Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:44:06 (2716)


[02:44]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það er nokkuð farið að líða fram á nóttina en mér finnst nú einhvern veginn að maður megi ekki láta það hafa áhrif á hvort maður ræðir eitthvað um mál eins og það sem er til umræðu. Ég ætla þess vegna að fara fáeinum orðum um þetta frv. til fjárlaga en að vísu lítið almennt vegna þess að félagar mínir í Alþb. hafa fyrr í dag gert grein fyrir afstöðu Alþb. til frv. Ég ætla þess vegna að taka frekar fyrir afmarkaðri hluta þess og einnig að mæla fyrir tveimur brtt. sem ég flyt við frv. Reyndar var hugmyndin að flytja þriðju brtt. en vegna þess hversu fámennt var orðið hér í kvöld treystu hv. forsetar sér ekki til þess að ná fram afbrigðum á þeirri tillögu þannig að við sem flytjum hana munum láta hana koma fram við 3. umr.
    Það er fyrst að segja það að lokaorð í greinargerð með fjárlagafrv. voru eftirfarandi og það er umhugsunarefni þegar menn sjá þær brtt. sem hér eru komnar fram og hafa líka séð og heyrt nýjustu tillögur ríkisstjórnarinnar sem voru kynntar með pompi og prakt um síðustu helgi. Það stendur í lokaorðum í fjárlagafrv. í greinargerðinni:
    ,,Boðskapur þessa fjárlagafrumvarps er skýr. Ekki verður hvikað frá þeirri aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefur fylgt. Nú þegar loksins rofar til í efnahagslífinu eftir erfiðleika og samdrátt undanfarin ár er afar mikilvægt að sá tekjuauki sem efnahagsbatinn skilar gangi til þess að minnka halla ríkissjóðs. Jafnvægi í ríkisbúskapnum er forsenda þess að treysta hagvöxt í sessi og bæta lífskjörin. Þetta er kjarni stefnunnar í ríkisfjármálum.``
    Svo mörg voru þau orð. Það verður harla hjákátlegt að bera þau saman við síðasta útspil hæstv. ríkisstjórnar sem kom fram á laugardaginn var og mun þýða að hallinn á ríkissjóði mun aukast frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. um eitthvað í kringum 2,7 milljarða kr. eftir því sem mér hefur verið sagt þó ég viti ekki hversu nákvæm vísindi eru á bak við þann útreikning. Það er þess vegna á ferðinni kannski á milli 9--10 milljarða kr. halli á fjárlagafrv. sem verið er að ræða við 2. umr. Það er kannski rétt að endurtaka þá setningu sem ég las reyndar hér áðan, hæstv. forseti: ,,Ekki verður hvikað frá þeirri aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin hefur fylgt.`` Menn eru sem sagt ánægðir með stöðuna og sjálfa sig og telja að þeir séu á réttum brautum. En lýsingin á því hverjar þær brautir eru er dálítið undarleg.
    En úr því að ég er farinn að tala um þessa laugardagsyfirlýsingu sem gerði hæstv. utanrrh. svona hamingjusaman að það var besti dagur í lífi hans á tíma þessarar ríkisstjórnar þá verð ég að segja að mér finnst það dálítið dapurlegt að sjá það í fjölmiðlum að alla vega eins og stendur þá hafa þessar fréttir verið túlkaðar með þeim hætti að það er enginn vafi á því að almenningur í landinu trúir því líklega eftir að hafa lesið Morgunblaðið og hlustað á frásagnir af þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það eigi t.d. að lækka skatta. Tekjuskattur lækkar um 8.400 kr. stendur í Morgunblaðinu t.d. á þriðjudeginum í þessari viku. Og það án þess að tillit sé tekið til tekna fólks. Þetta er það sem Morgunblaðið segir að þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar þýði eða yfirlýsing um hvað hún hyggst láta gera á hv. Alþingi. Auðvitað er þetta blekking. Það er búið að fara yfir það og ég ætla ekki að fara að endurtaka það neitt sérstaklega, einungis að segja að vitanlega eru þessi áform miðuð við að tekjur ríkisins aukist vegna hækkaðra tekna fólks og að þess vegna muni það ekki hafa áhrif á tekjur ríkisins þó að hækki hjá fólki það sem það fær frádregið áður en það fer að borga skatt.
