Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 15:22:58 (2757)


[15:22]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að spyrja um hæstv. fjmrh. Er hann ekki viðstaddur umræðuna?
    ( Forseti (KE) : Hæstv. fjmrh. er í húsinu og væntanlega skammt undan en forseti skal gera ráðstafanir til þess að láta vita að hans sé óskað í salinn.)
    Mér skildist á hæstv. fjmrh. í morgun að hann teldi að það þyrfti að ljúka þessu frv. fyrir jól og það væri afar lítill tími til stefnu. Mér finnst lágmark að hæstv. fjmrh. sinni því að hlusta á þessar umræður þó að ég skilji það vel að honum finnist það ekki mjög þægilegt. En hann verður nú að gera sér það að góðu að vera hér.
    Hæstv. fjmrh. Ég hafði ekki hugsað mér að halda mjög langa ræðu um þetta frv. Ég hef gagnrýnt það í morgun hvernig að því er staðið og hæstv. ríkisstjórn telur sér það mjög til tekna þessa dagana að hafa boðið stjórnarandstöðunni upp á að taka þátt í nefndarstarfi um fjármagnstekjuskatt. Það er að vísu í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin vill ræða við aðra flokka um skattamál og það er út af fyrir sig framför því að hingað til hefur hæstv. fjmrh. ekki einu sinni talið nauðsynlegt að láta okkur í té nauðsynleg gögn í málum eins og frægt var við skattalagaumræðuna á síðasta ári.
    Nú ber svo við að ríkisstjórnin ákveður ráðstafanir í efnahagsmálum á laugardegi. Stjórnarandstaðan í landinu verður að búa við það að hlusta á það í fjölmiðlum og það er ekki haft fyrir því að koma viðkomandi gögnum til hennar jafnvel þótt vitað sé að auðvitað er leitað til stjórnarandstöðu á hverjum tíma um skoðanir á slíkum málum. En núv. ríkisstjórn hafði ekki fyrir því að koma gögnum til stjórnarandstöðunnar. Ég kynnti mér það hvort þeim hefði verið komið til formanns efh.- og viðskn. vegna þess að fjmrn. lofaði því meðan ég var formaður efh.- og viðskn. að gögnum yrði komið a.m.k. til formanns nefndarinnar og við það hefur ekki verið staðið. Síðan er allt í einu ákveðið að nú sé rétt að bjóða stjórnarandstöðunni og aðilum vinnumarkaðarins að taka þátt í nefndarstarfi um fjármagnstekjuskatt sem ríkisstjórnin hefur ákveðið, þ.e. núverandi stjórnarflokkar, að eigi að taka gildi í ársbyrjun 1996, en ákveðið um leið, eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti í morgun, að um leið eigi að afnema hátekjuskatt. Þetta er sem sagt það vinnuumboð sem nefndin á að fá. Að taka upp fjármagnstekjuskatt og afnema hátekjuskatt.
    Ég vil upplýsa hæstv. fjmrh. um það að minn flokkur er ekki tilbúinn til þess að ákveða það að hátekjuskattur skuli afnuminn í ársbyrjun 1996 og við tökum ekki þátt í starfi með slíku umboði. Það er náttúrlega lágmark, áður en slík nefnd er skipuð og beðið um tilnefningar, að það fari fram einhverjar umræður um það hvað nefndin á að gera. Ríkisstjórnin hefur ekkert fyrir því eða hæstv. fjmrh. Það er alveg opið af minni hálfu að taka þátt í breiðu samstarfi um kjarajöfnun og hvernig megi beita skattalögum til kjarajöfnunar í landinu, vegna þess að það er þörf á því og það er þörf á því að stjórnmálaflokkarnir og aðilar vinnumarkaðarins setji af stað slíkt starf á breiðum grundvelli. En að það sé eingöngu bundið við eitt atriði sem núverandi stjórnarflokkar geta ekki komið sér saman um kemur ekki til greina af minni hálfu.
    Það liggur alveg fyrir að Alþfl. og Sjálfstfl. ætluðu að leggja á fjármagnstekjuskatt og það stóð í hinni frægu hvítu bók, þar sem ýmislegt ágætt er skrifað í skattamálum. Það bara vill svo til að það hefur ekkert verið farið eftir því. Þar stendur að fjármagnstekjuskattur verði forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar og hann eigi að taka upp á fyrsta ári stjórnarinnar. Þetta veit hæstv. fjmrh. Og hann veit það jafn vel og ég að það eru ýmsir erfiðleikar því bundnir að taka upp fjármagnstekjuskatt og það eru ýmis rök fyrir því að það hefur ekki tekist. Ég geri mér mjög vel grein fyrir því að vaxtamarkaðurinn er viðkvæmur. En að mínu mati er það mjög einfalt að það sé fyrsta skrefið að breikka eignarskattsstofninn þannig að fjármagnseignir séu eignarskattsskyldar með sama hætti og aðrar eignir. Við framsóknarmenn lögðum það til á sl. ári og það var ekki tekið til greina. Ég veit ekki betur en Alþfl. hafi m.a. talað fyrir því að breikka eignarskattsstofninn, hækka skattfrelsismörkin í eignarskattinum um leið, en allar eignir væru jafnar að þessu leyti.
