Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:19:02 (2712)


[02:19]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það voru engir útúrsnúningar af minni hálfu þegar ég vakti athygli á því að hv. þm. nefndi það í lok ræðu sinnar, sem var á margan hátt málefnaleg og ítarleg ræða, að hann teldi það aumingjadóm að afla ekki tekna fyrir þeim útgjöldum sem stofnað væri til í fjárlögum og fjárlagafrv. hverju sinni. Út af fyrir sig gerði ég engan ágreining um það. Ég var hins vegar að segja á móti að ég teldi að við værum komin að endimörkum á þeirri leið skattahækkana sem menn hafa farið fram undir þetta. Ég sagði jafnframt að ég teldi að í því væri fólgin einhver sjálfsblekking þegar menn töluðu í almennum frösum, liggur mér við að segja, um að það ætti að skattleggja einhverja hátekjumenn og fjármagnstekjur, og núna bætti hv. þm. við hagnaði gróðafyrirtækja, og ímynda sér að þetta eitt og sér mundi duga til þess að brúa þetta bil. Ég vakti á því athygli jafnframt að það var svanasöngur fjmrh. fyrrv. ríkisstjórnar að gefa út sérstakt rit þar sem hvatt var til þess að draga úr þörfinni fyrir þjónustu á vegum ríkisins með því að leggja á þjónustugjöld. Þetta var niðurstaða sameiginlegrar norrænnar vinnu fjmrh. á þeim tíma og var birt með sérstakri velþóknun til þess að vekja athygli á nauðsyn þess að þetta kerfi væri líka innleitt hér á landi. Ég hélt satt að segja í barnslegri trú minni að hv. þm., sem var í ríkisstjórn á þeim tíma, hefði eitthvað haft að gera með þessa stefnumörkun sem var sett fram í lok síðasta kjörtímabils sem sérstakt innlegg til framtíðar að þessu leytinu.
    Ég segi varðandi hagnað gróðafyrirtækjanna sem svo eru kölluð að ég held að það sé fyrst og fremst áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga hversu hagnaður atvinnulífsins í landinu er lítill og það gerir það að verkum að atvinnugrundvöllurinn er ekki nægilega öflugur í landinu eins og mál standa nú.