    Það má segja að þetta sé svo sem í stíl við það sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að boða, aðaláhrifin af setu þessarar ríkisstjórnar eru auðvitað þau að hún hefur sett auðhyggjuna í öndvegi og hún hefur gert þá ríku ríkari og þá fátæku fátækrari. Það eru aðaláhrifin af setu þessarar ríkisstjórnar. Í upphafi boðaði hún afskiptaleysi af atvinnulífinu, engar sértækar aðgerðir og að einkavæðingin væri lausn á flestum vanda. Í ljósi stefnu sinnar og til þess að fullnægja henni var farið í að selja ríkisfyrirtæki svona eins og hægt var. Það gekk nú brösuglega á pörtum. En sumt seldist fyrir lítið þegar menn voru tilbúnir að selja og vildu koma sínum vörum út, þá seldust þær. SR-mjöl var selt fyrir lítið og það eru fleiri fyrirtæki ríkisins sem hafa verið seld fyrir lítið. Gróðinn af þessari sölu hefur verið lítill en ríkið er farið að tapa tekjum vegna sölu á sumum af þessum fyrirtækjum. Þingmenn fengu t.d. í hendur upplýsingar um það hvaða áhrif á tekjur ríkisins það hafði að selja framleiðslu áfengis frá Áfengisverslun ríkisins. Það er fróðlegt og segir svolítið um það hvað hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera í einkavæðingunni. Hún seldi framleiðsludeild ÁTVR fyrir 15 millj. kr., heilar 15 millj. sem hún fékk fyrir allt saman. Framleiðslurétt á áfengi, vélar og tæki. Það er fullyrt frá starfsmönnum Áfengisverslunar ríkisins að tekjutap áfengisverslunarinnar vegna þessarar sölu sé a.m.k. 17 millj. kr. á hverju ári. Það er 2 millj. kr. mínus á fyrsta ári. Tekjutap ríkissjóðs er 17 millj. kr. á ári af því að hafa selt framleiðsludeildina. Þetta er nú gróðinn sem þessi einkavæðing færði í ríkissjóð að losa sig við áfengisframleiðsluna sem þarna var til staðar. Það uggir mig að ýmislegt af því sem menn hafa færst í fang og ekki svifist svo sem nokkurs í því að losa ríkið við eigur sínar að það muni koma á daginn að þar sé líka verið að selja frá sér tekjumöguleika. Og ekki bara tekjumöguleika heldur stórkostlegar eignir sem hafa verði látnar fara fyrir litla sem enga fjármuni. En kenniorðin sem hæstv. ríkisstjórn notar og hv. þingmenn hennar eru: einkavæðing, markviss hagræðing og eitthvað í þeim dúr og út úr því hefur síðan komið það sem við höfum séð og erum að sjá þessa dagana.
    Byrðarnar voru fluttar af fyrirtækjunum yfir á almenning. Tekjutap ríkisins vegna þess flutnings er gífurlega mikið. Það eru skattalækkanir á fyrirtæki sem ríkissjóður er núna að líða fyrir. Það má auðvitað ræða það nokkuð lengi hvernig eigi að skattleggja fyrirtæki en ríkissjóð munar örugglega mikið um þann skatt sem hann verður af að fá nú t.d. vegna þeirra fyrirtækja sem hafa núna verulega miklu lægri skattprósentu og þurfa þess vegna ekki að borga í ríkissjóð töluvert stóran hluta af hagnaði sínum. Það eru ekki vesalingarnir sem græða á því, það eru stærstu og sterku fyrirtækin sem hafa mestan hagnaðinn sem græða á breytingum á tekjuskatti fyrirtækjanna. (Gripið fram í.) Þetta er auðvitað sannleikur, hv. 5. þm. Austurl. Þetta veit hv. þm. vel. Það er búið að lækka skattprósentuna á fyrirtækjunum niður í 32% eða eitthvað slíkt. Það munar ekki litlu. Það