Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 15:59:10 (2761)


[15:59]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Svona í framhaldi af því sem síðast fór milli hæstv. ráðherra og hv. 1. þm. Austurl. þá held ég að það sé rétt að rifja upp hvað stendur í því plaggi sem hér er til umræðu um þetta atriði nákvæmlega, þ.e. hvaða skilyrði ríkisstjórnin er að setja fyrir stjórnarandstöðuna til að taka þátt í þessu starfi við að koma á þessum sérstaka skatti á fjármagn. Þar stendur, með leyfi forseta: ,,Til þess að fjármagna skattfrelsi, hluta af lífeyrisgreiðslum og niðurfellingu sérstaks eignarskatts, verður sérstakur tekjuskattur framlengdur í eitt ár þar til fjármagnstekjuskattur leysir hann af hólmi.`` Ég held að það fari ekkert á milli mála hvað menn eru þarna að segja. Menn eru að fullyrða það að þessi sérstaki tekjuskattur framlengdur, þ.e. þessi hátekjuskattur sem við höfum verið að tala um, eigi að falla niður um næstu áramót og það sé eitt af skilyrðunum fyrir því sem þessi nefnd ætti að fást við eða þetta samstarf stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar á að fjalla um. Hæstv. ráðherra getur ekki vikið sér undan því að þarna er verið að setja skilyrði fyrir þessu nefndarstarfi nema það sé ekkert að marka það sem stendur í þessu plaggi sem við erum að ræða.
    Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta frv. sem hér er til umræðu. Hv. 4. þm. Norðurl. e. talaði fyrir Alþb. fyrstur og fór yfir þetta mál ítarlega en ég ætla að ræða hér um örfá atriði. Fyrst langar mig að tala um það hvernig Sjálfstfl. sérstaklega hefur á undanförnum árum stundað að reyna að koma einhvers konar vondum stimpli á ákveðna skatta. Hér er um að ræða einn af þeim sköttum, þessi svokallaði ekknaskattur. Menn finna upp einhver orð á þessa skattheimtu til þess að gera þau að einhvers konar stimpli á skattheimtuna sem verði síðan til þess að menn muni frekar fást til að fella niður skattheimtuna. Þarna er á ferðinni hátekjuskattur og ég vísa til þess sem hv. 12. þm. Reykv. sagði hér áðan um þennan skatt. Hv. þm. fór mjög nákvæmlega yfir það hvernig sá skattur kemur niður og það hafa fleiri gert í þessari umræðu og það er svo langt frá lagi að það sé hægt að tengja þetta við ekkjur sérstaklega að það nær út af fyrir sig ekki nokkru máli að menn skuli leyfa sér jafnvel að setja í þau plögg sem hér eru höfð handa þingmönnum til að fjalla um einhvers konar svona orð sem er hengt við, nánast uppnefni á þeim skatti sem þarna er á ferðinni. Það er fleira af þessu tagi sem hefur verið stundað á undanförnum árum. Þegar það var rætt um að koma á sérstökum fjármagnsskatti fyrir 4--5 árum síðan þá gekk mikið á í þjóðfélaginu og voru haldnir fundir um þetta hér í Reykjavík. M.a. man ég eftir fundi á Hótel Sögu og þar var aðalslagorðið það að þessi fjármagnsskattur sem var verið að tala um að setja á væri skattur sem mundi fyrst og fremst lenda á blaðsölubörnunum og sparnaði gamla fólksins. Það var eitt af aðalslagorðunum gegn fjármagnstekjuskattinum á þeim tíma hjá Sjálfstfl. Hver eru svo slagorðin gegn hátekjuskattinum sem hér er til umræðu? Það er að það séu sjómenn, húsbyggjendur og barnafólk sem verði fyrir barðinu á hátekjuskattinum. Þannig er leikurinn áfram leikinn að reyna að koma einhvers konar óorði á skattheimtu sem hefur ekki við nein rök að styðjast heldur er notaður markvisst í þeim tilgangi að losna við skattinn aftur. Það eru aðalrökin fyrir því að hátekjuskattinum er breytt og mörkin þar hækkuð að það séu sjómenn, húsbyggjendur og barnafólk sem verði fyrir barðinu á þessum hátekjuskatti.
