Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 13:31:05 (2754)

[13:31]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Við erum nú með til umræðu eitt af nokkrum skatta- og ríkisfjármálafrumvörpum hæstv. ríkisstjórnar sem eru loksins að komast á dagskrá rétt fyrir jólahaldið, svona rétt áður en Þorláksmessuskatan fer ofan í pottinn. Það er sjálfsagt byrjað að verka hana á einu og einu heimili og undirbúa hátíðina. Auðvitað er það dæmalaus seinagangur að vera að fá þessi mál fyrst inn núna og þeim mun verra sem sumt af þessu hefur legið lengi fyrir að þyrfti að koma til afgreiðslu. Ég ætla ekki að setja á langar ræður um það að einstakir þættir skattlagningar eða ríkisfjármála hafa oft verið hér seint á ferð en það réttlætir svo sem ekki þessi vinnubrögð að annað eins hafi einhvern tíma áður gerst. En það sem er hér að gerast að hluta til er að viðamikill pakki breytinga í ríkisfjármálum og varðandi skattlagningu sem sumpart hefur legið fyrir um margra mánaða skeið að ætti að afgreiðast er loksins að koma inn núna. Það væri eðlilegt að spyrja hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi: Hvers vegna voru ekki lögð hér fyrir frumvörp með þeim atriðum sem lágu þó fyrir strax í haust eða frá því í fyrravor þannig að þessu væri þá a.m.k. skipt þannig og efh.- og viðskn. hefði getað farið að vinna að þeim þáttum og tæknilegum málum sem lá fyrir að þyrfti að breyta?
    Þar má nefna hluti sem ríkisstjórnin lýsti yfir strax í fyrravor að hún mundi gera eins og breyttum fyrningarákvæðum, lagfæringum á húsaleigubótakerfinu, vaxtabótakerfinu o.fl. En að stofni til eru hér á ferðinni breytingar sem tengjast hinni margnefndu yfirlýsingu eða reyksprengju hæstv. ríkisstjórnar frá því á laugardaginn var og þau atriði hafa eðli málsins samkvæmt orðið hér mest að umtalsefni. Í þeirri yfirlýsingu er eins og menn vita blandað saman alls konar atriðum, gömlum loforðum vanefndum, yfirlýsingum frá því í maí og svo nýjum ákvörðunum um tilhögun skattlagningar á næsta ári eða komandi árum.
    Ég ætla, hæstv. forseti, að renna yfir frv. eins og það kemur fyrir í þeirri röð sem liðirnir eru þar upp taldir og hleyp þar eingöngu á stærstu atriðunum því að tíminn leyfir ekki annað og út af fyrir sig er

ekki ástæða til að fara ofan í þetta í einstökum smáatriðum.
    Það sem ég vil fyrst staldra við, hæstv. forseti, er c-liður 2. gr. frv. en hann er um að við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna skuli bætast nýr töluliður sem orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Frá tekjum manna sem eru 70 ára eða eldri má draga 15% af greiddum lífeyri úr lífeyrissjóðum sem hafa hlotið staðfestingu fjmrn. skv. lögum nr. 55/1980.``
    Hér er margt að athuga, hæstv. forseti. Nú er út af fyrir sig ekki um það deilt að það hefur verið vilji manna um langt árabil, eða frá því að svonefnd tvísköttun lífeyris kom á með upptöku staðgreiðslukerfisins 1988, að breyta þessum reglum, enda ekki um það deilt að þær eru bersýnilega ósanngjarnar að því leytinu til a.m.k. að menn fái ekki þau 4% sem launamaðurinn greiðir af eigin launum frádreginn frá skatti. Hin svonefnda tvísköttun felst eingöngu í því að 4% greiðsla launamannsins eru skattskyldar tekjur og síðan telst hinn útgreiddi lífeyrir þegar þar að kemur einnig til skattskyldra tekna.
    Nú er ljóst að væri sú leið valin að leiða það í lög að 4% iðgjöld til lífeyrissjóða eða önnur iðgjöld til lífeyrissjóða sem launamaður greiðir sjálfur teldust frádráttarbær eða ekki skattskyldar tekjur þá mundi það fyrst og fremst skila þeim lagfæringum sem eru að greiða í lífeyrissjóðinn og þar af leiðandi mundi sú breyting fyrst og fremst koma til með að hafa áhrif gagnvart þeim sem nú eru að greiða inn lífeyri og í tímans rás en ekki hafa nein bein áhrif á útgreiðslurnar eins og þær eru á líðandi stundu. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Staðreyndin er sú, ef ég hef áttað mig rétt á þessu, að allur þorrinn af þeim sem eru að fá lífeyristekjur í dag greiddar út varð ekki fyrir neinni tvísköttun. Það eru fyrst og fremst þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð eftir 1988, og hafa þá hugsanlega greitt inn í einhver fáein ár og síðan hafið töku lífeyris, sem verða þar fyrir einhverri tvísköttun í pínulitlum mæli. Hér er hins vegar lögð til sú aðferð að heimila 15% frádrátt á öllum lífeyristekjum þeirra sem fá greiddan út lífeyri. Þetta er allt önnur aðferð, allt önnur nálgun heldur en sú sem ég hefði talið að væri mest til umræðu, þ.e. að tryggja ósköp einfaldlega með inngreiðslureglunum að í því felist engin tvísköttun. Staðreyndin er sú að að svo miklu leyti sem inngreiðslurnar eru ekki skattskyldar tekjur þá á ég voðalega erfitt með að sjá og gera greinarmun á því að skattleggja lífeyristekjur og aðrar tekjur.
