Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 16:19:49 (2762)


[16:19]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er búið að segja hér margt og mikið um þetta frv. og sjálfsagt hægt að halda því áfram lengur. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa verið að gagnrýna þennan afslátt sem á að veita af lífeyrisgreiðslum. Ég tel að það sé allt rétt sem hér hefur komið fram í þeirri gagnrýni að 15% af greiddum lífeyri úr lífeyrissjóðum er auðvitað fáránlegt til einhverrar tekjujöfnunar og til þess að ná því markmiði að hætta tvísköttun á lífeyrisgreiðslur. Eina raunhæfa og réttláta aðferðin til þess er að hafa það skattfrjálst þegar fólk greiðir sín 4%. Eins og raunar var í upphafi áður en staðgreiðslan var sett á. Hæstv. fjmrh. hefur nokkuð lýst því hér að þetta hafi verið tekið með í staðgreiðslunni þegar hún var sett á. Það er vissulega alveg rétt en á þeim tíma var staðgreiðsluhlutfallið ekki nema 35% og einnig var persónuafsátturinn að raunvirði miklu hærri heldur en hann er í dag. Þannig að það er margfalt búið að breyta þeim grunni sem notaður var til að reikna út að lífeyrisframlag launþega væri inni í staðgreiðslunni og inni í persónuafslættinum. Það er því engan veginn hægt að sætta sig við að þetta verði útfært með þessum hætti. Og ég vona að hv. efh.- og viðskn. muni fara vel í þetta mál og það breytist í meðförum hennar.
    Eitt vil ég gera að umtalsefni sem er tekið fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að auknum atvinnustöðugleika og kjarajöfnun frá laugardeginum síðasta þar sem segir að ríkisstjórnin ætli að stuðla að lækkun húshitunarkostnaðar. Hún ætlar núna að hefja viðræður við orkusölufyrirtækin með það fyrir augum að efna til samstarfs um að lækka húshitunarkostnað á dýrustu svæðunum umfram það sem þegar hefur verið gert af hálfu stjórnvalda og er það svo sem í samræmi við hvítbókina sem ríkisstjórnin gaf út þegar hún tók við. Ég tel að þau markmið sem ríkisstjórnin hafi sett sér þá hafi engan veginn náðst. Hún setti sér það markmið að ná að jafna húshitunarkostnaðinn á tveimur árum. Hún byrjaði vel, byrjaði með því að jafna hann að því leyti að hún lagði 35 millj. kr. hinn 1. júní 1991 til þessarar jöfnunar. Og það kom fram á fundi hjá hv. fjárlaganefnd núna í morgun þegar þangað komu fulltrúar frá Rafmagnsveitu ríkisins að miðað við byggingarvísitölu þá væri þetta verð í dag mjög svipað, nánast það sama fyrir notandann eins og það var hinn 1. jan. 1991. Síðan hefði það lækkað lítils háttar hinn 1. júní 1992. Þannig að ef við tölum bara um þetta eins og þetta kemur fyrir sjónir hjá þeim sem þurfa að greiða þennan kostnað þá var kostnaðurinn lækkaður lítils háttar hinn 1. júní 1991 en síðan hefur sigið á verri veg þannig að það sem gert var þá hefur verið tekið aftur í formi annarra hækkana, hækkun frá Landsvirkjun sem síðan hefur komið fram í verði dreifiveitnanna og 14% virðisaukaskattur á húshitun sem þó er að nokkru leyti greiddur niður aftur. En það stendur eftir að í dag greiðir fólk nokkurn veginn það sama miðað við byggingarvísitölu eins og það greiddi hinn 1. jan. 1991. Það er því ekki undarlegt þó hæstv. ríkisstjórn setji sér það markmið að ætla að jafna og lækka húshitunarkostnaðinn á dýrustu svæðunum. Það er svo sannarlega kominn tími til enda kosningar í vor. Það er ekki nóg að segja að það hafi verið lækkað í krónutölu afsláttur og niðurgreiðsla ríkisins á þessu tímabili, það er ekki nóg að segja að þetta hafi verið lækkað í krónutölu um 81% því á sama tíma hefur Landsvirkjun þrisvar sinnum hækkað sína gjaldskrá. Hún hækkaði hana hinn 1. okt. 1991 um 4%, hækkaði hana 1. ágúst 1993 um 6% og hækkaði hana 1. jan. 1994 um 3%. Þetta hafa dreifiveiturnar orðið að taka á sig og láta koma út í sínu rafmagnsverði, hafa þó reynt að hamla á móti þessum hækkunum. En Landsvirkjun hefur á þessu tímabili, frá

1.1. 1991 til dagsins í dag, hækkað sína gjaldskrá mjög svipað, alla liði um 25%. Og svo hælir hæstv. iðnrh. sér af því að hann hafi lækkað í krónutölu niðurgreiðslur frá ríkinu og Landsvirkjun um 81% á þessu tímabili. Ég held að hann sé að spyrja þá notendur sem þurfa að greiða þetta hvort þeir finni það á rafmagnsreikningunum sínum eða hitunarreikningunum að það sé orðið lægra en það var.