er orðinn slíkur munur á einkarekstri og fyrirtækjarekstri að einkarekstur mun heyra sögunni til þ.e. sá einkarekstur, sem hefur verið rekinn á fulla ábyrgð einstaklinganna á undanförnum árum, mun heyra sögunni til innan skamms tíma vegna þessara skattkerfisbreytinga. Því einkaaðilinn verður að borga hátt í 42% af sinni starfsemi ef hann er ekki með sinn rekstur í hlutafélagsformi en fyrirtækin borga auðvitað þessa lágu skattprósentu sem búið er að koma á núna. (Gripið fram í.) Ég held að það hefði mátt bíða að breyta þessu svona. Það var ekki réttur tími alla vega til að gera það þegar ríkissjóð vantaði svo sárlega fjármuni og þurfti á öllu að halda. Ég tel líka að það sé ekki réttur tími til þess að lækka hátekjuskattinn þegar svo sárlega vantar fjármuni í ríkissjóð. Það er ekki réttur tími til að lækka hátekjuskattinn þegar hæstv. ríkisstjórn boðar að það þurfi til að hengja saman fjárlög að bæta við hallann úr 6,5 milljörðum kr. upp í kannski 9,5 milljarða kr. eða hvað það verður þegar upp verður staðið. ( GunnS: Alþb. fannst aldrei rétti tíminn til að leggja einu sinni á hátekjuskattinn.) Það er rangt hv. þm. að Alþb. hafi aldrei fundist réttur tími til að leggja á hátekjuskatt. Það veit hv. þm. betur en hann talar. Það voru fleiri sem tóku þátt í þeirri ríkisstjórn en Alþb. Það mun vera ríkisstjórn sem Alþfl. og Alþb. og Framsfl. tóku þátt í sem hv. þm. er að vísa til. Það mun hafa orðið niðurstaðan hvernig sem afstaða einstakra flokka var að það væri ekki hægt að leggja þennan skatt á meðan sú ríkisstjórn var við völd. Þannig að það mun vera sameiginlegur pyttur sem við hv. þm. sitjum í gagnvart hátekjuskattinum áður en þessi ríkisstjórn komst á. En ég tel alla vega að það hafi verið full ástæða til að viðhalda honum áfram og alls ekki að lækka hann. Ég þarf ekki að rökstyðja það með öðru en þeim halla sem hæstv. ríkisstjórn stefnir að að verði nú á fjárlögunum. ( GunnS: Það var líka halli á síðasta kjörtímabili.) Það var auðvitað halli á síðasta kjörtímabili en ef við athugum núna og förum yfir kannski hluta af þeim ræðum eða minnumst þeirra ræðuhalda sem hæstv. ráðherrar Alþfl. sérstaklega, t.d. hæstv. viðskrh., og hv. þm. hafa haldið hér á kjörtímabilinu um að það ætti ekki að vísa eyðslu okkar yfir á framtíðina þá held ég að það ætti að skoða ummæli hv. þm. í ljósi þess.
    Það er fleira sem hægt er að kalla blekkingariðju sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að stunda núna. Ég verð að segja það alveg eins og er að sú ró sem hv. þm. stjórnarliðsins og hæstv. ríkisstjórn hafa skreytt sig oftast með á þessu kjörtímabili og virðast ætla að hafa í barmi sínum alveg sérstaklega á næstunni og líklega í kosningabaráttunni það eru þessi átök í vegamálum. Það kann nú að vera að ég sé að slíta þeim stokk sem margir hafa gert áður með því að fara að tala um það. En vegna þess hve hv. þm. og hæstv.

ráðherrar eru nú iðnir við að hæla sér af þessum afrekum sínum í vegamálum þá kemst ég ekki hjá því hér við umræður um fjárlögin einfaldlega vegna þess að það er auðvitað hluti af fjárlagagerðinni. Og ég ætla að fara hér yfir örfáar tölur og verð fljótur að.