    Ég hef verið talsmaður þess að taka upp fjármagnstekjuskatt, skattleggja tekjur sem menn fá vegna ávöxtunar fjármagns eins og aðrar tekjur. Ég hef aldrei skilið að ekki megi taka skatta af slíkum tekjum, að á sama tíma og launatekjurnar sem menn vinna fyrir hörðum höndum eru skattlagðar upp á 42%, þá skuli tekjur af fjármagni eða þess vegna tekjur af lífeyri vera algerlega skattfrjálsar.
    Nú ætla ég ekki að segja að það gæti ekki verið góð ráðstöfun að undanþiggja lífeyristekjur manna a.m.k. að einhveru leyti fullri tekjuskattlagningu þó auðvitað hafi menn sinn persónufrádrátt og það gildi skattfrelsismörk gagnvart þessu eins og öðru. En mér hefði fundist vel koma til greina að beita þar einhverri annarri skattlagningu eins og reyndar er að hluta til þekkt þegar tekjutenging á í hlut, frá þeirri hlið þá eru lífeyristekjur stundum aðgreindar frá öðrum tekjum og þær vega minna í tekjutengingu eins og kunnugt er og ég veit að hæstv. fjmrh. áttar sig á. En gallinn við þessa aðferð sem hér er lögð til --- og það sýnir í hvaða vandræðum menn eru með þetta mál að taka um þetta ákvörðun á einum laugardagsfundi --- er sá að það virðist liggja sáralítill reikningslegur undirbúningur að baki vegna þess að þegar spurt er um forsendurnar og spurt: Hvers vegna 15%? Hvers vegna ekki 12, 18 eða 20? Þá verður fátt um svör. Það eru svona þumalputtahugmyndir um það að svo og svo stór hluti útgreidda lífeyrisins komi frá 4%, svo og svo stór hluti komi frá iðgjöldum atvinnurekendanna og svo og svo stór hluti séu vaxtatekjurnar eða ávöxtun fjármagnsins í lífeyrissjóðnum. En það eru slumpreikningar, þumalputtareglur. 15% þýða hins vegar að þeir sem hafa mjög góðan lífeyri fá þarna mjög mikil skattfríðindi.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að það sé stórkostlegt álitamál hvort þetta er rétt aðferð. Ég hefði til að mynda talið að a.m.k. sem bráðabirgðaráðstöfun hefði verið miklu skynsamlegra að búa til ákveðið frítekjumark gagnvart lífeyristekjum sem hefði þá nýst öllum og verið tekjujafnandi aðgerð. Og er það ekki eitt af því sem menn eru sérstaklega að kvarta yfir í lífeyrissjóðakerfinu í dag, það er hvað staða sjóðanna er geysilega mismunandi og lífeyristekjur manna ólíkar? Við vitum að tekjur út úr mörgum almennu lífeyrissjóðunum eru mjög lágar enn sem komið er a.m.k. og réttindin rýr sem menn hafa þar. Fjöldinn allur af almennu verkafólki og hluti af sjómönnum og reyndar allir sjómenn að segja má, þó það sé svolítið mismunandi, búa við hörmulega lélegar lífeyristekjur vegna þess að nú hefur verið valin sú aðferð til að mynda gagnvart sjómönnunum að skerða réttindi þeirra sem því nemur að þeir hefja töku lífeyris fyrr en aðrar stéttir eða við 60 ára aldur. Það þýðir auðvitað að lífeyrir þeirra verður þeim mun lélegri, þessara útslitnu sjómanna sem eru að koma í land um sextugt. Þetta er ekki góð ráðstöfun gagnvart slíkum aðilum sem eru með lágar tekjur heldur þvert á móti.
    Og ég segi alveg eins og er að ég vil hafa fullan fyrirvara á að styðja þessa útfærslu eins og hún er hér lögð til. Ég hefði viljað skoða annars vegar að það yrði lögfest sem langtíma varanleg aðgerð að afnema skattskyldu 4% inngreiðslu launamanna og hins vegar þá, ef menn vildu taka á þessu að einhverju leyti í útgreiðsluhliðinni, að það yrði gert með frítekjumarki fyrir lífeyri. Nóg um þetta atriði, hæstv. forseti.
