Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:09:44 (2675)


[23:09]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson hefur áhyggjur af starfsháttum Alþingis og hv. fjárln. Ég hef áhyggjur af málflutningi hv. þm. Guðna Ágústssonar. Brtt. hv. meiri hluta fjárln. eru í 72 greinum og hv. þm. vogar sér að koma hér upp og tiltaka sex dæmi úr tillögunum sem tengjast kjördæmum þeirra þingmanna sem meiri hlutann mynda. Er þetta einhver list? Eru þetta einhverjar röksemdir? Hvers konar tillögur væru þetta ef ekki fyndust tillögur um öll þessi kjördæmi á sama hátt og það finnast tillögur í þessu plaggi um öll átta kjördæmin? Þetta er enginn málflutningur hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni. Það er verið að brigsla mönnum um mismunun að ástæðulausu.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson gerði sérstaklega að umræðuefni St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði og taldi að þar hefði ég komið eitthvað nálægt málum. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hef komið nálægt þeim málum. Ég hef lagt áherslu á að þessi spítali fengi auknar fjárveitingar og það er ekki bara á þessu þingi sem ég hef gert það heldur á öllum þeim þingum sem ég hef setið. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart. Það sem helst mætti gagnrýna mig fyrir er það að ég fylgdi málinu ekki nægilega fast eftir og fjárveitingar til St. Jósefsspítalans eins og þær munu væntanlega liggja fyrir þegar þessar brtt. hafa verið samþykktar séu ekki nægilega háar.
    Það var mikill munur á málflutningi hv. þm. Guðna Ágústssonar og hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur fyrr í kvöld þar sem hún var að gagnrýna hv. meiri hluta fjárln. fyrir gera ekki tillögur um hærri fjárveitingar til St. Jósefsspítalans en raun ber vitni.