    Nú er það svo að það eru ekki allar fjármagnseignir eignarskattsfrjálsar og það eru dæmi þess að aðilar sem eiga verulegar fjármagnseignir breyta þeim yfir í skattfrjálsar eignir um áramótin. Við búum við það opið kerfi á fjármagnsmarkaði að það er vandalaust að kaupa og selja verðbréf á frjálsum markaði og breyta þeim síðan yfir í ríkisskuldabréf eða aðrar skattfrjálsar eignir nokkra daga yfir áramótin. Og þar með hefur viðkomandi aðili öðlast skattfrelsi.
    Ég held, hæstv. forseti, að það sé alveg nauðsynlegt a.m.k. að kenna fjmrh. eitthvað um þessi mál. Hann var að reyna að kenna okkur hér í morgun um það að það væru einhverjir bolir sem ekki væru frádráttarbærir og það var mjög ánægjulegt að hlusta á það að nú á að tryggja það að bolir sem menn eru í séu örugglega frádráttarbærir frá skatti. Það var mikilvæg kennslustund hjá fjmrh. En það vill bara svo til að ég tel þetta mál vera miklu mikilvægara og ég tel að hér sé um mikilvægt prinsippmál að ræða sem einhvern veginn hefur ekki komist í gegn hjá núverandi ríkisstjórn og það er alveg nauðsynlegt að tala um það. Það má vel vera að hæstv. fjmrh. geri sér grein fyrir því að menn eru farnir að spila á þetta kerfi. Og ef hæstv. fjmrh. gerir sér grein fyrir því að það er farið að spila á þetta kerfi í svo miklum mæli að aðilar sem í reynd ættu að greiða eignarskatt af fjármagnseignum sínum koma sér undan því með því að skipta um pappíra um hver áramót, þá er það lágmark að hæstv. fjmrh. komi með einhverjar tillögur til þess að koma í veg fyrir slíkar athafnir.
    Ég fer ekki ofan af því að þær tillögur sem hér eru fluttar eru flestar ívilnandi, það er rétt, en þær eru fyrst og fremst ívilnandi til þeirra sem meira mega sín. Hér er t.d. ákvæði um það að 15% af greiddum lífeyri sé skattfrjáls ef menn eru orðnir 70 ára eða eldri og hæstv. fjmrh. heldur því fram að þannig sé búið að leysa þessi mál um tvísköttun á lífeyri. Það er ekkert verið að leysa það mál með þessum hætti. Það er miklu flóknara en hérna kemur fram. Og það má náttúrlega ekki ganga svo langt í ívilnunum í þessu sambandi að ekki sé gætt einhvers réttlætis. Er einhver ástæða til þess að aðilar sem fá úr lífeyrissjóðnum mun meira en þeir hafa greitt inn búi við skattfrelsi eins og t.d. opinberir starfsmenn? Það er vinsælt að tala um þingmenn og ráðherra í þessu sambandi en það eru ekkert einu aðilarnir sem fá meira. Ég hef miklar efasemdir um slíkt réttlæti. Hér er ekki sett neitt þak á það. Það skiptir engu máli hvað þessi lífeyrir er mikill. Hann skal bara vera skattfrjáls að 15%. Ef það hefði nú verið sett þak þannig að það mætti aldrei fara yfir einhver tiltekin mörk þá væri um réttláta aðgerð að ræða. En mér skildist á hæstv. fjmrh. í morgun að jöfnuður væri orðinn vandamál í þessu samfélagi, það væri búið að jafna svo mikið í þjóðfélaginu að það næði engri átt og það þyrfti að gera eitthvað í því til þess að íhaldsmenn hér á landi héldu höfði. Mér skildist á honum að hann skammaðist sín fyrir að hitta kollega sína í öðrum löndum vegna þess að þar væri jöfnuðurinn miklu minni og miklu þægilegra fyrir þá að mæta á sameiginlegum fundi íhaldsmanna. Og mér finnst að margt í þessu frv. bendi til þess að fjmrh. sé að reyna að koma sér frá slíkum óþægindum á alþjóðlegum fundum að geta talað við vini sína, íhaldsmennina, í hinum löndunum sem hafa náð miklu betri árangri og komið í veg fyrir allan þennan jöfnuð sem er fjmrh. til ama. Ég hef sem sagt verulegar efasemdir um þetta ákvæði.
