Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 22:58:22 (2670)


[22:58]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kallast nú flest árásir. Ég rökstuddi mitt mál nokkuð við þessa umræðu. Ég bar það saman við málflutning minn frá deginum áður við fjáraukalögin. Ég hafði ekki uppi nein brigslyrði en menn gátu fundið á mér mikinn sársauka því að það er svo að margir þingmenn finna það að sú breyting sem gerð var með Alþingi í eina málstofu og sterkar nefndir á hverju málefnasviði hefur brugðist. Þar er ekki landbn. ein um þá skoðun. Við viljum verja þingræðið og halda hér uppi sterku starfi sem ekki síst byggir á faglegri úttekt og ég hygg að Alþingi væri sterkara einmitt með því að nefndirnar hverjar á sínu sviði kynni sér í botn þau málefni sem þeim eru falin og eiga því að vera marktækar þegar þær skila frá sér áliti til fjárln. Mín skoðun er sú að breytist ekki störf fjárln. þá sé þingið í nokkurri hættu. Ég ítreka það og sá er vinur sem til vamms segir. Hér verður orðið að vera frjálst og menn verða að segja sína meiningu jafnvel þótt fjárln. eigi hlut að máli.