    Í öðru lagi vil ég nefna d-lið 2. gr. Þar er á ferðinni breyting þar sem hæstv. ríkisstjórn er að hverfa frá nýlegri stefnumótun sinni, tveggja ára gamalli stefnu, um að fella niður í áföngum frádrátt manna vegna hlutabréfakaupa. Þau stórótrúlegu tíðindi gerðust uppi á Íslandi að hér settist að völdum hægri stjórn,

tók við af vinstri stjórn, eða a.m.k. stjórn sem hafði í sér ágæt vinstri ,,element``. Sú stjórn hafði rýmkað reglur manna til að draga hlutafjárkaup frá skattskyldum tekjum. Það var gert með það að markmiði að reyna að örva þátttöku almennings í landinu í atvinnulífinu. En hvað gerðist þegar hægri stjórnin kom undir forustu hægri mannsins og frjálshyggjumannsins og fyrrverandi eimreiðarstjóra, hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar? Hún ákvað að fella niður í áföngum frádráttarliði sem heimiluðu almenningi að kaupa hlutabréf. Það var nú svo kostulegt, svo ótrúlegt. En nú hefur að vísu ríkisstjórnin séð að þetta er hið mesta óráð og ákveður að hverfa frá þessu með tilteknum hætti eins og d-liður 2. gr. felur í sér. Sem sagt það að 80% reglan sem þetta átti að þrepast niður í á þessu ári er fest í sessi til frambúðar.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég fagna þessu. Ég tel skynsamlegt að hafa einhverja ívilnandi eða örvandi aðgerð af þessu tagi í gangi í skattkerfinu. Ég hef að vísu verið þeirrar skoðunar að það ætti að gera þetta með margvíslegum hætti, m.a. með því að heimila fjárfestingarfrádrætti fyrirtækja og heimila þeim sérstaklega að leggja fé í markaðsöflun og nýsköpun af ýmsu tagi, en frá þeirri hliðinni einnig að auðvelda einstaklingum eða ýta undir það að einstaklingar leggi eitthvað af mörkum í þessu skyni. Ég tel það skynsamlegt og fagna því þess vegna að ríkisstjórnin hefur breytt um stefnu. Hún hefur horfið frá því að afnema þessa frádrætti frá tíð fyrri ríkisstjórnar og tekur nú upp stefnu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar í þessu máli. Og batnandi mönnum er best að lifa að sjálfsögðu.
    Þá vil ég í fjórða lagi um e-lið 2. gr. segja eingöngu það að ég tek undir og fagna því að þar er á ferðinni lagfæring varðandi tekjufærslu leigutekna af íbúðarhúsnæði. Mér sýnist fljótt á litið að það sé tvímælalaust til bóta að lögfesta það atriði.
    Í fimmta lagi um 7. gr. frv. og vegna orða sem hæstv. fjmrh. lét falla í morgun, að á ferðinni væri mjög einfalt frv. sem væri auðvelt að afgreiða og menn þyrftu nú ekki að líta mikið á. Staðreyndin er sú að ég bið hvern þann sérfræðing í skattamálum sem hér er staddur að glöggva sig á því á augabragði hvað felst í 7. gr. frv. Hvað þýða t.d. orðin, með leyfi forseta: ,,Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna: a) Í stað orðanna ,,tölul. A-liðar`` í 2. málsl. 3. mgr. B-liðar komi: og 3. tölul. A-liðar og 2. og 3. og 4. tölul. B-liðar.`` Er einhver hér sem skilur þetta á augabragði og veit hvað þetta þýðir nákvæmlega í krónum og aurum? Gefi hann sig fram.
    Auðvitað er hægt að hafa hér við höndina skattalögin og fara í þetta og bera þetta saman og glöggva sig á því hvað þetta þýðir. En ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. fjmrh., þó að hér séu upp til hópa miklir sérfræðingar í skattarétti að það vefjist fyrir einum og einum manni að átta sig á því alveg á augnabliki hvað þarna er á ferðinni. Staðreyndin er sú að þessi grein til að mynda er býsna flókin. Þarna eru á ferðinni ákvæði sem fela í sér til að mynda hluti eins og skuldajöfnun bótagreiðslna upp í vangoldin gjöld, að meðlagsgreiðslur, ef ég hef skilið rétt, megi nú skuldajafna á því formi að skuld sem hefur myndast hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga er tilkynnt til ríkisins, þó að þar sé um að ræða annan og óskyldan aðila, þ.e. Innheimtustofnun sveitarfélaganna, og það er heimilt að skuldajafna upp í þá skuld með bótagreiðslum sem menn eiga að fá við skattauppgjör.