    Frá því að þetta stórkostlega framkvæmdaátak í vegamálum hófst, sem gerðist á árinu 1993, og fram á þennan dag þá hafa verið skertar tekjur í Vegasjóð og ég ætla að nefna bara tvö atriði. Það eru annars vegar þær tekjur sem eru skertar í Vegasjóðinn og hins vegar það sem Vegasjóður nú borgar, þ.e. reksturinn á ferjum og flóabátum eða kostnaðurinn sem fylgir þeim rekstri. Bara þessi tvö atriði vega upp allt átakið í vegamálum sem hæstv. ráðherrar og hv. þm. ríkisstjórnarflokkanna hafa verið að hæla sér af. Á árunum 1993--1995 eru bara þessir tveir liðir samanlagt 2 milljarðar 434 millj. kr. Lántakan vegna vegaframkvæmdanna sem búið er að fara í var nákvæmlega 2 milljarðar 450 millj. kr. Hvað skyldi þá vera eftir af þessu mikla vegaátaki? Það eru ekki mjög stórar upphæðir. Ég held að það sem hafi gerst og orðið til þess að hæstv. ríkisstjórn hljóp til og boðaði nýtt vegaátak hafi reyndar verið það að hv. þm. stjórnarflokkanna hafi áttað sig á því að það mundi auðvitað komast upp um þá í kosningabaráttunni þegar menn færu að fara yfir tölurnar þá yrði auðvitað sýnt fram á það að vegaátakið var bara blöff. Það var aldrei neitt vegaátak það var bara verið að færa fjármunina svona til og hræra í hlutunum í hvaða tilgangi sem það hefur nú verið gert. Kannski hugsanlega í þeim tilgangi að geta haft áhrif á það í hvaða röð framkvæmdir væru teknar. Alla vega á að halda áfram sömu brautina. Það er meiningin að hið nýja vegaátak sem á að hefjast á næsta ári eigi ekki að lúta sömu lögmálum við skiptingu vegafjár eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Ég vek athygli á því að samgn. skilar sameiginlegu áliti og kannski finnst sumum hv. þm. það skrýtið að við í samgn. skulum skrifa undir sameiginlegt álit, sem hér fylgir með brtt. meiri hluta fjárln., vegna þess hvernig staðið hefur verið að vegamálunum á undanförnum árum. En mín afstaða er sú og þess vegna skrifa ég undir þetta sameiginlega álit að ég bind við það ákveðnar vonir að meðhöndlun vegamálanna í vetur, vegáætlunar og þeirra mála sem tengjast henni, muni verða með þeim hætti í hv. nefnd að það verði reynt að færa ríkisstjórnarflokkana af þessum óheillabrautum og þetta vegaátak, sem menn ætla í núna, verði tekið inn í svipaðan farveg í sambandi við skiptingu á vegafénu eins og hefur verið við lýði á undanförnum árum og hefur verið góð samstaða um. Í þessu áliti sínu lýsir nefndin yfir áhyggjum sínum vegna samdráttar til helstu framkvæmdaflokka samgöngumála í frv. Þar eru einkum hafnamálin og flugmálin og ég vísa til þess sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði um þá hluti og ætla ekki að fara að lengja umræðuna með því að endurtaka það.
    Ég vildi að þetta kæmi fram sem ég hef verið að segja um þetta framkvæmdaátak í vegamálum. Sannleikurinn er sá að það kemur út á núlli ef við reiknum þessi ár inn í dæmið, þ.e. árin 1993--1995 sem átakið átti að standa yfir á, þá erum við nokkurn veginn á þessu sama róli eins og við hefðum verið ef Vegasjóður hefði mátt nýta sér tekjur sínar til að standa undir framkvæmdum í vegamálum.
    Mig langar síðan sérstaklega að mótmæla því hvernig farið er með Byggðastofnun í þessu fjárlagafrv. Þar er enn verið að ganga á lagið og skerða framlög til byggðamálanna og það er alveg með eindæmum finnst mér að menn skuli voga sér að skerða núna framlögin til byggðamála frá þeirri ályktun sem gerð var með samkomulagi á hv. Alþingi. Þessi stefnumótandi byggðaáætlun fyrir tímabilið 1994--1997 sem var samþykkt er svikin strax og það vantar upp á 50 millj. kr. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég tel að það sé full ástæða til að fara að tala um það í alvöru hvað á að gera eiginlega við þessa Byggðastofnun sem við eigum hér? Ég held að hún sé orðin með þeim skerðingum sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir á hennar möguleikum til að sinna sínu hlutverki eins og maður sem er í allt of stórum fötum og getur ekki gengið fyrir gallanum. Ég held að það sé orðið algjörlega ofvaxið yfirstjórnunarbattirí í Byggðastofnun ef hún á ekki að hafa meiri fjármuni til að deila út en hún gerir og hefur fengið hjá hæstv. ríkisstjórn. ( GunnS: Var það landbúnaðurinn?) Ég er að tala um Byggðastofnun, hv. þm. Ég er að tala um Byggðastofnun sem þessi hæstv. ríkisstjórn er búin að leggja í rúst þannig að ég held að það séu fleiri og fleiri að komast á þá skoðun að ef ekki tekst að breyta út af þeirri stefnu þá verði að leggja þá stofnun niður. Ég held að það væri miklu betur komið sumt af hennar starfsemi úti í sveitarfélögunum, úti á landsbyggðinni, heldur en eins og nú er að þetta er nánast miðstýringarapparat sem hefur varla peninga nema til að snúast um sjálft sig. Ég held að það hljóti að verða eitt af verkefnum næstu ríkisstjórnar að fara yfir þau mál að nýju.
