Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 03:22:41 (2717)


[03:22]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði að umræðuefni húshitunarkostnað á köldu svæðunum á landsbyggðinni. Hann rakti hér tölur. Hv. formaður fjárln. lýsti því yfir í sinni ræðu að þessi mál yrðu til skoðunar og athugunar áfram í hv. fjárln. og á milli 2. og 3. umr. þannig að ekki er enn þá sýnt hvað út úr þeirri athugun kemur. En ég vil benda hv. þm. Jóhanni Ársælssyni á að í því fjárlagafrv. er hans flokkur lagði síðast fram eða átti aðild að hér síðast, fjárlög fyrir árið 1991, þá var gert ráð fyrir í því fjárlagafrv. 262 millj. kr. til niðurgreiðslna í húshitun. Núna, í þessu fjárlagafrv., erum við að leggja til við 2. umr. málsins, áður en til 3. umr. er komið, að það verði settar í niðurgreiðslur til húshitunar 397 millj.
    Ég get tekið undir það að þessar 125 millj. kunna að hafa ekki skilað sér með nógu virkum hætti til lækkunar á hinu raunverulega verði sem neytendur eru að greiða á köldu svæðunum fyrir húshitunina. Hv. þm. sagði þó að verðið hefði lækkað, kannski afskaplega lítið, efaðist þó um stund að það hefði lækkað nokkuð, en hitt er ljóst að það hefur lækkað á meðan niðurgreiðslurnar hafa aukist um 81% á kjörtímabilinu og þar er vel að verki staðið.
    Í sambandi við hátekjuskattinn, hæstv. forseti, þá er það alveg hárrétt hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að Alþb. tókst ekki að koma því máli fram í síðustu ríkisstjórn. Það tókst Alþfl. í þessari ríkisstjórn.