3. umr. fjárlaga

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:42:15 (2737)


[10:42]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað mér að veita andsvar við ræðu hv. 1. þm. Austurl. um fjárlög, 3. umr., sem hann flutti hér áðan. Það hefur áður komið fram í umræðum um stjórn forseta að hv. þingmönnum finnst frumvörp koma seint fram og ég skal taka undir það og hef reyndar gert það áður. Þess ber þó að geta að þau frumvörp sem liggja nú fyrir eru frumvörp til skattalaga þar sem um er að ræða tiltölulega einföld atriði, ívilnandi atriði, og að þessu leyti til eru skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar allt annars eðlis en verið hefur á undanförnum mörgum árum. Hér er auðvitað um allt önnur vinnubrögð að ræða en stundum hefur gerst áður og ég man frá fyrri tíð og ég veit að hv. þm. Halldór Ásgrímsson, 1. þm. Austurl., man það að stjórnir sem hann studdi settu fram mjög seint á árinu frumvörp til skattalaga sem voru afturvirk, afturvirk en íþyngjandi. Það er rétt að um er að ræða ívilnandi frv. sem á að gilda fyrir yfirstandandi ár, þ.e. um flýtifyrningar. Það hefur legið fyrir frá miðju ári að ríkisstjórnin mundi flytja frv. á borð við þetta og þeim sem munu njóta þessa er það fullkunnugt, þannig að auðvitað er ekki verið að gera út á það. Það veit auðvitað hv. þm. að það er ekki verið að gera út á fjárfestingar milli jóla og nýárs. Það er auðvitað aumur útúrsnúningur þegar því er haldið fram því að þetta er búið að vera í umræðunni í hálft ár og öllum ljóst að til þessa átti að koma.
    Það er rétt að Framsfl. hefur verið beðinn um að tilnefna mann í nefnd til að undirbúa frv. um breytingar á lögum til þess að koma á fjármagnstekjuskatti og ég hélt að það yrði gott samkomulag um það og reyndar kom ekkert annað fram í ræðu hv. þm. en að hann og hans flokkur mundi taka þátt í því starfi.
    Það getur vel verið að hv. þm. telji það viðeigandi að kalla fjmrn. druslu. Það er hans mál og ég ætla ekkert að fara að kenna honum orðfæri. Hann er vanur siglari í sjó stjórnmálanna. Ég hygg þó að þegar grannt er skoðað komi í ljós að þær breytingar sem verið er að gera á skattalögunum eru einfaldar, þær eru ívilnandi og þær komu ekki fram í gær, þær komu fram í fyrradag svo að því rétta sé til haga haldið og þingmenn hafa að sjálfsögðu getað kynnt sér þessi atriði sem koma fram í frv. En ég skal taka undir það að lokum að það hefði verið æskilegt að frumvörpin kæmu fram fyrr og ég veit að þetta kemur ekki til með að tefja störf þingsins vegna þess að frv. er einfalt og ívilnandi.