Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:02:39 (2672)


[23:02]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir síðari hluta ræðu hv. þm., bæði hvað sauðfjárbændur varðar og ekki síður smábátaeigendur og ég get bætt því við að því miður hafa núverandi meirihlutaflokkar á Alþingi breytt kvótakerfinu með þeim hætti að það er að bætast enn einn hópur við sem eru sjálfstæðir útgerðarmenn sem hafa rekið vertíðarbáta frá 25 upp í 150 tonn. Þess vegna er kannski spurning vegna þess að maður sér þennan samdrátt í öllum höfnum hvort ástæða sé til að láta alla þessa peninga í hafnirnar ef skipin er verið að höggva og brenna vegna þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin setti á.
    Ég get vísað í fyrri ræðu mína hvað fjárln. og störf Alþingis varðar. Ég held að við þurfum, hv. þm., að taka starf okkar af miklu meiri alvöru en við höfum gert. Fjárln. á mínum upphafsferli sem þingmaður naut hér mikillar virðingar fyrir að mér fannst vönduð vinnubrögð. Það sem ég legg áherslu á er að fyrirtæki ríkisins og landshlutarnir búi við almenna og réttláta reglu hvað fjárlögin varðar og það verði fyrst og fremst í samráði við nefndir þingsins ákveðið hvernig niðurskurði er hagað og nefndirnar eigi að hafa þau áhrif sem þeim var ætlað með breytingunni á þingsköpum. Því miður, hæstv. forseti, hefur það ekki gerst.