Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:19:33 (2690)


[00:19]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson gerði málefni Þjóðarbókhlöðu að umtalsefni og spurði hvort líklegt væri að bætt yrði við fjárframlag til hennar. Það mál bíður 3. umr. og ég get ekki sagt annað en það að ég geri mér vonir um að einhver viðbót fáist en treysti mér að sjálfsögðu ekki á þessari stundu til að fara nánar út í það.
    Þá gerði hv. þm. málefni listskreytingasjóðs að umræðuefni. Ég hef áður hér á hv. þingi svarað fyrirspurnum varðandi listskreytingasjóð. Ég legg áherslu á það að þótt ekki sé fjárveiting til hans í frv. til fjárlaga þá er ekki verið að fella úr gildi lögin um listskreytingasjóð heldur aðeins framlagið til hans á þessu stigi. Hvort hv. fjárln. ætlar að taka málefni hans til sérstakrar athugunar, eins og Kvikmyndasjóðs núna við 2. umr., það get ég heldur ekki sagt um.
    Mál Háskóla Íslands bíða einnig til 3. umr. og ég hef ástæðu til þess að ætla að á þeim málum verði sérstaklega tekið af hv. fjárln.
    Um fiskvinnsluskólann vil ég aðeins segja það að það er ekki verið að loka honum fyrir fullt og allt og í athugasemdum við frv. til fjárlaga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Starfandi er nefnd sem er ætlað að endurskoða sjávarútvegsnám í heild sinni, þar með talin starfsemi fiskvinnsluskólans og er því ekki gert ráð fyrir starfrækslu hans á vorönn 1995. Hins vegar er fjárveiting til rekstrar á haustönn á næsta ári og miðast hún við núverandi rekstur þar sem niðurstaða nefndarinnar liggur ekki enn fyrir.``
    Nú liggur niðurstaða nefndarinnar fyrir og er til athugunar í menntmrn. og í nefndarálitinu er beinlínis gert ráð fyrir að Fiskvinnsluskólinn verði efldur.