Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 11:48:03 (2747)


[11:48]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held það sé nauðsynlegt að lesa upp fyrir fjmrh. hans eigið fjárlagafrv. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þyngst vegur að undanþágurnar eru fleiri en að var stefnt í upphafi. Horfið hefur verið frá því grundvallarmarkmiði að hafa aðeins eitt skattþrep, a.m.k. um sinn.``
    Síðan stendur:
    ,,Þessar breytingar hafa óneitanlega dregið úr skilvirkni kerfisins og gert framkvæmdina erfiðari en ella. Það er óumdeilt að í skattalegu tilliti er eitt þrep og sem fæstar undanþágur æskilegasti kosturinn.``
    Af hverju geta menn ekki talað um þetta mál á málefnalegum grundvelli? Af hverju er ekki hægt að ræða það út frá því hvort um tekjujöfnun er að ræða eða ekki? Það er alltaf farið út í eilífa útúrsnúninga. Ég er þeirrar skoðunar og hef alltaf verði þeirrar skoðunar að eitt þrep sé æskilegasti kosturinn. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að því verður ekki komið á aftur nema í bærilegum friði við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins fyrst það var asnast út í að gera þessa breytingu. Ég vil ekki fara út í hana í ófriði við þessa aðila. En það er hart við að búa að hvort sem það er ríkisstjórnin eða aðilar vinnumarkaðarins þá geta menn ekki rætt þetta mál út frá málefnalegum grundvelli. Og hæstv. fjmrh. gerir sig sekan um það hér að láta í það skína að ef það kæmi eitt þrep á nýjan leik þá væri verið sérstaklega að draga úr tekjujöfnun. Það er rangt. Hæstv. fjmrh. ætti að sjá sóma sinn í því að ræða þetta mál málefnalega og lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar um það. Hér er ekki um neina þráhyggju að ræða.
    En ég endurtek að það er ekki verið að fara út í kjarajöfnun í þessu frv. sem hæstv. fjmrh. er að mæla hér fyrir. Það eru möguleikar til að lagfæra hluta af þeim mistökum sem áttu sér stað á síðasta ári en það er engin tilraun til þess gerð. T.d. er vel hægt að breikka eignarskattsstofninn og hækka barnabætur og vaxtabætur. Og hæstv. fjmrh. veit að hér er ekki um neina kjarajöfnun að ræða og hann ætti að reyna að kalla málið réttum nöfnum.