Fjárlög 1995

58. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 13:42:51 (2726)

[13:42]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1995 er gert ráð fyrir því að skera niður framlög til grunnskóla um 40 millj. kr. sem er auðvitað í hróplegri andstöðu og mótsögn við þá stefnu grunnskólafrv. sem er annað frv. sem sama ríkisstjórn stendur að. Ég tel því nauðsynlegt að gera hvort tveggja í senn: að gefa kost á því að framkvæma stefnu grunnskólafrv. og að koma í veg fyrir niðurskurð fjárlagafrv. með því að gefa þinginu kost á því að fjalla um tillögu af þessu tagi og helst að samþykkja hana.