    Þetta er líka pólitískt álitamál. Er búið að fara í gegnum það og eru allir á því að það eigi að gera þetta svona? Þetta þýðir að meðlagsgreiðendunum verður enn minni miskunn sýnd en ella því að til viðbótar þeim innheimtuaðferðum og möguleikum sem hingað til hafa verið kemur nú að það verður hægt að taka af þeim upp í þær skuldir, ef þær hafa myndast, þessar greiðslur í gegnum skattkerfið.
    Þá er nú e-liður 7. gr. ekki beinlínis auðskilinn sumum, hæstv. forseti. Um hvað er þessi e-liður? Hann er um það að sú breyting verði á 69. gr. tekjuskattslaganna að í stað 1. og 2. málsl. 3. mgr. C-liðar komi þrír nýir málsliðir er orðist svo: ,,Vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta skv. 4. mgr. miðast við fjárhæð vaxtagjalda, sbr. 2. mgr., hjá hverjum framteljanda en geta þó ekki orðið hærri en sem nemur 7% af skuldum sem stofnað hefur verið til vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eins og þær eru í árslok.`` o.s.frv.
    Og hvað þýðir nú þetta á mannamáli? Jú, eftir því sem ég kemst næst, og ég tek það fram að ég hef ekki haft mikinn tíma til að skoða þetta, þá þýðir þetta það hjá þessum miklu snillingum sem þar með eru að viðurkenna að frágangurinn á þessu máli í fyrra var ónothæfur, var ómögulegur, og taka undir það sem við sögðum, að þessi skamma skírn eða þessi aðferð við að breyta vaxtabótunum væri mjög illa ígrunduð, að 7% heildarskuldamarkinu sem var áður beitt gagnvart nettóvaxtakostnaði yrði nú beitt gagnvart brúttóvaxtakostnaði. Síðan drægjust vaxtatekjur frá á eftir en ekki á undan. Það þýðir á mannamáli að það er verið að skerða vaxtabætur með þessari breytingu. Eins og þetta er samkvæmt lögunum í dag, þó það kunni að vera gallað fyrirkomulag í framkvæmd, þá eru fyrst tekin brúttóvaxtagjöld. Frá þeim eru dregnar vaxtatekjur. Síðan myndar nettókostnaðurinn stofn til vaxtabóta þó þannig að hann má ekki vera hærri en 7% af heildarskuldum. Með öðrum orðum skerðir þessi breyting í mörgum tilvikum vaxtabótastofninn. Það hlýtur að vera þannig.
    Og þá skulum við bara líta á það hvaða skerðing er hér á ferðinni og hvaða máli skiptir hún í peningum? Og því er ég að rekja þetta m.a., hæstv. forseti, að ég vil að menn átti sig á því að hér eru ekki einföld mál á ferðinni. Það eru engin dæmi til um það svo ég viti til hvað þessi breyting til að mynda kann að þýða. Því nú er það alveg öruggt mál að einhver hluti þeirra sem eru að fá vaxtabætur eru með vaxtagjöld sem nema meiru en þessum 7% og verða þess vegna fyrir skerðingunni eða rekast á þakið. En það vantar útreikninga á í hve mörgum tilvikum það er. Auk þess hef ég ekki miklar upplýsingar um það hvað

algengt það er að slíkir aðilar hafi vaxtatekjur sem dragast frá. Þetta þurfum við að vita til þess að vita hvað við erum að tala um í formi peninga og í formi áhrifa á þolendurna. Það á ekki að afgreiða svona hluti á Alþingi nema menn viti hvaða áhrif það hefur á afkomu fólks. Það á ekki að gera það.
    Hæstv. forseti. Þá er ég í sjötta lagi kominn að 8. gr. frv. Hún er afar einföld. Hún er svona, með leyfi forseta: ,,Lokamálsliður 83. gr. fellur brott.`` Punktur, amen. Og þetta kalla þeir núna, sjálfstæðismenn, að sé afnám á ekknaskattinum. Þetta er ekki nýyrði þetta með ekknaskattinn. Það var mikið notað árið 1989 og reyndar alveg fram til 1991. Svo hvarf þetta orð úr málinu. Sjálfstfl. bar sér þetta ekki í munn í þrjú ár, hæstv. forseti. Í þrjú ár var orðið ekknaskattur ekki til í málinu hjá Sjálfstfl. Af hverju var það? Það var af því að Sjálfstfl. var að leggja hann á. Þess vegna hentaði ekki að tala mikið um ekknaskattinn, ekki 1991, ekki 1992 og ekki 1993. En frá og með síðasta laugardegi þá fann Sjálfstfl. allt í einu í safni sínu þetta gamla, góða orð, ekknaskattur, og hefur notað það óspart síðan. Það er af því að nú á að leggja hann af.
