Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:23:42 (2714)


[02:23]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að halda nokkra ræðu um fjárlög en er nú eiginlega alveg fallin frá því þar sem það er orðið nokkuð áliðið. En í framhaldi af því sem var til umræðu síðast í andsvörum milli hv. 4. þm. Norðurl. e. og 3. þm. Vestf. þá má segja að flatur niðurskurður hefur verið ástundaður mjög í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hún hefur ekki haft kjark til þess að forgangsraða og hún dýpkaði mjög þá kreppu sem óneitanlega var í efnahagslífinu á fyrri hluta kjörtímabilsins og er raunar enn með því að vera með úrtölur og mikið svartagallsraus og þannig urðu tekjur ríkissjóðs minni en ella hefði orðið. Ekki fleiri orð um það.
    Það sem ég hafði fyrst og fremst ætlað mér að tala um eru ýmsir liðir sem heyra undir hæstv. menntmrh. sem er löngu horfinn úr þingsalnum og eru reyndar mál sem eru til athugunar á milli 2. og 3. umr. og ég leyfi mér að hafa enn þá þá von að hæstv. ríkisstjórn og hv. meiri hluti fjárln. beri gæfu til þess að taka á jákvæðan hátt á þeim málum. Þar má sérstaklega nefna Háskóla Íslands sem er mjög illa leikinn af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Við stjórnarandstaðan í hv. menntmn. flytjum brtt. við fjárlagafrv. um aukið framlag vegna þess að háskólinn er í kreppu og ekki er útséð um það hvort hann heldur velli sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar og sem menntastofnun sem á að vera sambærileg við aðrar menntastofnanir í Evrópu á þessu sviði. Það hefur komið fram í umræðunni að Háskóli Íslands er til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr. og ég boða þá frekar lengri ræðu við 3. umr. ef ekki verður orðið við því að bæta þar úr.
    Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá nokkrum hv. þm. varðandi tannlæknadeildina. Það er eitthvað sem hv. þm. stjórnarflokkanna datt í hug að mér finnst bara í morgun eða í gær að slá fram til þess að geta eitthvað sagt og til þess að geta eitthvað gagnrýnt. Það var greinilega áhugi á því hjá hv. þm. stjórnarflokkanna að gagnrýna háskólann og þarna sáu þeir einn möguleika sem þeir notfærðu sér og er hann ekki mjög frumlegur því að oft hefur þetta áður verið nefnt.
    Annað var það sem ég ætla að gera að umræðuefni og það er Þjóðarbókhlaðan sem var opnuð með mikilli viðhöfn á fullveldisdaginn og má í sjálfu sér þakka hæstv. menntmrh. fyrir það að hann hefur sett svolítinn kraft í að ljúka því verki sem hafði dregist úr hömlu. En það er ekki nóg að opna þetta glæsilega hús því að eins og fjárlagafrv. lítur út þá vantar alveg stórlega fjármuni til þess að geta rekið safnið þannig að það geti þjónað því hlutverki sem því ber að gera. Og samkvæmt fskj. með frv. um Þjóðarbókhlöðu þegar það var til umfjöllunar í hv. Alþingi á síðasta vetri þá var gert ráð fyrir að það þyrfti 242 millj. til þess að reka safnið en samkvæmt frv. fær það 161 millj. kr. Munurinn, 81 millj., er hvergi sjáanlegur. En hæstv. menntmrh. tók það fram fyrr í kvöld að þetta væri eitt af þeim málum sem yrðu skoðuð milli 2. og 3. umr. og ég boða þá bara lengri ræðu við 3. umr. ef ekki verður orðið við því. Á þetta legg ég mjög mikla áherslu þar sem það verður strax við upphaf rekstrar þessa safns að reka það með þeim myndarbrag að það geti þjónað landsmönnum og þá sérstaklega stúdentum við háskólann. En opnunartíminn er ekki nógu langur eins og þetta er í dag og fleira mætti nefna.
    Ég ætla ekki núna, hæstv. forseti, að fara út í skólamálin frekar en illa er staðið að grunnskólamálum og framhaldsskólum reyndar líka en þó alveg sérstaklega grunnskóla. Það er búið að vera þannig í tíð þessarar ríkisstjórnar árvisst og eru kannski orðnar nokkuð þreytandi þær ræður sem sú sem hér stendur hefur haldið um þau mál því að þær hafa allar verið á eina bókina lærðar.
    Að síðustu langar mig að nefna listskreytingasjóð sem er alveg skorinn í frv. Þó að hæstv. menntmrh. væri að reyna að halda því fram áðan að það væri ekki verið að leggja sjóðinn niður heldur bara verið að leggja niður fjárframlög til hans þá gildir það einu að mínu mati. En ef það gerist núna árið 1995 að sjóðurinn fær ekkert framlag á fjárlögum þá verður erfitt að koma honum í gang aftur. Og það eru engin rök sem hafa verið færð fram fyrir því að gera þetta. Mér dettur í hug að sú aðferð sem hv. 5. þm. Suðurl. nefndi í kvöld að væri viðhöfð af hálfu stjórnarflokkanna varðandi niðurskurð hafi einmitt verið viðhöfð, þ.e. að það hafi verið notuð skífa og snúið eins og gert er stundum í einhverjum lottóum í sjónvarpinu og þannig fundið út hvar ætti að skera því listskreytingasjóður verður fyrir valinu án þess að nokkur rök hafi verið færð fyrir því hvers vegna. Ég segi um hann eins og fleira sem ég hef bryddað upp á að

ég boða frekari umræðu um þann sjóð ef ekki verður bætt úr á milli 2. og 3. umr. Það mætti nefna húsafriðunarsjóð og fleira en aðrir hv. þm. Framsfl. hafa komið inn á þau mál.
    Það er aðalerindi mitt hingað úr því að það er orðið svona áliðið að mæla fyrir brtt. á þskj. 370 frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Svavari Gestssyni, Pétri Bjarnasyni og þeirri sem hér stendur og er hún vegna Heyrnleysingjaskólans, að í staðinn fyrir 12,6 millj. komi 16,4 millj. Hér er um það að ræða að það eru uppi áform um að leggja niður leikskóla Heyrnleysingjaskólans og hann fari undir Dagvist barna í Reykjavíkurborg. Þetta mál hefur ekki verið undirbúið nægilega vel og við höfum áhyggjur af því að ef þetta verði gert bara sisvona um áramótin þá geti þetta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þau börn sem þarna eru vistuð og eru heyrnarlaus. Táknmálið er þeirra tungumál og það er óskaplega mikilvægt að þau fái þá umönnun sem þeim ber til þess að þessir einstaklingar nái því að eiga tungumál. Við óttumst að það gæti farið svo að það yrði ekki ef þarna yrði á fljótvirknislegan hátt kastað teningi og leikskólinn fluttur yfir til borgarinnar án undirbúningsvinnu. Hæstv. menntmrh. kom inn á þetta mál í fyrirspurnatíma fyrir nokkrum dögum og opnaði á það að þessu mætti fresta, en til þess að svo geti orðið þarf að hækka framlag á fjárlögum um 3--4 millj. Til þess að sýna í verki vilja okkar í þessum efnum þá leggjum við fram þessa brtt.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um fjárlagafrv. á þessu stigi málsins en ítreka að þau mál sem ég hef nefnt eru mjög mikilvæg og heyra undir hæstv. menntmrh. og ég trúi því að það verði tekið á þessum málum milli 2. og 3. umr.