Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 03:26:58 (2719)


[03:26]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Jóhann Ársælsson um staðreyndir. Staðreyndirnar tala sínu máli. Staðreyndirnar eru þessar: Við höfum verið að hækka stórlega niðurgreiðslur á húshitunarverði á köldu svæðunum. Það er það sem við höfum verið að gera og tölurnar segja. Hitt er áhyggjuefni, ef það er rétt að niðurgreiðslurnar skili sér ekki nægilega vel í lækkun á húshitunarverðinu og þar er um hlut að ræða sem við hv. þm. kunnum að hafa ekki vald á, t.d. það verð sem Landsvirkjun býður, hvernig háttað er rekstri og starfsháttum Rariks. En þetta þarf allt saman að skoða núna. Og ég held að við ættum fremur að taka höndum saman um það að reyna að finna leiðir svo að þessir fjármunir sem við veitum til niðurgreiðslna á raforkunni á köldu svæðunum nýtist fullkomlega og verki meira að segja sem hvati á að aðrir taki þátt í þessu átaki sem hæstv. ríkisstjórn hefur hrint úr vör á yfirstandandi kjörtímabili. Þar hefur hæstv. ríkisstjórn staðið sig vel.
    Í sambandi við hátekjuskattinn, enn eru það staðreyndir sem tala. Hv. þm. Jóhann Ársælsson getur ekki horft fram hjá þeim veruleika sem blasir við honum. Alþb. tókst ekki eða jafnvel stóð í vegi fyrir, vegna þess að þeirri spurningu er ekki enn svarað, að hátekjuskattur komst á í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hann komst á í núv. ríkisstjórn og þar hafði Alþfl. frumkvæði eða var það Framsfl. sem stóð gegn setningu hátekjuskatts á síðasta kjörtímabili? Þetta eru staðreyndir málsins, við skulum horfast í augu við þær.