Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:25:39 (2693)


[00:25]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir þær upplýsingar sem fram komu í hans máli. Ég vil fara fram á það að þessi málefni fatlaðra hér í Reykjavík verði skoðuð á nýjan leik. Ég tel að þær upplýsingar sem fjárln. hefur fengið séu allrar athygli verðar en ég satt að segja er ekki viss um að þær séu tæmandi og ég vísa á þessa blaðagrein sem ég var að lesa upp úr áðan, sem ég get afhent þingmanninum ef hann óskar eftir því, þar sem fram kemur að það eru 30 einstaklingar á neyðarlistum fyrir fatlaða í Reykjavík. Og þeir sem eru á neyðarlistum fyrir fatlaða er fólk sem er illa á sig komið að ekki sé meira sagt.
    Varðandi Háskóla Íslands held ég að samanburðurinn á annars vegar t.d. húmanísku greinunum og hins vegar tannlæknadeildinni segi bara ekki neitt og menn eigi að vara sig á svoleiðis samanburðarfræðum. Ég held að starfsemin í Háskóla Íslands sé ódýr. Það hafa komið fram upplýsingar um það að kostnaður við Háskóla Íslands á hverja vinnueiningu er lægri en gerist í sambærilegum háskólum erlendis og það er í fyrsta sinn núna á þessu ári sem menn hafa verið að tala um það að háskólinn væri jafnvel að lenda á því stigi að hann væri ekki talinn samkeppnisfær við aðra skóla hér í grannlöndum okkar. Það er hættulegt merki og ég skora á hv. fjárln. að endurskoða það mál frekar.