Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 17:52:28 (2779)


[17:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þegar rætt er um skattbreytingar þá er ávallt erfitt um samanburð. En ég vil aðeins ítreka að þegar við tökum ríkissjóðsskatta, skatta sem fólk og fyrirtæki borga til ríkissjóðs, þá stendur það sem ég segi að á kjörtímabilinu, ef við lítum á árið 1991 annars vegar og 1995 hins vegar, nú sjáum við nokkuð vel hvaða breytingar verða gerðar á sköttum á þessu tímabili, þá munu skatttekjur ríkisins mældar með nákvæmlega sama hætti, þ.e. á ársgrundvelli, lækka. En það er rétt að þær lækka um 2 milljarða á fyrirtækjum en hækka á einstaklinga um það bil um 1 milljarð svona nokkurn veginn. Það er auðvitað stundum erfitt að greina á milli.
    Ég mótmæli því svo hins vegar að ríkið beri ábyrgð á því að skattar hjá sveitarfélögunum hafa hækkað einfaldlega vegna þess að það er ekki af ríkisins völdum sem útsvar hefur hækkað umfram þá lækkun sem varð eða niðurfellingu á aðstöðugjaldinu. Það eru önnur sjónarmið sem hafa ráðið því hjá sumum sveitarfélögum að þau hafa kosið að nýta útsvarið meira en áður hefur verið gert. Og nýtt holræsagjald í Reykjavík er ekkert vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Það er mikill misskilningur. Það er sérstök ákvörðun sem er tekin af borgarstjórninni í Reykjavík vegna framkvæmda sem eiga sér stað í Reykjavík og hafa ekkert með ríkisstjórnina að gera. (Gripið fram í.)