    Og ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, ég er búinn að liggja dálítið í útreikningum vegna þessa máls, að þeim mun meira sem ég skoða þetta þeim mun fráleitari finnst mér umræðan um þennan skatt og um þetta mál. Og þeim mun ömurlegra hversu lágt Sjálfstfl. leggst í þessum ómerkilegu áróðurstilburðum sínum varðandi þennan ekknaskatt. Enda vafðist þetta dálítið fyrir fjármálaráðuneytismönnunum, húskörlunum, þegar þeir komu í efh.- og viðskn. og voru ýmist að þvæla um álag á eignarskatt, stóreignaskatt og svo hnipptu þeir hver í annan og hrukku upp og sögðu: Nei, ekknaskatt, ekknaskatt. Það var af því að nú var búið að skipta um heiti á fyrirbærinu samkvæmt pólitískri forskrift.
    Og hvernig er þetta með ekknaskattinn, hæstv. forseti? Ég er ekki viss um að ég noti ræðutíma minn hér betur með öðrum hætti en þeim að reyna að útskýra þetta mál pínulítið verði það einhverjum til hjálpar. Í sjálfu sér er sú lagagrein tekjuskatts- og eignarskattslaganna sem fjallar um álagningu eignarskatts eða eignarskattsútreikning afar einföld. Hún er ekki nema fimm línur og einni tölu betur. Og segir þar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eignarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 3,5 millj. kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur.`` --- Ég rúnna hér af tölur til þess að menn nái þeim betur. --- ,,Af eignarskattsstofni yfir 3,5 millj. kr. greiðist 1,2%. Af eignarskattsstofni yfir 9,8 millj. kr. greiðist að auki 0,75%, þó þannig að hjá þeim sem hafa tekjuskattsstofn undir 2 millj. kr. skal lækka reiknaðan eignarskatt samkvæmt þessum málslið, hlutfallslega þannig að hann falli að fullu niður ef tekjuskattsstofn er undir 1 millj..``
    Þetta þýðir á mannamáli, hæstv. forseti, að allir sem eiga skuldlausar eignir, nettóeignir, umfram 3,5 millj. borga 1,2% af þeirri eign í eignarskatt á ári hverju, allir. Það er hinn almenni eignarskattur. En síðan var tekið upp tekju- og eignatengt álag á þennan skatt. Og hverjir bera það? Þeir sem bera það að fullu eru einstaklingar sem eiga meira en 9,8 millj. í hreina eign og hafa hærri tekjur en 2 millj. á ári. Það eru einstaklingar sem eru með yfir 167 þús. kr. í mánaðarlaun sem bera þetta álag að fullu og tvöfalt hjá hjónum því að þannig eru allar viðmiðanir eignarskattslaganna að þær tvöfaldast hjá hjónum.
    Og það er svo furðulegt með það að núna talar hvorki Sjálfstfl. né aðrir um almenna eignarskattinn sem allir borga sem á annað borð komast upp fyrir mörkin. Ekkjur sem eiga eignir á bilinu 4, 5, 6, 7, 8, 9 og upp í 9,5 millj. kr. og borga fullan eignarskatt, það er ekkert talað um það. Það er ekki ekknaskattur.
    Nei, en þetta álag á stóreignir hátekjufólks, það er ekknaskattur. Auðvitað er þetta alveg ofboðslegur málflutningur, hann er forkastanlegur. Þarna er á ferðinni lítils háttar álag á eignarskatt stóreignafólks með háar tekjur. Þessi skattur er horfinn út við 83 þús. kr. tekjur á mánuði. Þá eru menn hættir að borga hann. Þó að þeir eigi 20, 30, 40, 50 milljónir í skuldlausar eignir þá borga þeir þennan skatt ekki ef árstekjurnar eru undir einni milljón eða 83 þús. kr. á mánuði. Og er það þannig að hinn eiginlegi ekknaskattur í dag er sá eignarskattur sem ekkjur borga þúsundum saman vegna almennrar íbúðareignar, sem gjarnan er þá kannski á bilinu 4, 5, 6, 7, 8, 9 milljónir. Sárafáar ekkjur á Íslandi komast upp í þessi sérstöku álagsmörk eða svokölluð eignarskattsmörk eins og Sjálfstfl. kallar þau.
    Það er t.d. þannig að af 3.200 aðilum sem komast í að borga eitthvað samkvæmt hærra þrepinu eru einungis 160 komnir á ellilífeyrisaldur. Á hvaða aldri er hitt fólkið? Ja, hvað halda hv. þm.? 45--60 ára, það er uppistaðan af þeim sem borga þennan skatt. Það er stórefnafólk með háar tekjur á besta aldri. Það er það sem lendir í þessu en ekki ekkjur á ellilífeyrisaldri, það er blekking, það er lygi, það er áróðursbragð. Ég skal að vísu viðurkenna það, hæstv. forseti, að ekknaskattsnafngiftin hjá Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu á árinu 1989 var áróðurslega mjög snjöll, fín nafngift. Enda var blásið upp mikið ball út af því máli þá. Það leiddi nú reyndar til þess að sá skattur var bæði lækkaður og tekjutengdur, og er þar af leiðandi sem slíkur að mörgu leyti mjög góð tekjujöfnunaraðgerð í landinu, en nú á að fella hann niður.
