Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:21:21 (2713)


[02:21]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég var réttilega að vekja athygli á því að menn gera ekki það sem þeir eru stundum að tala um, t.d. fyrir kosningar og er oft vinsælt, að þeir ætli bara að skera niður og spara. Það er ein aðferðin. En staðreyndin er sú að menn hafa ekki gert það, hv. þm., hvorki Sjálfstfl. né Alþfl. né út af fyrir sig aðrir flokkar þrátt fyrir stundum hákarlalegar yfirlýsingar um það, t.d. hæstv. utanrrh. Hann hefur oft tekið stórt upp í sig og þeir kratar og talað um að það væri lítið mál að spara svo og svo marga milljarða og skera niður. En hver er niðurstaðan? Núv. ríkisstjórn hefur t.d. haft fjögur ár til þess að ná einhverjum tökum á ríkisfjármálum með niðurskurði og sparnaði ef svo ber undir. En hver er niðurstaðan? Hver er útkoman? Hallarekstur á ríkissjóði á hverju einasta ári upp á marga milljarða og tugi milljarða. Og þá segi ég: Þá verða menn að horfast í augu við að það verður þá að fara a.m.k. að einhverju leyti hina

leiðina, að afla tekna því þetta gengur ekki svona óbreytt um aldur og ævi, það vitum við öll. Það er mesti aumingjaskapurinn af þessu öllu að neita að horfast í augu við raunveruleikann og taka á vandamálinu. Það er að fá lífskjör sín að láni hjá komandi kynslóðum.
    Ég er út af fyrir sig sammála hv. þm. um að leið skattahækkana, þ.e. skattahækkana á almenning, við erum komin meira en á endastöð í því máli. Það er vegna þess að núv. ríkisstjórn hefur aldrei séð nein önnur úrræði en að hækka skatta á almenningi og hefur flutt skattbyrðar svo nemur milljörðum kr. af atvinnulífi yfir á almenning. Ég tel að þar eigi að reyna a.m.k. að einhverju leyti að finna leið til baka í því formi að ná a.m.k. meiri þátttöku best stæðu fyrirtækjanna í kostnað af rekstri samfélagsins. Enda sýnir reynslan að þeir peningar leita lítið út til nýsköpunar í atvinnulífinu. Þessu má líka mæta með því að hafa hvata á móti í formi frádráttar til þeirra fyrirtækja sem standa í nýsköpun.
    Að lokum er það ekkert sem skrifast á mína ábyrgð þó að einhver skýrsla hafi komið fram í fjmrn., einhverjar vangaveltur embættismanna um einhver þjónustugjöld. Ég ber bara enga ábyrgð á því.