    Ég tel að það sé fáránlegt að bera þessi rök á borð fyrir fólk a.m.k. á meðan ekki er hægt að koma til móts við kröfur um það að fólk geti fengið lífvænlegar tekjur þannig að það sé möguleiki að framfleyta sér á verkamannalaunum í þessu landi þá tel ég að það nái ekki máli að fara að koma af tekjum hjá ríkinu með þessum hætti þegar við getum ekki gert betur en við gerum fyrir lágtekjufólkið. Það hefur komið fram í umræðunni og það kom fram áðan hjá hæstv. ráðherra í sambandi við þessi 15% sem lagt er til að megi dragast frá vegna lífeyris ellilífeyrisþeganna að einyrkjar sérstaklega hefðu orðið fyrir barðinu á þessari tvísköttun. Það er sjálfsagt rétt. En þeir hafa orðið fyrir barðinu á þessari tvísköttun líka með öðrum hætti. Með þeim hætti að það er fjöldi af einyrkjum sem hafa verið með lítil fyrirtæki og rekið þau undir eigin nafni sem hafa ekki greitt í lífeyrissjóði. Ástæðan fyrir því er ekkert síst það að menn hafa orðið að greiða öll 10% í lífeyrissjóðina af skattpeningum. Það er auðvitað óréttlæti. Það er fleira sem einyrkjar hafa auðvitað þurft að búa við. Þeir hafa t.d. aldrei haft neinn möguleika á því að fá úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Engar atvinnuleysisbætur hafa verið til staðar handa mönnum sem hafa unnið sjálfstætt. Það er ekki nýtilkomið, það hefur ævinlega verið þannig. Og nú eftir að tryggingagjaldið var tekið upp þá hefur það ekkert breyst. Einyrkjar greiða tryggingagjaldið af sínum launum eins og annarra sem

vinna hjá fyrirtækinu en þeir hafa engan rétt á að fá endurgreitt neitt þó þeir verði atvinnulausir, jafnvel þótt þeir séu eini starfsmaður fyrirtækisins þá borga þeir í Atvinnuleysistryggingasjóð án þess að öðlast réttindi þar. Þetta er auvitað ekki boðlegt og þyrfti að taka á þessu máli. Það hefur margkomið fram í þessari umræðu, sérstaklega hjá hæstv. ráðherra að hann telji að þessi lagasetning sem hér er á ferðinni sé ívilnandi og það sé fullkomin ástæða fyrir því að það megi reka þetta mál hratt í gegnum þingið og afsökun fyrir því að það hafi verið sett seint fram á sem sagt að vera á þessum nótum að þetta sé ívilnandi og það sé þess vegna hægt að hraða því. Ég tel að þetta sé rangt. Einfaldlega er þetta skattafrv. hreint ekki ívilnandi nema til sumra. Það er ýmislegt í þessu sem er ágætt og þarf auðvitað að komast fram. Það eru leiðréttingar af ýmsu tagi og í sjálfu sér held ég að það muni nú ekki verða andstaða við að gera þær leiðréttingar en ég held að það sé margt í þessu sem þyrfti mjög nákvæma skoðun til að það verði ekki enn þá fleiri slys í kringum skattlagningarstefnu ríkisstjórnarinnar en hafa verið.
