Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:23:10 (2692)


[00:23]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir þær athugasemdir sem hann hefur borið fram og vissulega er ástæða til þess að skoða sumt af því.
    Varðandi listskreytingasjóð eru ekki uppi nein áform innan meiri hluta fjárln. eins og er að taka upp framlög til sjóðsins. Ég tel að það þurfi að finna betri farveg fyrir styrki vegna listskreytinga en ég tek undir það með honum að það þarf hins vegar að tryggja það að við höfum fjármuni til þess að veita styrki til þess að koma upp myndverkum.
    Um Árland og málefni fatlaðra vil ég segja að fulltrúar svæðisnefndar fatlaðra í Reykjavík komu til fjárln. og gerðu grein fyrir þeirri stöðu, einnig fulltrúar úr félmrn. og niðurstaðan varð sú að það ætti að vera tryggt að starfsemi í Árlandi yrði með þeim hætti sem forstöðufólk þess heimilis telur að þurfi að vera þannig að ráðuneytið fullvissaði fjárln. um að svo yrði og við munum að sjálfsögðu ganga eftir því.
    Varðandi Háskóla Íslands vil ég segja það, hæstv. forseti, að ég hef ekki hjólað í Háskóla Íslands eins og hv. þm. komst að orði. Ég hef vakið athygli á því að það er nauðsynlegt að forgangsraða í háskólanum eins og annars staðar í þjóðfélaginu og ég tók sem dæmi að það hlyti að vekja athygli yfirstjórnar Háskóla Íslands þegar kostnaður við einstakar deildir er jafnmismunandi og raun ber vitni og ég tók tannlæknadeildina sem dæmi og spurði. En ég var ekki með neinar tillögur eða meiningar um að það ætti að leggja niður einstakar deildir. En ég tel að þessi deild hljóti að vera til umfjöllunar hjá háskólanum sem ræður þessu að sjálfsögðu sjálfur.