    Nei, hæstv. forseti, þetta er auðvitað alveg dæmalaust mál. Og þó ekki dæmalaust því að ég ætla að koma með nokkur dæmi um það hvernig þetta kemur út. Ég ætla að taka þrjú dæmi af ekkju eða einstaklingi. Í fyrsta lagi skulum við hugsa okkur ekkju með eina millj. kr. í tekjur á ári, 83 þús. á mánuði, hvort sem það eru nú launatekjur eða samtals lífeyrir og tekjur af einhverju tagi. Og þessi ekkja á 10 millj. kr. eign, nettóeign. Það eru þau framteljanleg verðmæti og skattskyld verðmæti sem hún á þegar búið er að draga frá skuldir, þegar búið er að draga frá hlutabréfaeign, þegar búið er að draga frá innstæður í bönkum, þegar búið er að draga frá fleiri hluti sem allir eru frádráttarbærir áður en til eignarskattsálagningar

kemur. Og það eru sjálfsagt ekki allir sem hafa áttað sig á því að það er bara þessi nettóeign með öllum þessum frádráttarliðum sem er skattlögð.
    Hvað borgar þessi ekkja í eignarskatt? Þá eru reglurnar þannig að það er tekin þessi 10 millj. kr. nettóeign, frá dragast 3.527.353 kr., eins og þetta var samkvæmt álagningu á síðasta ári. Eignarskattsstofninn eru þá 6.472 þús. kr. og af því er borgað 1,2% eða 77 þús. kr. Þessi ekkja, sem á 10 millj. kr. eign og hefur ekki nema eina milljón í tekjur, hún borgar 77 þús. kr. í hinn almenna eignarskatt. En það er ekki ekknaskattur, segir Sjálfstfl., nei, það er ekki ekknaskattur, nei nei.
    Tökum þá aðra ekkju. Hún er líka með 1 millj. kr. í tekjur. En hún á 15 millj. kr. skuldlausa eign, nettóeign. Þá eru reglurnar þannig að það eru 15 milljónir mínus 3,5. Eignarskattsstofninn eru 11.472 þús. kr. og ekkjan borgar 137 þús. kr. í eignarskatt. Það er ekki ekknaskattur, segir Sjálfstfl., nei, það er ekki ekknaskattur. Við höfum lagt hann á um langan aldur og þetta er ekkert ekknaskattur þó þetta sé að vísu 137 þús. kr. Og þetta sé að vísu ekkja sem borgar þetta.
    En við skulum þá segja að svo sé önnur ekkja sem búi hinum megin við stigaganginn og hún hefur 2 millj. kr. í tekjur. Hún er með 167 þús. kr. á mánuði. Hún er 100% betur sett en ekkjan sem borgar 137 þús. kr. Og hvað gerist þá? Jú, þá kemur þetta álag til sögunnar og bætir 38 þús. kr. við. Ekkjan sem hefur heilli milljón meira til að lifa af, hún þarf að borga 38 þús. kr. af því í viðbótarskatt. Það er ekknaskattur, segir Sjálfstfl. Það er skömm og svívirða. Það er ljótt mál, þ.e. núna, það var ekki sl. þrjú ár meðan við lögðum það á.
    Þetta er nú málflutningurinn. Þetta er nú allur málflutningurinn, þetta er öll reisnin yfir Sjálfstfl. hér. Svona ómerkilegar og billegar æfingar, hæstv. forseti, verð ég nú að segja, er langt síðan maður hefur séð. Það er ekki bara síðan Sjálfstfl. var upp á sitt besta í stjórnarandstöðu hérna á síðasta áratug sem hann sýndi svona tilþrif. En þá brá hann oft undir sig betri fætinum eins og kunnugt er.