    Ef ég byrja á því að ræða hér um hækkun skattleysismarkanna þá held ég að það hefði þurft að hækka skattleysismörkin með einhvers konar samkomulagi við launastéttirnar í landinu. Ég tel að það sé ekki lítill hluti af því að ná samkomulagi við launastéttirnar að ganga þannig frá skattastefnunni að við það sé unandi. Og þess vegna hefðu nú þessar 2.150 kr. sem þarna var ákveðið að gengju til hækkunar á skattleysismörkunum getað orðið einhver önnur tala vegna samninga sem aðrir legðu þá til grundvallar. Ég vil hins vegar segja um það sem hv. 12. þm. Reykv. sagði um þetta efni þar sem hv. þm. var að bera saman hvaða möguleikar væru til að koma til móts við láglaunafólk með því að nota þessa fjármuni öðruvísi en að hækka skattleysismörkin að mér finnst að þingmenn og ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn sérstaklega sé orðin allt of upptekin af því að halda við þessari láglaunastefnu sem er í landinu. Hv. 12. þm. Reykv. var í raun og veru að tala út frá sama hugsunarhætti, að það eigi fyrst og fremst að nota millifærslukerfi til að draga úr sárasta sársaukanum vegna lágtekjustefnunnar sem er rekin en hún er komin á enda. Ég tel að það gangi ekki lengur að halda sig við þessa lágtekjustefnu sem hefur verið fylgt núna á undanförnum árum. Það er einfaldlega ekki lengur mögulegt og það er ekki einu sinni skynsamlegt frá hendi ríkisins. ( Gripið fram í: Hver er 12. þm. Reykv.?) Hv. 12. þm. Reykv. er Jóhanna Sigurðardóttir ef ég man rétt. Ég verð þá leiðréttur sé ég ekki að fara með rétt mál í því. En það sem ég er að koma hér á framfæri er fyrst og fremst það að þessi lágtekjustefna sem búið er að reka svona lengi gengur ekki lengur. Það er komið að því að það verður að taka á með þeim hætti að hækka verulega lægstu laun í landinu. Ég sagði áðan að það væri ekki skynsamlegt af ríkinu að reka svona láglaunastefnu og það eru rök fyrir því að nú er hið opinbera, bæði ríkið og sveitarfélög, farið að taka þátt í að greiða til þeirra sem hafa þessi lágu laun alls kyns bætur sem menn eiga rétt á þó þeir séu að vinna fulla vinnu. Þess vegna eru menn komnir algjörlega á endapunkt í þessu. Ríki og sveitarfélög eru farin að greiða launin niður fyrir atvinnureksturinn í landinu með þessum hætti. Það sjá allir menn að það er ekkert vit í því. Við erum þá að skekkja atvinnulífið hér, gefa atvinnurekendum falskar vísbendingar um hvað sé skynsamlegt að gera í þessu þjóðfélagi. Það er jafnvel hugsanlegt að menn fari út í atvinnurekstur sem enginn raunverulegur grundvöllur er undir nema sá að það er hægt að fá vinnuaflið fyrir svo lítið af því að hið opinbera er farið að greiða niður vinnulaunin með ýmsum hætti og láglaunastefnunni skal haldið uppi hvað sem það kostar.
    Síðan ræða menn hér um kjarajöfnun með alveg sérstökum hætti og nýjum. Hæstv. fjmrh. kynnti hér tölur í morgun sem komu ýmsum á óvart, þ.e. að það væri einungis 2,7 sinnum munur á því fólki sem væri á lægstu laununum í þessu landi og því fólki sem væri á hæstu laununum. Þetta eru sannarlega falskar tölur það held ég að hver maður sjái sem hefur eitthvað fylgst með launum í landinu, a.m.k. þeir sem eitthvað hafa tekið þátt í kjarasamningum og hafa síðan séð kjarasamninga hjá þeim sem eru tekjulágir og aðra hjá þeim sem eru betur settir. Það kann vel að vera að útreikningur með þessum hætti geti komið svona út ef tekin eru 20% þeirra sem lægst hafa launin og 20% þeirra sem hæst hafa launin. En hvaðan eru þá þær upplýsingar komnar um þá sem hafa hæstu launin? Það eru sjálfsagt úr skattskránum og það hlýtur nú að vera æðimikið tekjubil á milli þess sem hæstur er þarna og þess sem er neðstur í þessum 20% flokki. Ég ætla a.m.k. ekki að gefa mikið fyrir þessar upplýsingar fyrr en betur er ofan í þær farið af því að maður þekkir dæmin og við vitum að launamunur í þessu landi getur verið allt að 20-faldur. Þó svo jafnvel að það sé minni launamunur þegar heildirnar eru bornar saman þá er það engin afsökun fyrir því að halda uppi þessari lágtekjustefnu sem hér hefur verið haldið uppi í landinu.
