Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 17:12:09 (2770)



[17:12]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ánægja mín að fjalla hér um skattamál og bera saman árangur þessarar ríkisstjórnar og þeirrar fyrri í skattamálum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að staðgreiðslan hefur hækkað en þó fyrst og fremst í seinni tíð vegna þess að útsvar hefur hækkað. Þegar litið er á skattbreytingar á ársgrundvelli hjá þessari ríkisstjórn sem nú situr við völd þá kemur í ljós, og þessar upplýsingar liggja hjá hv. nefnd, að skattar hafa lækkað á ársgrundvelli um 1 milljarð. Þetta þýðir að skattar á fyrirtækjum hafa lækkað um það sem nemur 2 milljörðum en hækkað á einstaklinga um 1 milljarð. Nettó hafa skattar lækkað á ársgrundvelli um 1 milljarð. Hvernig skyldi svo þessi samanburður líta út þegar borið er saman við þær breytingar sem gerðar voru hjá síðustu ríkisstjórn? Jú, reikningurinn sýnir að skattar hækkuðu um 11 milljarða kr. mældir með nákvæmlega sama hætti, 9 milljarða kr. hækkun á einstaklinga og 2 milljarðar kr. á fyrirtæki. Samtals 11 milljarðar kr. Á sama verðlagi reiknað með sama hætti þannig að út koma heildartekjur miðað við sambærilegan efnahag á heilu ári. Þetta er samanburðurinn. Og ég spyr: Er nokkuð eðlilegra en bæði börn og unglingar beri slíkt saman og segi, ef fólkið er á móti sköttum yfir höfuð og vill draga úr þeim: Við kjósum frekar þá sem lækka skattana heldur en hina sem hækka þá.