. verði tekið tillit til margra þátta. Ég heiti á hv. fjárlaganefndarmenn að skoða álit landbn. vel og reyna að ná samstöðu um það eins og ég sagði þó ekki væru nema 25--30% sem kæmu í þetta sinn. Ég sé að hv. formaður fjárln. jánkaði þessari tillögu ( SigG: Ég jánkaði ekki einu né neinu.) Það er vert að geta þess að það hefur gerst að landbn., sem er skipuð fólki úr öllum flokkum, hefur náð algerri samstöðu um þetta álit. ( EKG: Ekki algerri.) Að vísu skrifa hv. þm. Einar Guðfinnsson og Árni Mathiesen undir með fyrirvara en hv. þm. Gísli Einarsson, þingmaður Alþfl., tekur undir hvert einasta atriði og það er enginn vafi á því að verði ekki tekið tillit til og komið eitthvað til móts við þessar mikilvægu óskir sem skipta landbúnaðinn öllu máli þá mun það gerast að menn úr öllum flokkum munu flytja brtt. og þá verða hv. þm. Sjálfstfl. að hætta að vera í leikritinu og segja það hvaða skoðun þeir hafa.