    Ég ætla þá að snúa mér að næsta ákvæði sem er frádráttur vegna kaups á hlutabréfum. Það vill nú svo til að ég er sammála því. Ég tel alveg nauðsynlegt að það sé heimilt að draga kaup á hlutabréfum frá skatti. En það er svo undarlegt með þessa ríkisstjórn að hún er alltaf að hringla í þessu máli fram og til baka. Í fyrra var ákveðið að afnema þetta. Það væri nú fróðlegt ef hæstv. fjmrh. reyndi að upplýsa okkur um það. Við skildum það aldrei í fyrra hvernig því stóð. Getur það verið að einhver ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem jafnvel hefur með atvinnumál að gera og vinnumarkað hafi lagst svo á móti því að það hafi verið ákveðið? Og hvaða afleiðingar skyldi nú það hafa haft? Skapar óvissu á hlutabréfamarkaðnum og verður til þess að fjöldi fólks missir atvinnu sína. Ég trúi því ekki að slíkar ástæður hafi legið þar að baki. Mér finnst alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. upplýsi um þetta hringl. Hvernig stendur á því að fjmrh. hefur geð í sér til þess að koma eitt árið og leggja til afnám og koma svo ári seinna og segja: Þetta voru mistök. Nú þarf að laga þetta aftur. Og það væri líka fróðlegt að hæstv. fjmrh. upplýsti á Alþingi hvaða áhrif þetta hefur á hlutabréfamarkaðinn og hvaða eyðileggingar þetta hefur haft í för með sér.
    Ég er þó þeirrar skoðunar að það þurfi breytinga við í þessu sambandi. Ég er ekki tilbúinn með þær brtt. vegna þess að ég tel að það verði að ræða það mjög ítarlega við lífeyrissjóðina. Mér skildist á hæstv. ríkisstjórn sl. vor að það stæði til. Við framsóknarmenn komum fram með þá hugmynd að hver og einn launþegi gæti dregið frá mánaðarlega kaup á hlutabréfum eða öðrum eignarhlutum í fyrirtækjum og sá frádráttur ætti að hækka ef lífeyrissjóður viðkomandi legði fram fjármagn á móti.
    Ég tel þetta mjög mikilvægt mál við þær aðstæður sem nú eru þegar atvinnuleysi er mikið og þess vegna sé nauðsynlegt að styrkja þetta ákvæði og breyta því þannig að allur almenningur taki meiri þátt í atvinnustarfseminni í landinu. Það verði vakinn upp áhugi fleiri til þess að taka þátt í atvinnulífinu og það verði líka sett ívilnandi ákvæði sem hvetji lífeyrissjóðina til þess að taka mun meiri þátt í atvinnulífinu. Ef við fáum ekki almenning og lífeyrissjóðina til þess taka meiri þátt í atvinnulífinu hér í framtíðinni þá er framtíðin ekki björt því að það verður engin atvinna sköpuð nema með fjárfestingum. Og ríkisstjórn sem ekki skilur það á ekki að vera við völd, hvaða flokkar sem eiga þar hlut að máli. Þess vegna er það með ólíkindum ef það getur verið að það hafi verið ráðherra í ríkisstjórninni sem hafi stoppað allar framfarir á þessu sviði og náttúrlega alveg nauðsynlegt að það sé upplýst hér í þinginu.
    Aðeins nokkur orð um húsaleigutekjurnar. Hér er verið að leggja til að húsaleigutekjur séu að nokkru leyti skattfrjálsar sem er í sjálfu sér ekki góð skattaleg regla. Það er ekki rétt að einhverjar ákveðnar tekjur séu skattfrjálsar. Alveg eins og það er rangt að vaxtatekjur séu í öllum tilvikum skattfrjálsar, þá er það líka rangt í prinsippinu að húsaleigutekjur séu skattfrjálsar. En við verðum því miður að viðurkenna það að skattsvikin eru svo mikil á þessu sviði að hér er verið að grípa til ráðstafana m.a. til þess að draga úr þeim. Það er vont að þurfa að viðurkenna það og gefast upp fyrir því. En ég skil hæstv. fjmrh. því að þarna tala ákveðnar staðreyndir. Það kemur fram í skýrslu skattsvikanefndar að þarna eru á ferðinni alveg gífurleg skattsvik. Hins vegar vil ég vara við því að sú hugsun verði almennt gildandi að eina

leiðin til þess að fást við skattsvik sé að fella niður skatta því að það mun illa ganga að reka sameiginlegan sjóð landsmanna, ríkissjóð, jafnvel þó að við fáum betri fjmrh. sem ég skal ekkert segja um hvort maður getur verið svo bjartsýnn. En þó vil ég leyfa mér að vonast eftir því, þá mun það reynast erfitt þó við fáum einhverja kraftaverkamenn á því sviði án þess að innheimta einhverja skatta. Ég er ekki að segja þetta til þess að lýsa því yfir að ég sé andvígur þessu ákvæði en ég vildi aðeins hafa þessi varnaðarorð.
