Fjárlög 1995

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:36:04 (2734)


[10:36]
     Halldór Ásgrímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. fjmrh. hvernig hann hefur hugsað sér að ljúka þessu máli. Ég man aldrei eftir því að breytingar á skattalögum hafi komið fram jafnseint og núna. Ég vil minna hæstv. fjmrh. á að sumt af þeim breytingum sem nú er verið að mæla fyrir og hann á eftir að mæla fyrir nú á eftir eru breytingar sem hæstv. fjmrh. boðaði í maí sl. vor. Í frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt er t.d. gert ráð fyrir því að heimilt verði að flýtifyrna vegna fjárfestinga á árinu 1994 til þess að hvetja til fjárfestingar. Reiknar hæstv. fjmrh. með því að mikið verði um fjárfestingar milli jóla og nýárs af þessum sökum? Og hvernig hugsar ríkisstjórnin sér almennt að auka hér atvinnu og hvetja til atvinnuþátttöku með svona vinnubrögðum?
    Hæstv. fjmrh. segir að það sé verið að leggja fram frv. til tekjujöfnunar í landinu sem er alrangt og í Ríkisútvarpinu í morgun sagði hann frá því að það hefði verið ákveðið að leggja niður hátekjuskatt eftir eitt ár og það hefði líka verið ákveðið að taka upp fjármagnstekjuskatt eftir eitt ár. Og svo hefur hæstv. fjmrh. skrifað stjórnarandstöðunni bréf þar sem henni er boðin þátttaka í þessum ákvörðunum sem ríkisstjórnin er þegar búin að taka og það er vitað mál að núv. ríkisstjórn fer frá í vor.
    Það er náttúrlega ekki hægt annað en gagnrýna mjög harðlega svona vinnubrögð. Það eru boðaðar hér skattabreytingar á vorin, það er komið með frv. um þær rétt fyrir jól í stað þess að leggja þau fram í upphafi þings og svo gengur ekkert né rekur í þinginu, þarf að fresta málum skipti eftir skipti út af þessum vinnubrögðum.
    Ég hélt því fram fyrir nokkru að fjmrn. hefði verið eins og drusla í skattamálum. Mér fannst ég taka nokkuð mikið upp í mig en eftir að ég hef séð þessi frumvörp núna og þau vinnubrögð sem hæstv. fjmrh. stendur fyrir í þinginu þá tel ég að þetta hafi ekki verið ofmælt, ( GHH: Síst ofmælt.) síst ofmælt eins og hv. þingflokksformaður Sjálfstfl. leiðrétti mig með.
    Ég vildi, hæstv. forseti, nota þetta tækifæri til þess að gagnrýna þetta harðlega og ég sé því miður engin batamerki hjá hæstv. fjmrh. og ég held að það séu engar líkur til þess að þau muni koma fram áður en ríkisstjórnin fer frá.