Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 17:14:00 (2771)


[17:14]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. fjmrh. hafi örlitið misskilið mig. Ég var ekki að bera saman skattastefnu fyrri ríkisstjórnar og núv. ríkisstjórnar. Ég var að bera saman kosningaloforð Sjálfstfl. fyrir alþingiskosningarnar 1991 og efndirnar. En það er alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. að það kann vel að vera að menn vilji bara horfa á þetta út frá buddunni. Ég tek undir að það er auðvitað það sem skiptir máli. Hverjar eru ráðstöfunartekjurnar? Ætli fólk finni það ekki best í dag hversu miklu erfiðara er að lifa nú af laununum sem þeir hafa sem eru í vinnu heldur en það var um mitt ár 1991. Sjálfstfl. lýsir því yfir í þessari sömu landsfundarsamþykkt og ég hef gert hér að umræðuefni og vitna þar til hennar, með leyfi hæstv. forseta. ,,Skattbyrði heimilanna er nú með þeim hætti að ekki verður við unað. Svo mikil er skattbyrðin orðin að alþýðufjölskyldan hefur vart fyrir brýnustu nauðsynjum.`` Þetta var mat Sjálfstfl. í mars 1991. Hvert skyldi það vera í dag þegar þetta allt hefur farið á verri veg? Skattprósentan hefur hækkað, barnabæturnar hafa verð skertar, vaxtabæturnar hafa verið lækkaðar, álögurnar í heilbrigðisþjónustunni auknar á ellilífeyrisþegana og öryrkjana, álögurnar í skólakerfinu hafa verið auknar? Þegar þetta er allt saman metið saman, hæstv. fjmrh., þá held ég að þetta komi best fram í buddu alþýðufjölskyldunnar og hún finni í raun og veru fyrir því hvað það er erfiðara að lifa nú heldur en það var um mitt ár 1991. Ég tala nú ekki um sérstaklega fyrir þá sem ekki hafa atvinnu.