Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:55:29 (2703)


[00:55]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Varðandi aukafjárveitingar sem veittar voru Kvikmyndasjóði vegna norræna verkefnisins þá kom það í hlut núv. ríkisstjórnar að greiða, ég held ég muni rétt, 14 millj. kr. á árinu 1991 með sérstakri aukafjárveitingu á fjáraukalögum. Ég man ekki hvort fyrsta greiðsla var 1990. Sennilega hefur það verið og þá sama upphæð. Það breytir því ekki þeirri staðreynd að á þessu kjörtimabili hefur Kvikmyndasjóður haft til muna meiri fjárupphæðir til ráðstöfunar en í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég hygg að það muni um 100 millj kr. en ég hef að vísu ekki þá tölu nákvæmlega við höndina.
    Varðandi skyldu mína til þess að útvega fé til þess að hægt yrði að úthluta núna þá ítreka ég að fé Menningarsjóðs hefur ekki orðið fyrir neinum niðurskurði. Það hefur allt runnið til þeirra viðfangsefna sem það var ætlað til, aðeins greitt fyrir fram þannig að þeir sem njóta þessa sjóðs hafa einfaldlega notið hans fyrr en kannski eðlilegt mátti telja. Það liggur ekki endanlega fyrir niðurstaða í þessum viðræðum en ég geri ráð fyrir að felldar verði niður um að bil 30 millj. kr., það er svolítill meiningarmunur um það hver skuldin er en sjóðurinn verður látinn njóta vafans þannig að um 30 millj., sem ætla má að hann skuldi umfram þær 145 millj. sem ég nefndi, verði felldar niður. En mér finnst í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að skuldareigandi krefjist þess að skuldin sé greidd en ekki verði haldið áfram að úthluta. Ég tel skynsamlegra að strika undir þessar syndir núna þannig að hægt sé að byrja starfið á næsta ári með eðlilegum hætti.