    Síðan langar mig til að fara örfáum orðum um samskipti hæstv. ríkisstjórnar við sveitarfélögin, ég fór í þá umræðu fyrir sólarhring eða svo, en mig langar til að það komi fram í þessari umræðu að nú eru sveitarfélögin í landinu rekin með miklum halla. Það er ekki bara ríkissjóður sem er rekinn með halla, sveitarfélögin í landinu eru rekin á sl. ári með u.þ.b. 4,7 milljarða kr. halla. Það er auðvitað skelfilegt til framtíðar að horfa ef hið opinbera rekur alla sína starfsemi með stórkostlegum halla. Þetta þýðir einfaldlega að í nánustu framtíð verður framkvæmdageta sveitarfélaganna og ríkisins nánast engin. Ef ekki verður hægt að snúa við frá þessum brautum þá munum við upplifa atvinnuleysi sem leiðir af getuleysi sveitarfélaganna og ríkisins til að halda uppi starfseminni sem sveitarfélögin þurfa að halda uppi. Því að lokum verða sveitarfélögin auðvitað að skera niður sínar framkvæmdir ef þau þurfa að fara að borga sínar skuldir og þrengja þar með að framkvæmdaliðnum.
    Það er búið að ræða svo mikið um hallarekstur ríkissjóðs sem hefur viðgengist á undanförnum árum að ég ætla ekki að bæta við þá umræðu öðru en því að þessi hallarekstur er í svo miklu ósamræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna og hæstv. fjmrh. sérstaklega að það er mjög ámátlegt að sjá það að hann skuli þurfa að yfirgefa stól sinn í ráðuneytinu með ríkissjóðshalla sem er álíka mikill og þegar hann tók við því hæstv. ríkisstjórn og fjmrh. í broddi fylkingar lýsti því yfir að það ætti að ná niður halla ríkissjóðs á næstu tveimur árum og það hefur nú tekist með þessum hætti. Það verður því heldur ömurleg grafskrift sem hæstv. fjmrh. fer með úr sínum stól.
    Ég ætla síðan að mæla fyrir, hæstv. forseti, tveimur tillögum. Í fyrsta lagi er það brtt. á þskj. 372 um niðurgreiðslu á rafhitun sem hljóðar svona:
    ,,Við 4. gr. 11-399 115 Niðurgreiðsla á rafhitun. Fyrir ,,397.000`` kemur 497.000. kr.`` Þetta er í þús. kr.