    Ef við tækjum fjórða dæmið og segðum að þarna á næstu hæð fyrir neðan búi ein ekkjan enn. Hún er með 1,5 millj. kr. í tekjur, þá borgar hún 19 þús. kr. Og ég verð að segja alveg eins og er að miðað við þann eignarskatt, ótekjutengda eignarskatt sem lagður er á allar eignir yfir 3,5 millj. kr. og allar ekkjur borga, án tillits til tekna, þá er náttúrlega fjarri öllu lagi að tala um þennan smávægilega viðauka hér, þetta álag sem eitthvert sérstakt óréttlæti í þessum efnum. Það er að snúa hlutunum algjörlega við. Ef menn vorkenna ekkjunum núna, þó þeir hafi ekki gert það í fyrra og hittiðfyrra og árið þar áður, þá skulum við fara í það að laga eignarskattskerfið þannig að það veiti þeim einhverja úrlausn. Og ég er með tillögu í því máli. Ég legg til að í staðinn fyrir þennan fáránleika verði t.d. tekin upp sú regla að einstaklingur, sem missir maka sinn og verður þar af leiðandi fyrir því að í einu vetfangi helmingast allir frádráttarliðirnir, fái þrjú ár til þess að leysa sín mál áður en hann tekur að borga hinn tvöfalda eignarskatt. Það væri réttlæti. ( Gripið fram í: Það er í lögum fimm ár.) Eða hvað þetta nú er. Nei, það er ekki þannig, hæstv. forseti. Það held ég nú ekki, ég held að hv. þm. verði að lesa þetta betur. (Gripið fram í.) Ja, það held ég að eigi nú bara við þegar verið er að gera upp dánarbúin og annað því um líkt. Þá eru þarna frádráttarreglur sem reyndar er verið að breyta. ( Fjmrh.: Fimm ár.) Eru það fimm ár gagnvart þessu? ( Fjmrh.: Fimm ár eins og um hjón væri að ræða.) Eins og um hjón væri að ræða? Jæja, þess þá heldur, þá sjá menn líka hversu mikið er að marka talið um ekknaskattinn, þá sjá menn það nú, þess þá heldur. Úr því að þetta er þetta rímilegt, sem ég ekki vissi. Þá þýðir það náttúrlega það að þessi skattur kemur hvergi við ekkjur, einstakling, nema þeir hafi himinháar tekjur og eignirnar séu gífurlegar, þ.e. tvöfaldar, fyrr en eftir fimm ár. Ég verð nú að segja alveg eins og er að enn síður gengur þetta tal um ekknaskattinn upp, enn síður gerir það það.
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað með ólíkindum hvernig um þessi mál er stundum fjallað. Og það læðist auðvitað að manni sá grunur að menn stilli hlutunum svona upp vísvitandi og viljandi til þess að þeir séu misskildir. Ég er alveg sannfærður um það að allur þorrinn af einstæðingum sem eru að borga þennan eignarskatt í dag, þennan almenna eignarskatt, þeir halda að nú eigi að lækka sérstaklega hjá þeim skattinn, allur þorrinn. En staðreyndin er sú að þetta mun verða í sárafáum tilvikum, vegna þess að allir sem borga almennu eignarskattsprósentuna gera það áfram að fullu. Það er ekkert verið að lagfæra stöðuna hjá þeim. Það er ekki verið að tekjutengja þær greiðslur eða gera neitt því um líkt, ekki neitt. Þannig, hæstv. forseti, er auðvitað þessi málflutningur alveg dæmalaus. En það getur vel verið að Sjálfstfl. hafi náð því út og talið mönnum trú um það að hann sé alveg sérstakur vinur ekknanna í landinu, eins og hægt sé nú að lesa það sérstaklega út úr skattkerfinu sem auðvitað er ekki hægt.
    Ég tel að í raun og veru sé miklu nær að segja að 9. gr. frv. hún sé lagfæring gagnvart ekkjum. Hún er skynsamleg breyting varðandi uppgjör eða eignarskattsálagningu dánarbúa, sjálfsögð réttlætislagfæring. Ég skal taka undir að það sé aðgerð gagnvart fólki sem hefur misst maka sinn. En þannig hefur það verið samkvæmt lögunum að það hefur skipt máli fyrir fólk hvort makinn hefur fallið frá snemma eða seint á árinu. Og svo kaldranalegt sem það er að segja það þá hefur verið hagstæðara fyrir fólk ef makinn féll frá á fyrri hluta ársins heldur en seinni hluta í þessu skattalega tilliti, svo merkilegt sem það nú er, vegna þess að þá hefur gefist tími til að gera upp dánarbúið og forða því að það yrði skattlagt með sama hætti. Þetta er verið að lagfæra og það er auðvitað af hinu góða.
    Varðandi aðra þætti þarna, hæstv. forseti, sem koma svo í viðaukunum eða bráðabirgðaákvæðum frumvarpanna þá er nú ekki margt um það kannski að segja nema þá helst það að varðandi fyrninguna eða

flýtifyrninguna þá er það viðleitni sem er góðra gjalda verð. Það er viðleitni til þess að reyna að örva fyrirtæki til fjárfestinga og nýsköpunar og ég tek bara undir það. Það er sjálfsagt mál að reyna það. Ég hefði að vísu talið að það hefði mátt glíma við að reyna að skilgreina frádráttarliði sem beindust meira að raunverulegri nýsköpun, markaðsstarfi og öðru slíku. Það væri vel hægt að hugsa sér. En þetta er betra en ekki.
