Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 16:54:22 (2768)


[16:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta frv. er enn einfaldara heldur en það frv. sem við vorum að ræða fyrr á þessum degi. Í raun er aðeins tekið á einu efnisatriði en það er tekjuskattur af tekjum barna sem um ræðir í 2. mgr. 65. gr. skattalaganna. Þar segir að 6% af öllum tekjum án persónuafsláttar skuli greiða í skatt, annars vegar í tekjuskatt og hins vegar í útsvar. Reyndar þarf að taka það fram strax í upphafi að annað frv. sem þarf að vera samferða þessu í gegnum þingið er frv. til laga um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga því að hluti af skattlagningu barna og ungmenna fer til sveitarfélaganna og í dag er hlutfallið þannig að 4% ganga til ríkisins en 2% til sveitarfélaganna. Ég veit ekki betur, virðulegur forseti, en að það mál hafi verið lagt fram á hinu háa Alþingi. Það er hæstv. félmrh. sem þarf að leggja það mál fram og mæla fyrir því og það er eðlilegt að þau séu samferða í gegnum þingið.
    Í þessu frv., eins og hinu sem ég nefndi til sögunnar og væntanlega hefur verið lagt fram, er gert ráð fyrir því að settur verði sérstakur persónuafsláttur á tekjur barna og ungmenna þannig að fyrstu 75 þús. kr. sem þetta fólk vinnur sér inn á ári skuli njóta persónuafsláttar. Það er gert ráð fyrir að þetta frv. geti tekið gildi strax við upphaf næsta árs og komi þá til framkvæmda við álagningu á árinu 1996 á tekjur ársins 1995. Þetta þýðir að staðgreiðslan kemur strax til skila á næsta ári nema þar sem sú staðgreiðsla yrði undanþegin með reglugerð eins og heimilt er en það er ekki enn fullkannað hvernig að því yrði staðið. Það skal tekið fram að sérstök skattlagning á launatekjur barna og ungmenna hefur verið í lögum frá árinu 1980, samanber lög nr. 40/1978. Þau lög voru í gildi um tíu ára skeið eða þar til staðgreiðslulögin tóku gildi. Fram að þeim tíma var launatekjum barna og ungmenna bætt við tekjur foreldra sem auðvitað hafði þau áhrif að þeir foreldrar sem höfðu tekjur yfir skattleysismörkum, skattleysismörk voru afar lág í þann tíma, þurftu að greiða mismunandi háa skatta eftir því í hvaða skattþrepi tekjurnar voru og gat það verið breytilegt eftir tekjum foreldra. Þetta þótti ósanngjarnt því að þetta þýddi að tekjur barna voru stundum ekki skattlagðar en að öðrum kosti verulega skattlagðar og það fór allt eftir tekjum annars vegar barna og hins vegar foreldra. Árið 1978 var þessu breytt og það urðu talsverðar umræður hér á hinu háa Alþingi í framhaldi af þeirri breytingu. Þáv. fjmrh. lagði fram breytinguna en sá sem tók við breyttum lögum var núv. hv. þm. Ragnar Arnalds og þeir sem elstir eru hér á þingi muna að hann á sínum tíma var hundskammaður af ýmsum aðilum fyrir að vera að leggja á sérstaka barnaskatta. Einhvern veginn hefur það gerst í umræðunni að ýmsir hafa ekki áttað sig á því að um slíka skattlagningu er að ræða. Það kom reyndar mjög skýrt fram í umræðum sem urðu fyrir nokkru þegar Skattstofan í Reykjavík tók til athugunar skattframtöl einstakra útgefenda því þá kom í ljós að í gegnum tíðina hefur verið mismunandi framkvæmd á skattlagningu tekna þeirra sem bera út blöð, eru umboðsmenn fyrir blöð og selja blöð. Í sumum skattumdæmum hefur þetta fólk verið skattlagt annars staðar ekki. Mjög sérkennileg umræða varð um þetta efni þar sem m.a. fyrrv. fjmrh., hv. 8. þm. Reykn., lýsti því yfir að hann hefði beitt áhrifum sínum í fjmrn. til þess að þetta fólk, börn og unglingar, sem báru út blöð og seldu blöð yrðu ekki skattlögð. Enginn kannast við að slík fyrirmæli hafi verið gefin, hvorki í fjmrn. né í skattkerfinu. Þvert á móti er því haldið fram að allir hafi vitað um álagningu á tekjur barna og upplýst er að m.a. 1989, 1990 og 1991 svo ég taki þrjú ár sem voru fyrir starfstíma núv. ríkisstjórnar þá voru 9.500--10.600 einstaklingar sem greiddu skatta að upphæð frá 35--39 millj. kr. Þessar tölur hafa lítið breyst. Tekjurnar risu þó hæst 1992 en þegar gert var upp 1994 vegna 1993 kemur í ljós að 10.100 börn og ungmenni greiða skatta og álagningin eru 43,7 millj. kr. á að giska og í staðgreiðslu 35,5 millj. kr. Þetta þarf að koma hér fram því ég hygg að ýmsir hafi talið þegar umræðan hófst að börn og unglingar almennt greiddu ekki skatta og hér væri um einhverja nýja pólitíska ákvörðun að ræða. Það er að sjálfsögðu alrangt eins og ég veit að nú hefur verði leiðrétt dyggilega.