    Þarna er á ferðinni tilraun til þess að fá ríkisstjórnina til að standa við eitt af sínum fyrirheitum, sem var um það að lækka kostnað af húshitun á köldu svæðunum. Það var ein af yfirlýsingum og eitt af loforðum hæstv. ríkisstjórnar að gera það. Það hefur gengið heldur dapurlega. Hæstv. ríkisstjórn hefur að vísu í krónutölu hækkað dálítið niðurgreiðslurnar og ég hef hér tölur til að rifja upp fyrir þá hv. þm. sem hér eru viðstaddir umræðuna. Í ríkisreikningnum frá árinu 1991 kemur fram að á því ári voru greiddar 283 millj. kr. í þessar niðurgreiðslur. Í ríkisreikningnum 1992 kemur fram að þá voru greiddar 330 millj. kr. í þessar niðurgreiðslur. Þá var reyndar 341 millj. kr. í fjárlagafrv., ég er ekki alveg viss um hvernig þessar 11 millj. kr. duttu upp fyrir sem þarna vantar upp á en alla vega var þessi upphæð ekki hærri, 330 millj. kr. var hún. Á árinu 1993 var tillagan í fjárlagafrv. 347 millj. kr. Til viðbótar voru 80 millj. kr. sem voru sérstaklega til húshitunar. Þessi tillaga var eftir því sem ég man best samþykkt. Þar af leiðandi var nokkur hækkun á ferðinni í krónutölu alla vegana. En á árinu 1994, þ.e. á yfirstandandi ári, voru 347 millj., þ.e. nákvæmlega sama krónutala, í fjárlagafrv. Og þá hafði sem sagt þessi húshitunarliður lækkað, þessar 80 millj. sem voru í fjárlagafrv. á undan voru fallnar út. Á þessu tímabili gerist það að tekinn er upp 14% virðisaukaskattur á rafmagn til húshitunar og síðan eitthvert flókið kerfi við það að deila á milli ákveðnum peningum sem ég ætla ekki að fara út í að útskýra hér. En niðurstaðan af þessu öllu saman er nú samt sú að kostnaður við húshitun á köldu svæðunum á landinu hefur bara lækkað afskaplega lítið ef þá nokkuð. Hins vegar kann að vera að samanburður á þessum kostnaði við húshitun á höfuðborgarsvæðinu hafi breyst nokkuð en það er af allt annarri ástæðu. Það er af þeirri ástæðu að virðisaukaskatturinn á húshitun á höfuðborgarsvæðinu kemur allur til þyngingar og hækkunar á gjöldum fólksins sem hér kaupir húskyndingu. Niðurstaða mín af þessum vangaveltum er sú að loforð hæstv. ríkisstjórnar í þessu efni hafi verið ansi lítils virði. Og í sjálfu sér viðurkennir hæstv. ríkisstjórn það með alveg sérstökum hætti núna á laugardaginn var með því að boða nýtt átak í lækkun á húshitunarkostnaði. Nú á það að gerast með einhverjum sérstökum samningum við orkufyrirtækin. Ég held að sú klausa sé ekki mikils virði heldur því miður. Það verður bara að segjast eins og það er að þessi loforð hafa verið svikin og það eru ekki miklar líkur á að það verði breyting á því.
    Síðan flyt ég, hæstv. forseti, brtt. á þskj. 373 en hún er um að það komi nýr liður við 6. gr. fjárlaga sem hljóðar svo:
    ,,Við 6. gr. Nýr liður: 5.6
    Að endurgreiða kostnað af endurteknum kosningum um sameiningu sveitarfélaga og sveitarstjórnarkosningum sem leitt hafa eða munu leiða af mistökum við undirbúning að kosningum um sameiningu sveitarfélaga á síðastliðnum tveimur árum.``
    Þessi tillaga er flutt í þeim tilgangi að hæstv. fjmrh. hafi leyfi til þess og ekki bara leyfi heldur er þessi tillöguflutningur náttúrlega hugsaður í þeirri ekki bara von heldur vissu, að hæstv. fjmrh. muni greiða þann aukakostnað og viðbótarkostnað sem þau mistök hafa leitt af sér sem gerð hafa verið í félmrn. í tengslum við sameiningu sveitarfélaganna þar sem félmrn. hefur kveðið upp úrskurði sem hafa leitt til þess að fólkið í mörgum sveitarfélögum hefur þurft að standa í síendurteknum kosningu um sameiningu sveitarfélaganna og í sveitarstjórnarkosningum vegna ógildingar þeirra vegna þessara mistaka. Ég ætla ekki að fara að rekja þessa hörmungarsögu hér sem þetta er allt saman, ekki núna. Hv. þm. þekkja þessi vandamál og ég minni bara á að lögmaður eins af þeim aðilum sem þarna eiga hlut að máli heldur því fram að hæstv. félmrh., sem þá var, hefði þurft að hrekjast úr embætti ef þetta mál hefði komið upp á meðan hann sat í því sæti.