    Síðan er í ákvæði til bráðabirgða III hinn margfrægi svokallaði hátekjuskattur. Og hvað verður hæstv. ríkisstjórn þá fyrir? Hún hækkar skattfrelsismörkin gagnvart hátekjuskattinum. Þar er hópurinn fundinn sem þarf nú að hlífa og skattfrelsismörkin á hátekjuskatti eru hækkuð úr 400 upp í 450 þúsund vegna hjóna. Ja-há, það er nefnilega það. Eru það heimilin í landinu sem voru í sérstökum kröggum og erfiðleikum, hæstv. forseti? Heimilin þar sem fjölskyldutekjurnar voru akkúrat á bilinu 400--450 þús.? Þar þurfti skattalækkun. Og hver er ástæðan, hvað er borið hér á borð fyrir okkur? Jú, það er sagt: Þetta eru aðallega barnafjölskyldur og sjómenn. Og það er ekki hægt að vera að skattleggja slíka aðila, nei, nei, við verðum að hækka þetta.
    Ég segi við þá ríkisstjórn sem hefur skert barnabætur en getur svo ekki lagt á hátekjuskatt af því að hann leggst á barnafólk: Farið og látið athuga heilsuna. Þetta er í þvílíkri mótsögn, þetta er svo fáránlegur málflutningur að sú sama ríkisstjórn sem hefur skert barnabótaauka og barnabætur upp á eitthvað á milli 500 og 1.000 milljónir kr. á kjörtímabilinu, kemur núna og segir: Nei, við getum ekki lagt á hátekjuskatt með sama hætti og áður af því hann leggst á barnafólk. (Gripið fram í.) Já, hæstv. fjmrh. Í fyrstu skerðingunni voru barnabæturnar skertar um yfir 500 millj. kr. og það hefur verið krukkað í þær í einu tilviki öðru í reynd. (Gripið fram í.) Nei, það er mismæli. 500 til 1.000 milljónir, það vildi ræðumaður alla vega sagt hafa. Þakka hæstv. fjmrh. fyrir aðstoðina. Hann er góður í þessu, hæstv. fjmrh., að leiðrétta menn svona, þó honum séu mislagðar hendur í sínu aðalstarfi. Kannski hann ætti að skipta um og gerast hér málfarsráðunautur. Það yrði alla vega ódýrara fyrir þjóðarbúið að hafa hann í því hlutverki.
    Nei, auðvitað er svona málflutningur alveg út úr kú, hæstv. forseti. Að ríkisstjórn sem hefur skert barnabætur, notar síðan það sem rök til að hækka skattfrelsismörk hátekjuskatts að það hafi komið í ljós að hann leggist í sumum tilvikum á barnafjölskyldur. En ég segi: Hann leggst þó alla vega á þær barnafjölskyldur sem hafa yfir 400 þús. kr. heimilistekjur. En skerðing barnabótanna, við hvaða tekjumörk byrjar hún? Vita hv. þm. það? Um 118--120 þús. kr. Þarf þá ekkert að vorkenna því barnafólki, bara því sem er með yfir 400 þús.? Hvers konar málflutningur er þetta? Hv. þm. Ingi Björn Albertsson á slatta af börnum eins og kunnugt er, barnabótaaukarnir vegna hans fimm eða sex barna byrja að skerðast við 118 þús. kr. á mánuði. En hv. þm. er ekkert nálægt því að komast upp í hátekjuskatt eins og kunnugt er. Hátekjuskattsmörkin eru svo rúm að þó að tveir þingmenn giftist þá koma þeir ekki til með að borga hátekjuskatt. Nei, þau eru langt fyrir ofan það. Þó að ráðherra og þingmaður giftust þá efast ég um að þau slefuðu upp í það að borga hátekjuskatt, sennilega samkvæmt mörkunum eins og þau eru en ekki eftir hækkunina. Það er náttúrlega spurning hvort verið er að búa í haginn, að það standi til hjá einhverjum í ríkisstjórninni að giftast þingmanni og þar af leiðandi vilji menn nú trygga að það par lendi ekki í hátekjuskatti. (Gripið fram í.) Að þetta sé einhvers konar fjölskylduáætlun hjá ríkisstjórninni. En auðvitað er, hæstv. forseti, alveg skelfilegt að standa frammi fyrir þessu.
    Að lokum, hæstv. forseti, hafði ég ætlað að víkja aðeins að skattleysismörkunum. Það hef ég svo sem gert áður í fyrri ræðum og tíma mínum er lokið þannig að ég mun ekki syndga neitt upp á náðina í þeim efnum, enda hefur sú blekking verið svo rækilega afhjúpuð að það ætti svo sem ekki að þurfa að gera betur.