Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 22:55:54 (2669)


[22:55]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar vil ég segja að ég undrast mjög þær árásir sem hann hafði uppi á hv. þm. fjárln. og verð því miður að segja að slíkur málflutningur, mjög ómerkilegur málflutningur, kom mér satt að segja gersamlega í opna skjöldu. Ég hélt að hv. þm. beittu ekki slíkum málflutningi gagnvart þingfélögum sínum. Brigslyrði á borð við þau sem hv. þm. hafði uppi eru mjög óvenjuleg í þingsölum.
    Að öðru leyti vil ég segja um málflutning þingmannsins að ég gat þess í dag við 2. umr. fjárlaga að fjárln. fór að sjálfsögðu mjög rækilega yfir nefndarálit landbn. Þar eru mjög margar merkilegar ábendingar en hins vegar verð ég að segja að það er misskilningur ef það er hald einhverra að fjárlagavaldið eða vald til þess að gera tillögur á sviði fjárlaga hafi verið fært til landbn. Það er alger misskilningur ef hv. þm. heldur að svo hafi verið.
    Að lokum vil ég segja það, hæstv. forseti, að ég undraðist málflutning þingmannsins mjög og að hann skyldi draga nefndadeild þingsins inn í fullyrðingar sínar og tala um að henni væri misboðið undrast ég mjög og vildi heyra úr hvaða átt það kemur að nefndadeildin hafi fjallað með einhverjum hætti um vinnubrögð fjárln. og væri ágætt að þingmaðurinn gerði grein fyrir því. En að öðru leyti vil ég segja það, hæstv. forseti, að að sjálfsögðu verður fjallað um landbúnaðarmál við endanlega afgreiðslu fjárln. um fjárlög að þessu sinni.