Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:35:11 (2681)
[23:35]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárln. fyrir þau svör sem hann gat komið að á þessum tveimur mínútum sem hann hefur til að svara mér. Ég skil mjög vel að hann geti ekki komið öllu að en ég vil þó leggja áherslu á það varðandi t.d. DMA-kortagerðina, að þegar við erum í samstarfsverkefni við erlenda aðila að við verðum ekki af meiri fjármunum. Það skiptir mjög miklu máli. Og það skiptir mjög miklu máli, t.d. varðandi þetta, að við getum kannski fyrir litla peninga, ef ég má orða það svo, þetta eru engar smáupphæðir samt sem áður, en fyrir tiltölulega litla peninga getum við sparað okkur verulegar fjárhæðir á næstu árum strax og það er þess vegna sem ég tek þetta atriði út úr vegna þess að ég sá einnig fjárlagabeiðni t.d. Landmælinga Íslands og það voru mörg fleiri atriði en ég tek þetta út úr sérstaklega. Það voru að vísu fleiri atriði sem t.d. Norðmenn vildu koma inn í ákveðið verkefni og borguðu að hluta til. Þess vegna verðum við stundum að horfa á þætti út frá því að við erum ekki að spara í raun og þess vegna bendi ég einmitt á þetta atriði um DMA-kortagerðina. Hv. 7. þm. Norðurl. e., formaður fjárln., talaði einnig um Hollustuvernd ríkisins og gat svona rétt bara skautað yfir það. Ég er ekki að ætlast til þess að mér sé svarað nákvæmlega heldur að þetta sé skoðað milli umræðna, það sé athugað bæði varðandi sértekjur að það þýðir ekkert að vera að tala um að það eigi að afla sértekna ef það er ekki hægt. Það er kannski fyrst og fremst það. Við verðum þá bara að horfast í augu við það að á næsta ári verða að koma aukafjárveitingar og það þykir mér ófullnægjandi ef við vitum fyrir fram að það er ekki hægt að gera þetta og svo þurfum við að koma aftur hérna og samþykkja aukafjárveitingar fyrir stofnanirnar.