    Mér fannst mjög athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. 12. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar hún ræddi um heimild til lækkunar á eignarskatti í sambandi við þá lækkun sem hér er verið að tala um á hærra þrepi eignarskattsins, sem hefur verið kenndur við ekknaskatt og er auðvitað rangnefni, en hún ræddi um heimild til lækkunar á eignarskatti vegna andláts, veikinda, slysa og ýmissa fleiri ástæðna. Þetta er vissulega í lögum um tekjuskatt og eignarskatt en það er ekki nema rúmt ár síðan þetta var gert og ég vil nú bara spyrja hæstv. fjmrh. hvort það hafi verið gerð einhver gangskör að því að auglýsa þetta eða hvort þetta hefur kannski bara komið fram í einhverjum sértímaritum eða sérblöðum um það að fólk gæti sótt um þetta því hv. 12. þm. Reykv. upplýsti það áðan að það hefðu aðeins komið sex umsóknir um þessa ívilnun. Nú veit ég að það geta oft komið upp þær aðstæður að fólk þurfi að sækja um þessa lækkun og þá er ég ekki að tala endilega bara um ekkjur eða ekkla heldur hjón eða einstaklinga sem lenda í því að eitthvað af þeim ástæðum sem tilteknar eru hér eru fyrir hendi. Það þarf ekki að vera annað en að fólk lendi í veikindum eða slysum sem þetta getur komið upp og þá gott fyrir fólk að vita um að það eigi rétt á þessu. Í öðru lagi er þetta heimild í skattalögunum. Ég vildi því spyrja hæstv. fjmrh. hvort þessi heimild sé eitthvað nýtt, þ.e. eru reglur um þessa heimild? Eru þær samræmdar á milli skattstofa? Fara allar skattstofur á landinu nákvæmlega eftir þessu? Er eitthvert eftirlit með því að þessar reglur séu virtar á sama hátt alls staðar? Ég hef grun um það og það hefur reyndar verið rætt að ekki væru alltaf virtar sömu reglur eftir því um hvaða skattstofu væri að ræða. Vonandi er það samt ekki rétt. En ég vildi samt sem áður spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort eitthvert eftirlit sé með því að þessar reglur séu í heiðri hafðar hjá öllum skattstofum og þetta metið á þann hátt sem eðlilegt er.
    Í þriðja lagi langar mig til að gera hér nokkuð að umtalsefni 5. gr. þessara laga. Ég hef alla vega ekki heyrt það í dag að margir hafi komið með umræður um hana. Í 5. gr. segir að það eigi að bætast við 52. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt þar sem verið er að ræða það sem sé skattskylt af rekstrarkostnaði, þá segir hér: ,,Gjafir, þó ekki tækifærisgjafir í fríðu til starfsmanna eða viðskiptavina þegar verðmæti þeirra er ekki meira en gerist um slíkar gjafir almennt.`` Mér finnst þetta vera mjög opið. Hvernig á að vera hægt að meta það að þetta sé undanþegið skatti, ,,tækifærisgjafir í fríðu til starfsmanna eða viðskiptavina þegar verðmæti er ekki meira en gerist um slíkar gjafir almennt.`` Hvernig á að að meta það? Ég sá í útskýringum með þessari grein að þetta væri metið til verðmæti einnar bókar. Hefðbundinnar bókar til jólagjafar t.d. er tekið hér sem merki. En það er nú mjög mismunandi verð á bókum og ekki hvað síst nú fyrir þessi jól. En að tala um hefðbundna bók til jólagjafa getur auðvitað verið alveg á bilinu frá 2.000 og upp í 20.000 kr. a.m.k. Það fer auðvitað alveg eftir því hvaða bók er valin. Síðan segir hér um 5. gr., með leyfi forseta: ,,Með tækifærisgjöf í þessu sambandi er átt við jólagjafir til starfsmanna, gjöf í tilefni af stórafmæli starfsmanns eða meiri háttar starfsafmælis.`` Ég vil bæði í gamni og alvöru varpa þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort t.d. málverkagjöf til Jóhannesar Nordals, seðlabankastjóra mundi falla undir þessa grein. Þannig að þetta væri þá sem sagt hefðbundin gjöf í tilefni af stórafmæli. Ég held því að það sé dálítið erfitt að setja svona inn í skattalög þar sem ekki er þá kveðið á um einhverja sérstaka upphæð sem færi síðan eftir einhverjum verðvísitölum í framtíðinni.
