Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:27:26 (2694)


[00:27]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að það sé afskaplega hættulegur leikur sem hefur verið leikinn á þessu hausti m.a. af hálfu sumra talsmanna Háskóla Íslands að reyna að draga fram þá fullyrðingu að háskólinn sé á vonarvöl eða hann sé í samanburði við aðra háskóla mjög illa settur. Ég tel að þetta skaði fyrst og fremst Háskóla Íslands.
    Hins vegar verðum við þingmenn að velta því mjög rækilega fyrir okkur hvaða stefnu við viljum taka í málefnum háskólans og við eigum að leggja ríka áherslu á það að Háskóli Íslands njóti þeirra

fjármuna sem við teljum að hann þurfi til þess að geta staðið undir nafni sem Háskóli Íslands. Og ég vil lýsa því hér yfir að ég er reiðubúinn til þess að eiga viðræður við fulltrúa háskólans hvenær sem er og taka rökum og upplýsingum sem þeir geta reitt fram ef þeir geta sýnt fram á það að háskólinn sé mjög illa settur. En ég sagði í ræðu minni hér í dag, hæstv. forseti, og er að ljúka þar með máli mínu, að ég hef rætt við fulltrúa og starfsmenn Háskóla Íslands sem halda því fram að þessar fullyrðingar um stöðu háskólans séu ekki réttar, m.a. vegna þess að þeir hinir sömu telja að það mætti forgangsraða með öðrum hætti en gert er í Háskóla Íslands og það vil ég að háskólinn skoði rækilega sjálfur.