Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:05:19 (2706)


[02:05]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er langt liðið á nóttu og vissulega er það svo að það er nokkur hætta á því að þegar lagt verður af stað heim geti farið svo að þingmenn fæli burt þá jólasveina sem hafði verið vænst að yrðu á ferðinni við mitt heimili og áttu að koma færandi hendi en það verður að taka því sem að höndum ber í þeim efnum.
    Ég hafði, hæstv. forseti, hug á því að vekja athygli á því vegna ágætrar ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. að það hafa verið gerðar breytingar á jarðalögum. Hv. þm. gaf okkur ágætt sögulegt yfirlit yfir jarðræktarframlögin og þá löggjöf og þær skyldur sem bændur telja að felist af hálfu ríkisins í jarðræktarlögunum. En með lögum nr. 1/1992 voru gerðar breytingar til viðbótar við þær breytingar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon stóð fyrir á sínum tíma til þess að reyna að hemja útgjöld vegna þessa liðar. Í þeim lögum segir, með leyfi forseta, í 4. gr. þessa bandorms en þar er breyting við 12. gr. laganna um jarðræktarframlög:
    ,,Allur réttur til framlaga samkvæmt lögum þessum er háður fjárveitingu Alþingis.``
    Á þessu kann að vera mismunandi skilningur en sá skilningur hefur verið uppi að svo lengi sem ekki er fjárveiting þá er enginn réttur.
    Á þetta vildi ég benda hv. þm. Að vísu veit ég að ýmsir hafa annan skilning á þessu en þann að það sé ekki uppi réttur til þess að fá styrki úr ríkissjóði en þessi lög eru að mínu mati alveg klár og skýr.