    Við undirbúning þessa frv. þá bað ég embættismenn ráðuneytisins um að kanna vilja í efh.- og viðskn. og án þess að sá vilji væri bókaður eða bindandi á nokkurn hátt þá töldum við að aflokinni þeirri skoðun í nefndinni að ekki væri fært að veita undanþágu fyrir börn eftir hvaða atvinnu börnin stunduðu. Það væri nauðsynlegt ef menn vildu lækka skatta á börnum að láta skattinn lækka með sama hætti og gerist um annað fólk sem greiðir skatta, þ.e. að um einhvern persónuafslátt væri að ræða og þá mundi það gilda fyrir öll börn og öll ungmenni sem hefðu tekjur. Með öðrum orðum það væri ekki efni til þess að gera mun á því hvort ungt fólk ynni við sendilsstörf eða blaðburð. Það má heldur ekki gleyma því að þessi störf eru unnin af fólki á ýmsum aldri og það er ekki ætíð fólk innan 16 eða 17 ára aldurs sem vinnur við blaðburð. Í mörgum tilvikum er þar um að ræða fullorðið fólk sem að sjálfsögðu nýtur þá venjulegs persónuafsláttar eins og gildir um tekjur af annarri vinnu. Þar er enginn munur gerður á því hvort fólk vinnur við póstburð eða blaðburð. Það eru hinar venjulegu reglur skattalaganna sem gilda í báðum tilvikum.
    Niðurstaðan varð hins vegar sú að leggja til að fyrstu 75 þús. kr. væru skattfrjálsar en síðan greiddist 6% skattur á það, 4% tekjuskattur og þá 2% útsvar eins og hingað til hefur verið gert.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál. Ég tel að það sem hafi hafist sé dæmigert upphlaupsmál og endar í því að menn reyna þá að finna sanngjarna lausn á málinu. Það kann að vera eðlilegt og ég vona að hv. þm. finnist eðlilegt að þeir sem minnstar tekjurnar bera úr býtum þurfi ekki að greiða skatta en jafneðlilegt sé það að skattbyrðin sé jöfn, þá skipti ekki máli við hvað fólk vinnur, og það sé hollast fyrir okkur að ala upp börn og ungmenni með þeim hætti að sömu reglur gangi yfir alla vegna þess að að öðrum kosti gæti fólk haldið að það væri eðlilegt að stunda suma starfsemi án þess að skattur sé greiddur af henni. Það er uppeldislega rangt frá mínum sjónarhóli.
    Ég skal taka það fram að það hefur verið nokkur ágreiningur milli manna, ég ætla ekki að nefna nein dæmi í því sambandi, en sumir hafa talið að það væri hægt að beita áhrifum fjármálaráðherrans, hann gæti einfaldlega hringt í skattstjórana og komið í veg fyrir að skattar séu lagðir á suma og ekki aðra. ( FI: Hver er svona illa að sér?) Því hef ég mótmælt kröftuglega. En ég hef allan tímann sagt: Ef menn hafa áhuga á því að létta skattbyrðinni af börnum þá ber að gera það með þeim hætti að sú aflétting nái til þeirra sem starfa í öllum greinum en gildi ekki um einstakar atvinnugreinar eða störf sem í sumum tilvikum eru þannig að einungis er hægt að vinna þau störf á vissum stöðum á landinu því öllum er ljóst að fólk til sveita, ungt fólk til sveita hefur eðlilega minni líkur til þess að geta unnið við blaðburð eða blaðasölu.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram til að skýra þetta mál. Málið er ekki flókið. Ég skal viðurkenna að það er alls ekki sjálfsagt heldur. En þetta varð niðurstaða vegna mjög mikillar gagnrýni sem kom fram í umræðunni á hinu háa Alþingi á fjmrh., fyrir það að hér skyldu vera lagðir skattar á börn og ungmenni. Ég veit að síðan hafa fjölmargir hv. þm. komið til mín og nánast sagt að þeir hafi ekki áttað sig á því hvernig staða málsins er í raun og þess vegna er tekið á málinu með þessum hætti. Ég bið hv. þm. í hv. efh.- og viðskn. að kanna þetta mál ítarlega með tilliti til þess sem hér hefur verið sagt. Ég tel að eftir að þetta frv. er komið fram sé varla hægt að snúa við, það verði að láta þetta lagafrv. ná fram að ganga jafnvel þótt ljóst sé að ríkissjóður verði af verulegum tekjum eða jafnvel 20--30 millj. kr. tekjum. Málið var þannig undirbúið og það var tekið á því með þeim hætti að ef Alþingi ætlaði að snúa við núna mundu ýmsir telja að einhvers konar brigð væru á ferðinni af hálfu stjórnvalda.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þetta skýri aðdraganda málsins og kannski kenni okkur hv. þm. að stundum borgar sig að hugsa aðeins um það hvaða afleiðingar það hefur þegar menn grípa til þeirra ráða að ráðast að einstökum ráðherrum fyrir það sem þeir eru að gera og eru að gera vegna þess að þeim ber skylda til þess að fylgja lögum.