    Það er fleira sem hægt væri að spyrja um í þessu frv. Ég vil einnig spyrja um það hvernig eigi að leysa 12. liðinn í þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þetta frv. sem hér liggur frammi er nú svona framhaldssaga við þessa yfirlýsingu. Í yfirlýsingunni segir að það eigi að efna til samstarfs um lausn á greiðsluvanda vegna húsnæðislána: Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir viðræðum við fulltrúa lánastofnana og lífeyrissjóða um leiðir til að taka á greiðsluvandanum. Ég hef hvergi séð neitt í þessu frv. eða öðru sem hér hefur komið á okkar borð um eitthvert framlag til að leysa þennan vanda. Mér dettur í hug að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þetta sé einhvers staðar inni í þessum tillögum hér eða hvernig hæstv. ríkisstjórnin hefur hugsað sér að leysa þennan vanda. Það hlýtur að þurfa einhverja fjármuni til þess að gera það. Það er örugglega ekki nóg bara að skipa nefnd, hún verður að hafa einhverja fjármuni til þess að leysa vandann þegar hún er búin að skilgreina hann.
    Svo eru það flýtifyrningarnar sem hér er verið að tala um og mér finnst mjög sérkennilegt að fá yfirlýsingu um til þess að jafna kjörin í þjóðfélaginu ef það er eitthvað í sambandi við það því að flýtifyrningar hljóta einungis að koma þeim fyrirtækjum til góða sem hafa þá af einhverjum gróða að státa og þurfa að greiða tekjuskatt. Það er spurning og reyndar kemur það fram einhvers staðar í umsögnum um þetta frv. að ekki sé alveg víst að þetta muni skila sér til ríkisins þó að þarna sé verið að ívilna þessum fyrirtækjum í tekjuskatti því hér segir um þessa grein, með leyfi forseta:
    ,,Líkur eru taldar á að fyrirtæki muni fremur ráðast í fjárfestingu á lausafjármunum með tiltölulega hátt fyrningarhlutfall en síður í mannvirkjum þar sem fjárfesting fellur jafnan til á lengri tíma.``
    Jafnframt segir einnig að það sé erfitt að áætla með nákvæmum hætti áhrif þessara áhrifa og ekki síður hvaða áhrif þau komi til með að hafa á fjárfestingar fyrirtækja. Þannig að það er engan veginn víst þó þeim fyrirtækjum sem á annað borð eru það vel rekin að þau skila ágóða, þó þeim gefist þarna tækifæri til að hafa enn meiri ágóða, að þau skili því til baka í raun og veru með því að ráðast í einhverjar

fjárfestingar sem skili þá aukinni atvinnu eða aukinni veltu. Ég tel að þetta sé mjög umdeilanlegt hvort flýtifyrningar séu aðgerðir sem borgi sig að fara í.
    Eins og ég sagði í upphafi voru þetta nokkur atriði sem ég vildi sérstaklega gera að umtalsefni en það væri hægt að fara í ýmislegt fleira eins og t.d. vaxtabætur sem hér á að breyta rétt einu sinni og fólk er varla búið að læra á það hvernig þessar breytingar á vaxtabótum eru þegar búið er að breyta þeim einu sinni enn. Væri nú fróðlegt að fá það upp gefið hjá hæstv. ráðherra hversu oft forsendum vaxtabóta hefur verið breytt á þessu tímabili sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið við völd eða hefur það ekki verið gert árlega a.m.k.?