    Þá er komið að 7. gr. sem ég vildi fara nokkrum orðum um. Þar er verið að leiðrétta að hluta til villur sem áttu sér stað í fyrra. Ég vil t.d. nefna c-liðinn þar sem stendur, með leyfi forseta:
    ,,Orðin ,,þar með talin kaup á eignarhlut í íbúð skv. 76. gr. laga nr. 97/1993,`` í 1. mgr. C-liðar falla brott.``
    Síðan segir í athugasemd með greininni að það hafi orðið mistök við framsetningu frumvarpstextans og þar stendur enn fremur, með leyfi forseta: ,,Þá er og lagt til að aðilar að Búseta séu teknir út úr vaxtabótakerfinu þar sem ella er girt fyrir rétt þeirra til húsaleigubóta.`` Það var vitað mál þegar þetta var afgreitt hér í fyrra að þetta var algerlega þýðingarlaust ákvæði. Við í stjórnarandstöðunni reyndum að upplýsa hæstv. ríkisstjórn um það, og veitti ekki af, hvers konar rugl þetta væri. Það var alveg sama hvernig var talað við hæstv. ráðherra í þessu máli. Nei, ruglið skyldi lögfest og það voru settir upp neyðarfundir í þingflokkunum, sérstaklega í Alþfl., til þess að krefjast þess að þetta yrði inni. Og fyrrv. hæstv. félmrh. var svo reið yfir þessu öllu saman að það mátti alls ekki hætta við að lögfesta þessa vitleysu. Nú kemur hæstv. ríkisstjórn og biður hv. Alþingi um að lagfæra ruglið. Er nú von að maður hafi mikla trú á lagaundirbúningi ríkisstjórnarinnar á skattasviðinu þegar svona er unnið því það er vitað mál að búsetafólkið fengi ekkert út úr þessu og þetta yrði þeim til skaða. Ég sé ekki hvernig þær breytingar sem hér er verið að fara út í koma til móts við þarfir búsetafólksins. Það er að vísu rétt að það fólk sem býr í slíkum íbúðum fær einhvern rétt til húsaleigubóta. En það fólk sem býr í þeim íbúðum er mjög illa sett í samanburði við aðra sem búa í íbúðum innan félagslega kerfisins þannig að þar er ekki jafnrétti og með þessu er ekki skapað jafnrétti. Og það verður náttúrlega ekki skapað neitt jafnrétti á þessu sviði nema ráðherrar í ríkisstjórninni skilji hvað verið er að fjalla um. En reynslan sýnir okkur það því miður að hæstv. ráðherrar skilja þetta ekki. Og ég sé ekki merki þess að þeir séu farnir að skilja þetta almennilega enn þá jafnvel þótt hæstv. fyrrv. félmrh. sé búinn að yfirgefa ríkisstjórnina sem ég hef fullan skilning á.
    Síðan er hér líka ákvæði um vaxtabætur að öðru leyti. Ég tek undir að vaxtabæturnar hafa verið skertar um of og það er mikilvægt að skapa svigrúm til að hækka þær. Það er líka mikilvægt að skapa svigrúm til þess að hækka barnabætur ef ríkisstjórnin vill kjarajöfnun í þessu landi. Það er hægt að skapa þetta svigrúm ef menn vilja, m.a. með breikkuðum eignarskattsstofni. Það er tillaga sem við framsóknarmenn höfum verið með og við teljum alveg bráðnauðsynlegt, m.a. vegna þeirra kjarasamninga sem nú eru fram undan, að meiri jöfnuður verði skapaður í skattamálum.
