3. umr. fjárlaga

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:54:43 (2742)


[10:54]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hæstv. fjmrh. telur að það sé lítið mál fyrir Alþingi að stimpla þetta frv. En ég vil vekja athygli á því að hér er um hápólitískt mál að ræða, þetta er hápólitískt frv. Það er að vísu ívilnandi en það ívilnar sumum meira en öðrum og það talsvert meir. Þetta er ekki jöfnunarfrv. Hátekjuskatturinn er lækkaður. Fjármagnsskattur er ekki tekinn upp. Því er frestað til 1996. Í fyrra var okkur sagt að hann yrði tekinn upp um þessi áramót. Ég man ekki betur en hann hafi verið boðaður í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar. En nú er farið að vísa á árið 1996 og allt aðra ríkisstjórn en nú situr.
    Það er að vísu í þessu frv. verulegur afsláttur á skattinn á háu lífeyrisgreiðslurnar. Ríkisstjórnin hefur verið að deila um hve mikið ætti að auka ójöfnuðinn, ekki hvort það ætti að stefna í jöfnunarátt og þingið er búið að bíða í allt haust eftir ríkisstjórninni. Málið er náttúrlega það að ríkisstjórnin ræður ekki við verkefni sitt og það þarf að skipta um ríkisstjórn. Það verðum við að gera í vor og síðan verðum við að endurskoða frá grunni skattheimtu ríkisins og Framsfl. er að sjálfsögðu tilbúinn að leiða það verkefni.