Fjárlög 1995

58. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 13:53:09 (2727)

[13:53]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um þá skerðingu á framkvæmdafé flugmálaáætlunar sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir og reyndar bandormur ríkisstjórnarinnar einnig. Það á að halda út á þá óheillabraut að skerða þennan markaða tekjustofn sem sérstaklega var lagður á og aflað tekna til með gjaldtöku á flug til að byggja upp flugsamgöngumannvirki hér í landinu. Áformin standa til að taka 70 millj. kr. af hinni mörkuðu fjárveitingu í þessu skyni á næsta ári. Ég tel þetta mikið óráð og glapræði og í raun og veru hrein svik við þá aðila sem stóðu að samkomulagi á sínum tíma um að fjármagna flugmálaáætlunina með þeirri sérstöku gjaldtöku sem hér um ræðir. Ég legg því til að fallið verði frá þessu og framkvæmdaliður flugmálaáætlunar hækki sem því nemur, um 70 millj., og í kjölfarið mundu menn síðan fella út úr frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum þær greinar sem þessu tengjast þar.