    Ég trúi ekki öðru en að þessi tillaga verði samþykkt hér á hv. Alþingi því ég tel að ríkið sem slíkt hljóti að verða að bera ábyrgð á þessum starfsmanni sínum, hæstv. félmrh., og það sé óverjandi að láta sveitarfélögin sitja uppi með þennan kostnað. Ég veit að eitt af þessum sveitarfélögum hefur verið að sækja eftir því að fá greiddan kostnað sem varð af endurtekinni sveitarstjórnarkosningu og það hafa ekki fengist við þessu svör. Að vísu hefur ekki verið neitað að greiða þennan kostnað, en það hafa ekki fengist endanleg svör og ég tel að hv. Alþingi eigi að taka af öll tvímæli í þessu efni, að það verði að bæta þennan kostnað. ( Gripið fram í: Verður ekki Þjóðvaki bara að borga það?) Ég ætla nú ekki að ræða það hér á hv. Alþingi hverjir ættu kannski að borga þetta. En því miður þá held ég að það sé nú ekki möguleiki á því að einkavæða þessa greiðslu sem þarna þarf að inna af hendi og ég tel að það geti enginn gert það nema ríkið.
    Síðan var það hugmynd okkar, mín og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og Steingríms J. Sigfússonar, að flytja hér tillögu um hækkun á framlagi til Landhelgisgæslunnar en vegna þess að hér í

þingsölum var svo fátt í kvöld þá varð ekki hægt að gera það vegna þess að það var ekki hægt að veita afbrigði fyrir þeirri tillögu og því verður hún flutt við 3. umr. Hún gengur út á að það verði veitt framlag sem geri það kleift að reka björgunarþyrluna sem nú er verið að útbúa fyrir Landhelgisgæsluna og er væntanleg innan skamms til landsins, en í þessu fjárlagafrv. eru engir peningar inni til að reka þessa þyrlu. Í þessari tillögu er einnig gert ráð fyrir að það verði peningar til staðar til að það sé hægt að halda úti varðskipi við gæslustörf í Barentshafi á næsta ári. Það er út af fyrir sig merkilegt að hæstv. ríkisstjórn gerir ráð fyrir að hluti af hagvextinum verði fólginn í því að menn dragi nú björg í bú úr Smugunni, en það er ekki gert ráð fyrir að veita neina þjónustu á þessu hafsvæði þó það hafi sannast, svo engin velkist í neinum vafa um það, að það var virkileg þörf á sendiför varðskipsins í Smuguna.
    Ég ætla þá, hæstv. forseti, að fara að ljúka hér máli mínu, sem ég hefði nú kannski haft svolítið lengra, en vegna þessara aðstæðna, klukkan mun vera langt gengin í hálffjögur að morgni, þá ætla ég nú svo sem ekki að vera að lengja þessa ræðu mína. Ég get þá frekar reynt að kveða mér fyrr hljóðs næst þegar þetta mál verður á dagskrá, við 3. umr. En ég vek athygli hæstv. forseta á því að ég bað um orðið, ég held ég muni rétt, innan fimm mínútna frá því að umræður hófust í dag og það hefur liðið allur þessi tími þangað til að ég komst að til að halda mína ræðu og ég hleypti einungis einum ræðumanni fram fyrir mig. Þannig að ég tel að það sé umhugsunarefni hvort svona aðstaða sem þingmönnum er boðið upp á með þessum hætti er yfirleitt boðleg og hvort það væri ekki ástæða til þess þegar svona viðamikil umræða eins og þessi þarf að fara fram að gera þá ráð fyrir ríflegri tíma heldur en þessum, þ.e. á því sem maður getur kallað dagvinnutíma. Það mætti t.d. hugsa sér að hefja hér umræður alveg eins kl. átta á morgnana til að nota daginn í þetta frekar en næturnar, því ég sé að það eru margir þingmenn sem eiga ákaflega erfitt með að lengja vöku sína fram á nætur. Þeir hverfa þess vegna af vettvangi þegar fer að líða á kvöldið og maður talar nú ekki um þegar komið er fram yfir miðnætti þá fækkar mjög ört hér í sölum þingsins. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á þessu, hvort ekki muni vera hægt að hafa það í huga á næstu dögum, ef menn eru svona óskaplega aðþrengdir með tíma, að hefja bara miklu fyrr umræður. Ég hef heyrt talað um að það eigi að hefja hér umræður kl. hálf ellefu í næstu viku en ég legg til að það verði endurskoðað. Ég fyrir mitt leyti mundi vera mjög ánægður með það ef umræður gætu hafist hér kl. átta á morgnana þann tíma sem lifir eftir fram að jólum.