    Ég vona að í hv. nefnd verði nú farið vel yfir þetta mál, það verði reynt að finna samstöðu um að allt sem er í þessu frv. sem mögulegt er að samþykkja til ívilnunar og þá er ég að meina ívilnunar, ég er ekki að tala um einhvers konar breytingar sem ívilna kannski einhverjum litlum hátekjuhópum eins og raunverulega er verið að gera með mörgu af því sem hæstv. ríkisstjórn er hér að gera og hefur verið að boða á undanförnum dögum. Það er fyrst og fremst verið að koma til móts við þá sem betur mega sín, þá sem hafa hæstu tekjurnar og þá sem eiga mestu eignirnar. Síðan er lyft skattfrelsismörkum lágtekjufólks um 2.100 kr. og það þarf að gerast í tveimur áföngum til að það sé öruggt að það sé nokkurn veginn í takt við spána um hækkun launa svo það verði nokkurn veginn alveg víst að lágtekjufólkið fái ekki meira en svarar því sem ætti hvort sem er að hækka ef menn héldu sig við sömu forsendur og búið er að gera á undanförnum árum, þ.e. setutíma þessarar ríkisstjórnar um útreikning, á því hvar þessi mörk ættu að vera. Það er ekki mjög langt frá núllinu, það er a.m.k. öruggt mál, sumir hafa sagt að það gætu kannski verið 500 kr. í plús miðað við þær forsendur sem menn hafa verið að gefa sér. En auðvitað vita menn ekki hverjar þær verða fyrr en launasamningarnir liggja fyrir. En eitt er alveg víst a.m.k. í mínum huga að það verða hækkanir á launum í vetur. Það verða auðvitað hækkanir á lægstu launum í þessu þjóðfélagi. Kjarajöfnun hlýtur að verða hluti af þeirri þjóðarsátt sem þarf að gera. Og það verður að vera þjóðarsátt sem gengur ekki fyrst og fremst á launafólkið í þjóðfélaginu. Það verður að vera þjóðarsátt þar sem aðrir taka byrðarnar sem eiga betur möguleika á að bera þær. Mér finnst að það hafi komið fram bæði í þessum umræðum og öðrum umræðum undanfarna daga að það er víðtæk samstaða um að það verði að taka á í kjarajöfnun. En mér heyrist að það sé býsna misvísandi hvernig menn telja að eigi að gera það. Mér finnst bera allt of mikið á því að menn komi í ræðustól í hv. Alþingi og lýsi einhverju millifærslukerfi, einhverjum viðbótar millifærslum handa láglaunafólki.
    Ég segi að það er fyrir neðan virðingu Alþingis að halda áfram þessari láglaunastefnu. Það er verið að svívirða fólk með þeim hætti að það séu skilaboðin, það sé boðskapurinn út í þjóðfélagið að vinna þess fólks sem hér um ræðir sé svo lítils virði að það þurfi að koma því til góða með öðrum hætti. Það þurfi að rétta því sveitarstyrkinn til þess að það geti lifað. Svona stefna, sem er auðvitað hluti af þeirri skattastefnu sem við erum að ræða hérna núna og hlýtur alltaf að verða því einhvern veginn verður að ná inn peningum til þess að nota í sveitarstyrkinn, finnst mér vera fyrir neðan virðingu hv. Alþingis. Mér finnst að menn séu komnir til enda og að menn verði að setjast niður í fullri alvöru yfir það að hækka lægstu launin í þjóðfélaginu en láta það ekki kosta það að hærri launin verði hækkuð. Svoleiðis kjarajöfnun er það sem þarf að standa að. Ekki einhverjar nýjar millifærsluæfingar sem verða einungis til þess að niðurlægja fólk enn þá meira en hefur verið gert á undanförnum árum og er þó nógu langt gengið fyrir löngu.