Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:39:42 (2683)


[23:39]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Aðeins varðandi liðinn veiðistjóra upp á 1,5 millj. kr. sem á að fara í rannsóknarstöð í háskólanum, þá kemur mér það mjög á óvart og þykir mér fróðlegt að vita hvernig í ósköpunum er hægt að stofna prófessorsstöðu fyrir þá upphæð og væru margir ánægðir ef það væri hægt og held ég að það væri þá athugandi fyrir fjárln. að skoða hvort það sé ekki verið að biðja þá um allt of háar upphæðir annars staðar ( SigG: Lækka til háskólans.) því að það er mjög sérkennilegt að 1,5 millj. eigi að duga fyrir heilli stöðu. En ekki ætla ég að fara að ásaka og allra síst hv. fjárlaganefndarmenn fyrir að koma ekki með nóg.
    En ég vil bara lýsa ánægju minni með að fjárln. muni líta til þessara þátta sem ég hef nefnt milli 2. og 3. umr. og ekki síst til Veðurstofunnar og horfi aðeins mér til vinstri handar á hv. þm. Magnús Jónsson sem jafnframt er veðurstofustjóri. ( MJ: Ég er í leyfi.) Hann hefur leyfi svo að það er þannig að ég vona að það verði litið til þessa þáttar en ég skora á fjárln. að líta einnig til annarra þátta sem ég hef nefnt.