Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:07:48 (2707)


[02:07]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef út af fyrir sig heyrt þetta áður og það er rétt tilvitnað í þetta orðalag. En hitt stendur svo fyrir sínu að að öðru leyti gera jarðalögin ráð fyrir því að menn sæki um framlög og styrki og fái þeir samþykktar þær umsóknir þá er það skilningur bænda að þeir hafi fengið viðurkenningu á því að þeir megi ráðast í tiltekna framkvæmd og eigi rétt á styrkjum. Sú lagatúlkun sem gengur gegn þeirri sem hv. 1. þm. Vesturl. var með er væntanlega á þá leið að fjárveitingar Alþingis þó að þær nægi ekki á því yfirstandandi ári sem í hlut á eigi þá að koma til síðar til að gera upp þau framlög sem voru samþykkt.
    Spurningin er hins vegar sú: Liggja þá ekki mistökin í því að samþykkja nokkurn tíma meira af umsóknum en svo að fjárveiting yfirstandandi árs dugi til að gera þau upp? Ég ímynda mér að í hnotskurn sé deilan um þetta. Í öllu falli er ljóst að þarna er uppi ágreiningur og ekki minna ,,átorítet`` í þessum málum en sameinuð landbn. Alþingis telur að þarna séu vangoldin framlög upp á annars vegar 67 millj. kr. vegna ársins 1992 og hins vegar 70 millj. vegna ársins 1993. Það gengur ekki til lengdar að láta standa í stappi um þetta atriði. Þetta verður þá bara að útkljá ef menn vilja fara alla leið á enda með það. Ég veit ekki hvernig það yrði þá best gert, hvort bændur verða að höfða mál til þess að láta reyna á rétt sinn í þessum efnum eða hvernig það verður gert ef ekki er hægt að ná um það samkomulagi. En það hlýtur að þvælast fyrir einhverjum stjórnarsinnum, þar á meðal hv. 1. þm. Vesturl., að landbn. Alþingis skuli sameinuð í nefndaráliti sínu, sem er umsögn um útgjöld til landbúnaðarmála samkvæmt fjárlagafrv., vera þessarar skoðunar.