Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 11:54:15 (2750)


[11:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það sem ég var að reyna að koma til skila í ræðustól áðan var að mér finnst þegar verið er að gagnrýna ráðstafanir ríkisstjórnarinnar að menn sleppi því að nefna það sem ríkisstjórnin hefur gert á undanförnum árum. Þar á meðal er ekkert minnst á það núna af hálfu Alþýðusambandsins að matarskatturinn var lækkaður fyrir ári síðan. Ég segi að það sé alltaf gengið út frá því sem gefnu að eitthvað sé búið og þá þurfi ekkert að nefna það aftur. Meira að segja finna þeir að því þegar verið er að gera átak í vegamálum þá sé þetta í þriðja eða fjórða skiptið sem ríkisstjórnin minnist á það. Það er verið að finna að því. Það er eins og það megi ekki tala um það nema einu sinni þá sé það búið, gefið, komin forgjöf í málið. Síðan má ekki tala um það meir. Þegar ég var að tala um kjarajöfnun áðan þá var ég að benda á þá staðreynd sem er um kjarajöfnun hér á landi að samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar þá er munurinn á 20 lægstu og 20 hæstu í tekjum á Íslandi mjög lítill á alþjóðlegan mælikvarða. Margfeldið er 2,7 sem er miklu minna en annars staðar, þ.e. þegar búið er að taka tillit til áhrifa skattsins í þessu. Ég býst við að þetta sé kannski fjórfaldur munur fyrir skatta en sé 2,7 eftir skatta. Í Bandaríkjunum hygg ég að launamunurinn sé ellefufaldur eða eitthvað þess háttar. Í Svíþjóð er hann enn þá meiri en hér á landi. Samt er alltaf talað um sænska réttlætisríkið og Skandinavíu. Það sem ég hef verið að segja er þetta: Skattkerfið eins og það er í dag er gífurlega tekjujafnandi. Ástæðan er sú að það er hátt skattþrep og mikill persónuafsláttur.