    Vil ég þá koma að því ákvæði þar sem er lagt til að sérstakur eignaskattur eða ekknaskattur verði felldur niður. Við framsóknarmenn lögðum það til við síðustu afgreiðslu skattalaga sl. haust að þessi skattur yrði lagður niður. Það var fellt af stjórnarliðinu eins og allar aðrar skynsamlegar breytingartillögur sem þá voru fluttar. En við lögum jafnframt til að eignarskattsstofninn yrði hækkaður og eignarskattsstofninn breikkaður um leið. Við værum tilbúnir til þess að taka þátt í slíkri breytingu en við teljum að þessi breyting ein og sér sé ekki réttlætanleg. Það þurfi að eiga sér stað víðtækari breytingar í eignarskattinum. Hins vegar vil ég taka undir það að eignarskattur í mörgum þrepum er óæskilegur. En við þurfum að sjálfsögðu að taka tillit til þess ástands sem nú er í þjóðfélaginu og þeirra miklu báginda sem margir þurfa að búa við. Og það er engin von til þess að skapa hér sátt og frið í samfélaginu á næstunni nema ríkisstjórn sýni þeim málum einhvern skilning en sá skilningur kemur ekki fram í þessu frv.
    Ég vildi svo að lokum aðeins fara nokkrum orðum um flýtifyrningar. Það má segja að það sé enn eitt hringlið. Það var held ég á síðasta ári lagður niður fjárfestingarsjóður og ákveðið að hætta því sem var ekkert annað en leið til flýtifyrninga. Það var heimilt að draga frá tekjum ef lagt var í sérstakan sjóð sem síðan væri notaður til fjárfestinga og virkaði á margan hátt eins og flýtifyrningar. Það var fellt niður og nú eru teknar upp flýtifyrningar sem er út af fyrir sig leið til þess að örva fjárfestingar en mér finnst það óeðlilegt að í lok ársins 1994 skuli sett í lög að fjárfestingar á árinu 1994 megi flýtifyrna. Hæstv. fjmrh. sagði hér að ríkisstjórnin hefði lýst þessu yfir í vor. Ég er ekkert viss um að allir hafi svo mikið traust á þessari ríkisstjórn að þeir taki orð hennar sem lög jafnvel þó að skattalögum sé stundum breytt í beinni útsendingu í sjónvarpi, t.d. skattalögum um tekjur barna, eins og hæstv. forsrh. gerði og var alveg ný aðferð í skattalögum hér á landi, en mér sýnist að hæstv. fjmrh. hafi nú þurft að koma með frv. um það mál inn í þingið, þá hef ég miklar efasemdir um það að fyrirtæki og einstaklingar hafi starfað samkvæmt því á árinu 1994 að þetta yrði að veruleika. Það hafa sumir mikla trú á núverandi ríkisstjórn og trú á orðum hennar. En mér finnst það ekki eðlilegt að standa þannig að málum. Þá er það a.m.k. lágmark að slíkt frv. væri flutt í upphafi þings sem var ekki gert og því sé eðlilegt að þetta eigi við um eignir sem er fjárfest í á árunum 1995 og 1996. Þarna er á vissan hátt verið að hygla þeim sem hafa farið út í fjárfestingar en það má vel vera að ýmsir aðrir hefðu gert það ef þetta væri orðið að lögum. Og það þarf að skapa einhvern þann grunn sem menn geta byggt á og treyst á í stað þess að vera alltaf með þetta hringl eins og hlutabréfin eru besta dæmið um.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu við 1. umr. að fara frekari orðum um þetta mál. Við framsóknarmenn munum að sjálfsögðu vinna að þessu í nefnd og reyna að gera okkur grein fyrir málinu eftir því sem við best getum. Við hörmum það hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að málinu og reynt að koma því þannig fyrir að við höfum nánast engan tíma til þess að vinna í málinu og gera okkur grein fyrir því. Ég tel að það liggi ekki mikill vilji á bak við ósk ríkisstjórnarinnar um nefndaskipun. Ég tæki það hins vegar alvarlega ef ríkisstjórnin hefði fyrir því að ræða um umboð og starf slíkrar nefndar fyrir fram en tæki ekki allar ákvarðanir strax og kæmi svo niður í Alþingi og segði við stjórnarandstöðuna: Svona ætlum við að láta vinna í þessu máli. Ríkisstjórn sem er að fara frá. Menn verða að hafa einhverjar samskiptareglur milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu í svona málum. En þær hefur núv. ríkisstjórn á engan hátt virt. Hins vegar vil ég taka það fram að það er fagnaðarefni að það skuli þó almennt eiga að ræða þau mál við aðra flokka. Það er í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin telur þörf á því. Ég vil gjarnan taka þátt í slíkri umræðu en við munum ekki taka þátt í því eingöngu á forsendum ríkisstjórnarinnar. Það verður að vera á forsendum allra en ekki eingöngu tveggja stjórnmálaflokka.