Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:16:55 (2711)


[02:16]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi flutt áðan nokkuð málefnalega ræðu og forðast eins og heitan eldinn að vera í einhverjum útúrsnúningum eða skætingi og m.a. lýsti ég mínum sjónarmiðum mjög hreinskilnislega gagnvart því að ég teldi það mikinn aumingjaskap að reka ríkissjóð ár eftir ár með halla, taka lífskjör núverandi kynslóðar í landinu að láni hjá komandi kynslóðum, börnum okkar og barnabörnunum, og ég tel að heiðarleg og hreinskilin ummæli af því tagi verðskuldi ekki útúrsnúninga af því tagi sem hv. síðasti ræðumaður var hér með. Ég ýjaði hvergi að því og hv. þm. hefur enga ástæðu til þess að lesa það út úr mínum orðum að ég hafi verið að boða einhverja sérstaka hækkun á þjónustugjöldum. Skoðanir mínar í þeim efnum liggja alveg fyrir. Ég er ekki mikill stuðningsmaður þess, a.m.k. ekki þegar undirstöðuþættir velferðarkerfisins eiga í hlut. Ég tel að þá eigi að kosta úr sameiginlegum sjóðum og allir landsmenn án tillits til aldurs, kynferðis eða búsetu eigi að standa jafnir gagnvart því þannig að ég hef ekki verið talsmaður skólagjalda, gjaldtöku á heilsugæslustöðum, spítölum o.s.frv. svo að hv. þm. hafi það á hreinu.
    Ég hef líka lýst mínum viðhorfum til tekjuöflunar, svo sem eins og með því að leggja á almennilegan hátekjuskatt, leggja á fjármagnstekjuskatt og skattleggja í ríkari mæli en nú er gert hagnað gróðafyrirtækja. Ég tel að þetta eigi að gera. En mikilvægasta aðgerðin er auðvitað sú að örva þannig efnahagsstarfsemina og atvinnulífið og verðmætasköpunina í landinu að við hreinlega styrkjum tekjugrundvöllinn í heild sinni. Við munum aldrei ráða við þetta vandamál með þeirri samdráttar-, niðurskurðar- og afskiptaleysispólitík sem þessi ríkisstjórn hefur rekið í þeim efnum. Til að mynda atvinnuleysið eitt er einhver mesta sóun sem nokkurt þjóðfélag getur búið við, bæði vegna þess að það veldur gífurlegum útgjöldum en það þýðir líka að menn verða af geysilegum verðmætasköpunarmöguleikum.
    Ég er til í umræður við betra tækifæri við hv. þm. um þetta en ég frábið mér túlkun á mínum orðum eins og hann hafði uppi tilburði til áðan.