3. umr. fjárlaga

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:52:45 (2741)


[10:52]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. er nokkuð ánægður með sig, telur þetta allt saman vera eðlilegt og miklu betra en hjá fyrri ríkisstjórn sem ég mun hafa stutt. Ég held að það sé alrangt hjá hæstv. fjmrh. og mér finnst að hann ætti að taka hlutverk sitt alvarlegar en svo að vera að vitna í slíkt. Ég vil benda á það að hér er að hluta til verið að leiðrétta mistök sem áttu sér stað í fyrra. Hæstv. fjmrh. kom hér á síðustu stundu með mjög umfangsmiklar skattabreytingar í fyrra. Við vöruðum við því þá að gera breytingar á húsnæðisbótum sem voru mjög illa undirbúnar þá. Og hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, ætti að geta staðfest það og alls konar klúður sem kom upp í þeim breytingum, m.a. að því er varðaði Búseta og við reyndum að leiðrétta eftir bestu getu.
    Af hverju í ósköpunum var ekki reynt að leiðrétta þetta strax í upphafi þings? Af hverju kom hæstv. fjmrh. ekki með yfirlýsingarnar frá því í maí inn í þingið í byrjun október? Ég segi að það sé drusluskapur. Hæstv. fjmrh. er nokkuð ánægður með þetta og segir að það megi ekki nota það orð. Ég ætla ekki að taka það til baka. Hæstv. fjmrh. gat komið með megnið af þessu í byrjun október en gerði það ekki og það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Auðvitað er ástæðan ósamkomulag á stjórnarheimilinu vegna þess að það fara allir kraftarnir í það að rífast þar innbyrðis og menn koma engu í verk nema rétt fyrir jól.