Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 03:24:47 (2718)


[03:24]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég veit nú ekki af hverju hv. þm. er að hæla sér svona mikið af þessum hátekjuskatti. Hann hefur nú greinilega orðið að gefa eftir af honum á laugardaginn var. Það hefði verið ástæða til að reyna að bogna ekki í því máli, a.m.k. á meðan verið er að auka halla ríkissjóðs eins og gert er núna. Og ég bara endurtek það í sambandi við umræðuna um þessa niðurgreiðslu á húshitun að það var tekinn upp 14% virðisaukaskattur á húshitunina og skyldi ekki vera að það væru töluverðir peningar sem koma af þeirri tekjuöflun? Ætli það sé nú ekki bara léttara fyrir ríkissjóð að borga þessar 397 millj. til niðurgreiðslu á húshitun heldur en það var að borga 262 millj. áður en virðisaukaskatturinn var tekinn upp? Skyldi það nú ekki vera fyrir hæstv. ríkisstjórn og hennar fylgjendur svolítið atriði að standa við þessar yfirlýsingar sínar sem voru gefnar, ekki bara í kosningabaráttunni heldur eftir að ríkisstjórnin var tekin við, um að það ætti nú aldeilis að taka á þessu máli? Og hv. fyrrv. þm., Eiður Guðnason, fór fyrir nefndinni, sem fór í það mál að vinna að því að koma niður húshitunarkostnaðinum. Þessi nefnd var sett á lappirnar í fyrri ríkisstjórn og það voru miklar fyrirætlanir fram undan um það að reyna að koma á einhverju réttlæti í húsahitun í þessu landi og lækka kostnað á landsbyggðinni. Það hefur bara ekki gengið betur en þetta. Ríkisstjórnin er auðvitað að viðurkenna þessa stöðu málsins með því sem stendur í yfirlýsingunni frá því á laugardaginn um að það þurfi að fara í viðræður við orkusölufyrirtækin um það að reyna að lækka þetta. Það er viðurkenning á því að þetta hefur ekki tekist.