Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 03:29:04 (2720)


[03:29]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef staðið í þeirri meiningu að það hafi ekki staðið á Alþb. að koma á hátekjuskatti og ég hef það staðfest frá einum af ráðherrum ríkisstjórnarinnar hér. Ég hef líka staðið í þeirri meiningu og veit ekki betur en það sé rétt, að hv. þm. Alþfl. í fyrri ríkisstjórn hafi staðið í vegi fyrir því að fjármagnstekjuskatturinn kæmist á. ( GunnS: En skipt um skoðun þá?) Hafa kannski skipt um skoðun núna þá loksins, alla vega er ekki fjármagnstekjuskatturinn kominn á enn. En hátekjuskatturinn komst á og það var út af fyrir sig ágætt að það skyldi gerast. Ég tel að það hafi hins vegar verið veikleikamerki hjá hv. þm. Alþfl. að bogna núna á laugardaginn og lækka þennan hátekjuskatt. Hækka skattleysismörk hátekjumannanna um 50 þús. kr. fyrir eitt venjulegt heimili, en um einungis 4 þús. kr. fyrir heimili sem eru á lágu tekjunum. (Gripið fram í.) Og staðreyndirnar sem hv. þm. er að tala um í sambandi við niðurgreiðslurnar á húshitun eru auðvitað þær að þetta hefur lítið miðað, það hefur orðið hækkun á heildsöluverði frá Landsvirkjun ( GunnS: Rétt.) og ríkisstjórnin átti auðvitað að geta staðið betur að þessu en gert var. Og ef það kostaði meira, þá varð það bara að kosta meira. Menn hafa einungis verið að setja í þetta sem svarar virðisaukaskattinum til viðbótar við það sem hefur verið gert fyrir ( GunnS: Meira til.) þannig að það hefur verið ósköp lítið sem hæstv. ríkisstjórn hefur komist áfram með þetta mál. En ég skal aftur á móti alveg hiklaust segja það hér: Auðvitað erum við tilbúin að taka höndum saman um það að reyna að taka á þessu máli því að það er ekkert réttlæti í því hvernig fólki í landinu er mismunað í þessu, ekki bara í orku til húshitunar heldur í símakostnaði og ýmsu fleiru á milli landshluta.