3. umr. fjárlaga

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:48:09 (2739)


[10:48]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram um þessi vinnubrögð sem hér tíðkast og ég vil taka enn eitt dæmi.
    Sl. mánudag, 12. des., var mælt fyrir frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1995 og hér er meira og minna um endurtekningar að ræða frá fyrri árum þó að hér séu einstaka ný atriði. Það er getið um nánast allt þetta í frv. til fjárlaga og maður spyr sig: Hvernig í ósköpunum stendur á því að frv. af þessu tagi er ekki lagt hér fram fyrr en um miðjan desember? Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvaða skýring er á þessu, hæstv. fjmrh.? Er það skoðun fjmrh. að það tryggi hér einhverja stutta og snögga umræðu að leggja málin fram með þessum hætti? Er verið að reyna að koma í veg fyrir það að stjórnarandstaðan geti komið því til almennings hvað er verið að gera? Hvaða skýring er á þessu? Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi og ef við tökum með daginn í dag þá eru 4--5 vinnudagar eftir í þinginu og við eigum eftir að afgreiða allan fjármálapakkann. Við erum í dag þegar 4--5 dagar eru eftir að byrja á skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eða skattafrumvörpum, þau eru reyndar tvö, þar sem er um fjölda atriða að ræða, bæði efnislegar og tæknilegar breytingar sem auðvitað þarf að skoða rækilega. Við þurfum að kalla til aðila. Ég vil bara leggja það til, virðulegi forseti, að menn taki sig á í þessum vinnubrögðum. Það er engin ástæða til

að hafa þetta svona, en ástæðan er fyrst og fremst sá ágreiningur sem hefur verið innan ríkisstjórnarflokkanna og nú á að varpa hluta af þeim ágreiningi yfir til stjórnarandstöðunnar, kalla hana til. Þetta eru auðvitað alveg dæmalaus vinnubrögð.