Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:12:21 (2676)


[23:12]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Það er nú létt í munni og vasa að hafa áhyggjur af mínum málflutningi. Hitt stendur þó eftir óhaggað að ég rakti mig hér eftir dæmum bæði í kvöld í brtt. og ekki síður í fjáraukalagagerðinni frá deginum áður þar sem ég fór yfir það sérkennilega atriði að þetta virtist tengjast nöfnum manna sem sitja fjárln. Hvar eru hinar stofnanirnar? Hvers vegna eru þær ekki með? ( ÁMM: Laugarvatn, Hella.) Þetta eru sértækar aðgerðir sem ég hef rakið hér. Af einhverjum sérstökum ástæðum hafa þessar stofnanir notið þess að fá fyrirgreiðslu í þetta sinn þegar nákvæmlega sams konar vandi og hér er leystur blasir við öðrum víða um land. Ég stend því við það.
    Ég hygg nú að hv. þm. séu svolítið breiðir þegar þeir koma heim í kjördæmin og segja frá afrekum fjárln. En burt með það þótt þetta hafi hent í þetta sinn, ég hef þó varað við þessum vinnubrögðum og krafið fjárln. um það að þeir beri meiri virðingu fyrir fagnefndum þingsins en þeir hafa gert og taki meira tillit til þeirra tillagna. Ég hika ekki við að bera það hér fram að við verðum með einhverjum hætti að styrkja starf fjárln., að þar sé mikil ábyrgð og samstarf milli meiri og minni hluta og samstarf við fagnefndirnar eins og ég hef rakið. Það held ég, hæstv. forseti, að forsætisnefndin ætti að íhuga því að það verður ekki friður um fjárlagagerðina í framtíðinni verði hún unnin með þessum hroðvirknislega hætti.